merki sameinaðs sveitarfélags

Höfði

Höfði í Mývatnssveit er einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum Norðurlands og er víðfrægur vegna undurfagurs landslags, gróðurfars og hins einstæða fuglalífs við Mývatn. Höfðinn sem upphaflega hét Hafurshöfði er klettatangi, sem gengur út í Mývatn að austanverðu. Hann er skógi vaxinn og tengist landi skammt frá þjóðveginum. Nú er þar friðað svæði sem er að stærstum hluta í eigu sveitarfélagsins, sem fólkvangur. Í Kálfastrandarvogi er einstæð náttúruperla, Kálfastrandarstrípar, sem eru sérstakar hraunmyndanir í vatninu, oft einnig nefndir Klasar.

Jörðin Höfði var áður hluti jarðarinnar Kálfastrandar. Árið 1913 seldu þáverandi eigendur Kálfastrandar Bárði Sigurðssyni litla landspildu vestan í höfðanum og var stærð hennar tilgreind átta dagsláttur. Byggði hann sér þar býli. Bárður var orðlagður hagleiksmaður og enn standa veggbrot þessa bæjar og þykir hleðslan sérstaklega vel gerð.

23. desember árið 1930 seldi Bárður Héðni Valdimarssyni býlið á Höfða ásamt eignarlóð. Jafnframt fékk Héðinn erfðafesturétt á öllum höfðanum hjá Kálfastrandarbændum. Héðinn Valdimarsson var landsþekktur alþingismaður, verkalýðsleiðtogi og forstjóri Olíuverslunar Íslands. Héðinn og Guðrún Pálsdóttir, kona hans, reistu sumarbústað yst á höfðanum. Þar hófu þau mikla gróðursetningu og settu niður tré og skrautjurtir. Sagt hefur verið að um það leyti sem þau eignuðust Höfða hafi ekki verið þar ein hrísla. Gróðursett var í Höfða í meira en 30 ár og plantað þar um 50.000 plöntum, mest ösp, greni, birki, lerki og furu. Döfnuðu þær vel og eru mörg trjánna nú yfir tíu metrar á hæð. Þar vaxa nú 66 tegundir villtra jurta.

Létu sér annt um að fegra og prýða jörð sína

Gils Guðmundsson rithöfundur skrifaði um Héðin í ritið Þeir settu svip á öldina – Íslenskir stjórnmálamenn. Þar segir Gils að eftir að Héðinn hafði með öllu dregið sig í hlé úr hinni hörðu stjórnmálabaráttu hafi aðalstarf hans verið forstaða Olíuverslunar Íslands. ,,En sá starfi fullnægði honum ekki. Keypti hann þá litla jörð norður í Mývatnssveit, Höfða, einn fegursta blettinn við Mývatn. Þar reisti hann sér sumarhús og dvaldi þar löngum á sumrum ásamt konu sinni Guðrúnu Pálsdóttur.

Þau hjón létu sér mjög annt um að fegra og prýða jörð sína. Sparaði Héðinn hvorki til þess fé né fyrirhöfn. Kappið var hið sama og áður. Þarna var gróðursettur mikill fjöldi trjáplantna á hverju ári. Eitt af skáldum sveitarinnar, Þura í Garði, vann mikið verk að gróðursetningu trjánna. Jafnframt var kostað kapps um að hinn villti gróður fengi að njóta sín. Svo segir kunnugur maður að unun hafi verið að koma á þennan friðsæla, ræktaða blett, sem Höfðinn var í höndum þeirra hjóna.

Héðinn Valdimarsson varð ekki gamall maður. Hann andaðist í Reykjavík 12. september 1948, 56 ára að aldri.“

Gaf Skútustaðahreppi stærstan hluta höfðans 1970

Árið 1970 gaf Guðrún Pálsdóttur, ekkja Héðins, Skútustaðahreppi bæði eignarlandið og erfðafestulandið, að undanskildum 1 til 2 hekturum af eignarlandinu til minningar um eiginmann sinn og einnig til minningar um Þuru frá Garði og Hörð Jónsson frá Gafli en þau unnu mikið við fegrun og uppgræðslu svæðisins eins og áður segir. Hluti eignarlandsins ásamt húsakosti sem var undanskilinn var áfram í eigu Guðrúnar og hét áfram Höfði. Guðrún andaðist 11. ágúst árið 2000 og kom eignarhlutinn í Höfða í hlut barnabarna hennar við skipti á dánarbúinu. Árið 2008 keypti barnabarnið Laufey Sigurðardóttur systur sínar tvær út með aðstoð Höfðafélagsins.

Höfði er eina landsvæðið sem sveitarfélagið Skútustaðahreppur á. Sveitarfélagið hefur tvo starfsmenn í fullu starfi yfir sumartímann til þess að sjá um Höfða.

Scroll to Top