merki sameinaðs sveitarfélags

Veistu hvað þú ert að setja ofan í þig og á?

Föstudaginn næstkomandi, 4. febrúar, kemur Una Emilsdóttir læknir og eiturefna aðgerðasinni og heldur fyrirlestur í Skjólbrekku. Fyrirlesturinn hefst kl. 16.

Í ljósi þess að loks gefst færi á samverustund bjóðum við í vöfflukaffi kl. 15 þar sem við komum saman og ræðum málefni sveitarfélagsins, en svo byrjar fyrirlesturinn kl. 16. Kjörnir fulltrúar verða á staðnum og að sjálfsögðu eru öll hjartanlega velkomin.

Una Emilsdóttir er almennur læknir, menntuð í Kaupmannahöfn. Að loknu námi starfaði hún á taugadeild og geðdeild í Kaupmannahöfn, og síðastliðin ár á Landspítalanum og á heilsugæslu. Á námsárum sínum hreifst hún af faginu „umhverfislæknisfræði“ (e. environmental and occupational medicine). Þar er fjallað um eiturefni í nærumhverfi, matvælum, snyrtivörum o.fl., en slík efni geta haft verulega mikið að segja fyrir heilsu manna. Hún mun fjalla um mörg þessara efna, sem oftast nær eru falin og óþekkt neytendum, og tengingu þeirra við langvinna sjúkdóma. Einnig verður mikilvægi ónæmiskerfisins og þarmaflórunnar rætt svo eitthvað sé nefnt. Hún segir að hver og einn geti tekið ábyrga afstöðu varðandi mataræði og nærumhverfi og vill koma leiðbeiningum áleiðis til áhugasamra. Una hefur haldið fyrirlestra af þessu tagi frá árinu 2015 við góðar undirtektir, verið gestahöfundur í bókinni “Máttur Matarins” sem kom út árið 2016, verið viðmælandi í hlaðvörpum og útvarpi og þar að auki skrifað greinar fyrir Læknablaðið, Nettóblaðið, Morgunblaðið ofl.

Fyrirlesturinn er hluti af hamingjuverkefni Skútustaðahrepps og því er frítt inn.

Sjáumst hress og kát!

Scroll to Top