merki sameinaðs sveitarfélags

Skútustaðahreppur kaupir jörðina Kálfaströnd

Gengið hefur verið frá kaupsamningi um jörðina Kálfaströnd (Kálfaströnd 1 og Kálfaströnd 2) við eiganda hennar, Elínu Einarsdóttur. Skútustaðahreppur kaupir jörðina og fasteignir sem henni fylgja á 140 milljónir. Stærð jarðarinnar er um 1500 hektarar og er hún meðal stærstu veiðiréttarhafa í Mývatni. Kálfaströnd á land að Höfða, sem er í eigu Skútustaðahrepps og er vinsælt útivistarsvæði Mývatnssveitar.

Viðræður um kaupin hafa staðið yfir frá vordögum 2021, með hléum. Það er sameiginleg framtíðarsýn kaupanda og seljanda að sveitarfélagið Skútustaðahreppur muni um ókomna tíð stuðla að vernd náttúru Kálfastrandar. Sameiginleg framtíðarsýn felur jafnframt í sér að almenningur eigi þess kost að njóta náttúru jarðarinnar á grundvelli skipulags. Skútustaðahreppur mun vinna að þróun skipulags og innviðauppbyggingar á Kálfaströnd í samræmi við þessa framtíðarsýn.

Með kaupunum opnast sveitarfélaginu möguleikar til að gefa íbúum og gestum aukið aðgengi að náttúruperlunni Mývatni á grundvelli langtíma skipulags og byggja upp stefnumiðað samstarf við menntastofnanir, stofnanir ríkisins, sjóði á sviði náttúruverndar og innviðauppbyggingar og aðra sem láta sig einstaka náttúru Mývatnssveitar varða. Kaupin gefa sveitarfélaginu jafnframt aðgang að húsakosti sem nýst getur áhaldahúsi og stutt við byggðaþróun sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps vill þakka Elínu Einarsdóttur fyrir viðskiptin og það traust sem hún sýnir sveitarfélaginu með því að fela því varðveislu og skipulag einstakrar náttúru Kálfastrandar.

Myndin er tekin af vef Loftmynda, www.map.is

Scroll to Top