merki sameinaðs sveitarfélags

Mikley – Þekkingarsetur í Mývatnssveit Sérfræðiþjónusta

Mikley merki

Þann 1. nóvember 2018 var haldin opnunarhátíð Mikleyjar, þekkingarseturs í Mývatnssveit sem er til húsa að Hlíðarvegi 6 í Reykjahlíð þar sem hreppsskrifstofan er.  Boðið var uppá tónlistaratriði og veitingar úr héraði og var mjög vel mætt. Mývetningarnir Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og Stefán Jakobsson, sem bæði gáfu út sólóplötur í haust, tóku lög af plötunum sínum. Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri var kynnir og Helgi Héðinsson oddviti flutti ávarp ásamt Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis.  Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga flutti einnig ávarp sem og Arnþrúður Dagsdóttir starfsmaður þekkingarnetsins í Mývatnssveit. Hún tilkynnti hver hefði borið sigur úr bítum í hugmyndasamkeppni um nafn í þekkingarstetrið en það var Ásta Kristín Benediktsdóttir. Þá var klippt á borða í tilefni dagsins.

Mikley mun hýsa ólíka aðila, t.d. námsmenn, sjálfstætt starfandi einyrkja og stofnanir. Nú þegar eru þar starfandi Mývatnsstofa,  Vatnajökulsþjóðgarður, Geotravel, námsver og starfsstöð Þekkingnets Þingeyinga og Geochemý. Mývatnsstofa er samstarfsverkefni ferðaþjónustunnar á svæðinu, Geochemý eru sjálfstætt starfandi jarðfræðingar. Þekkingarnet Þingeyinga opnaði nú á ágúst starfstöð í Mývatnssveit með starfsmanni sem sinnir námsveri og þjónustu við námsmenn, símenntunarnámskeiðum á svæðinu og verkefnum á rannsóknarsviði stofnunarinnar. Geotravel er ferðaþjónustuaðili.

Markmiðið með stofnun þekkingarseturins er margþætt, slík setur hafa ólík en jákvæð samfélagsleg áhrif þar sem þeim hefur verið komið á fót. Þá er m.a. horft til þess að bæta möguleika fólks með háskólamenntun til búsetu í sveitinni, viðhalda þeim störfum í þekkingarstarfsemi sem eru hér nú þegar, hvetja til þverfaglegrar samvinnu, hvetja til náms og rannsóknavinnu og laða hingað störf í þekkingarstarfsemi.

Undirbúningur verkefnisins hófst með því að á árinu 2015 var skipaður starfshópur sem kannaði möguleika á uppbyggingu fræða- eða þekkingarseturs í Mývatnssveit.  Þekkingarnet Þingeyinga sá um verkefnastjórn og Uppbyggingarsjóður Eyþings styrkti verkefnið. Hópurinn skilaði skýrslu í maí 2016 og þar kom fram sú niðurstöða að það væri bæði fýsilegt og gerlegt að reka þekkingarsetur í Mývatnssveit. Þá var ákveðið að hentugt húsnæði til að byrja með fyrir starfsemina væri í húsnæði Skútustaðahrepps sem er samliggjandi skrifstofu hreppsins í Reykjahlíðarþorpi en jafnframt yrði unnið áfram að framtíðarstaðsetningu setursins.

Mikley er stærsta eyjan í Mývatni en í mars 1858 var haldinn fundur í eyjunni þar sem ákveðið var að stofna lestrarfélag í sveitinni og stofna sparisjóð búlausra í sveitinni. Lestrarfélagið varð síðar að bókasafni Mývatnssveitar.  

Áhugasamir sem vilja leigja aðstöðu í Mikley geta haft samband við skrifstofu Skútustaðahrepps.

Scroll to Top