merki sameinaðs sveitarfélags

Greining orkukosta

Á árunum 2020-2021 var unnin fýsileikagreining orkukosta í Skútustaðahreppi. Sú greining snerist um að greina mögulega kosti til orkuskipta á heimilum sem í dag nýta rafmagn til húshitunar. Stóð sveitarfélagið straum af kostnaði við greininguna og hlaut til þess stuðning úr viðspyrnuaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Vill sveitarstjórn nýta tækifærið og þakka stuðninginn, sem og íbúum, sem unnið hafa með starfsmönnum sveitarfélagsins og ráðgjafafyrirtækinu Hagvarma að framkvæmd fýsileikagreiningarinnar, fyrir samstarfið.

Fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps gerir ráð fyrir framkvæmdum sem fylgi í kjölfar fýsileikagreiningarinnar. Í því samhengi gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir  að sveitarfélagið muni styðja íbúa með lögheimili í sveitarfélaginu um allt að kr 900 þúsund til uppsetningar á varmadælu á heimili sínu (s.s. innkaup á dælu og fylgihlutum, safnlögn með frostlegi ásamt uppsetningu á dælu, lagningu safnlagnar og tengingu safnlagnar við dælu), þó ekki um hærri upphæð en sem nemur 35% af heildarkostnaði við uppsetningu og að sameiginlegur stuðningur sveitarfélagsins og Orkusjóðs verði ekki umfram heildarkostnað við framkvæmdina. Er um að ræða sambærilegan stuðning og önnur sveitarfélög hafa boðið upp á og miðar stuðningurinn við jöfnun húshitunarkostnaðar í sveitarfélaginu og að stutt verði við markmið ríkisstjórnar um orkuskipti. Jafnframt er gert ráð fyrir að sveitarfélagið muni sjá um þjónustu við uppsettar varmadælur, með sambærilegum hætti og raunin er varðandi rekstur hitaveitu Skútustaðahrepps. Fýsileikagreiningin bar saman möguleika til uppsetningar varmadæla og útvíkkunar hitaveitu og verður íbúum sem það kjósa jafnframt boðið að nýta stuðninginn til tengingar á hitaveitu, reynist það hagkvæmt og raunhæft.

Hér að neðan má sjá helstu niðurstöður greiningar Hagvarma. Jafnframt er hér skýrsla sem unnin var síðasta sumar til að meta möguleika til útvíkkunar hitaveitu sveitarfélagsins. Enn er unnið að því að meta kostnað við þá útvíkkun, en kostnaður við aðföng hefur breyst umtalsvert síðustu mánuði.

Scroll to Top