merki sameinaðs sveitarfélags

Fjölbreytt umhverfismál í Skútustaðahreppi

Nú í sumar fékk Skútustaðahreppur Valerija Kiskurno til liðs með sér til að vinna að fjölbreyttum umhverfismálum í sveitinni. Valerija vann m.a. að gróðursetningu, eyðingu ágengra tegunda og að tilraunaverkefni um lífrænan úrgang. Um var að ræða 6 mánuði með ráðningarstyrk frá Vinnumálastofnun.   

 Í samvinnu við Landgræðsluna sá hún um gróðursetningu og að skipuleggja viðburði tengda því. Í byrjun sumars voru 2000 birkiplöntur gróðursettar inn í Heiðarsporðargirðingunni, um 20 manns tóku þátt og bauð hamingjunefnd sveitarfélagsins upp á pylsur á eftir. Yfir sumarið voru tæplega 6000 lerkiplöntur gróðursettar á Hólasandi og var það m.a. í samvinnu við vinnuskólann, verkstjóra þeirra Ragnar Baldvinsson, Garðar Finnsson og Alina Kiskurno. Í lok sumars var svo gróðursetning við Villingafjall og var það viðburður þar sem 16 manns mættu. Þar sem ekki náðist að klára allar plönturnar þrátt fyrir vilja yngstu þátttakendanna var farið aftur en alls voru 3500 birkitré gróðursett þar.  

 Í vor var tilraunaverkefni um Bokashi lífrænan úrgang sett af stað. Bokashi er loftfirrt jarðgerð með aðstoð góðgerla sem gerja lífrænan úrgang frá t.d. heimilum. Ferlið tekur í heild ca. 6-8 vikur að næringarríkri moltu. Keyptar voru 50 sett af tunnum frá Takk hreinlæti, gerðar leiðbeiningar og myndbönd á íslensku og ensku, stofnuð facebook grúppa fyrir samskipti, send spurninga- könnun og svo auglýst eftir íbúum sem vildu taka þátt. Tunnusettin voru seld áfram á ca kostnaðarverði sem er um 50% af verði t.d. Í Byko. Tilraunin snerist um hvort þetta væri gerlegt að heilt samfélag gæti leyst lífrænan úrgang frá heimilinum ekki bara á sem ódýrastan hátt, heldur betri hátt sem myndi skila sem mestu til baka í samfélagið. Um 40 heimili taka nú þátt í verkefninu. Daði Lange umhverfisfulltrúi og Valerija hafa séð um að tæma svörtu tunnurnar sem íbúum býðst að tæma sínar Bokashi tunnur í. Þær standa við Gíg og hreppshúsið. Farið er með lífræna efnið til uppgræðslu á Hólasand. Enn er möguleiki á að taka þátt en frekari upplýsingar fást á hreppsskrifstofu. 

 Ruslahreinsunin er hefð hérna í sveitinni sem er löngu búin að sanna gildi sitt. Valerija tók það að sér að skipulegga ruslahreinsunina með styrk frá Krambúðinni í samvinnu við Fjöregg, Daddis Pizza, Skútaís og Jarðböðin. Þrátt fyrir þessa skipulagða vinnustund allra íbúa þá er það ljóst að alltaf er rusl í umhverfi okkar sem nauðsynlegt er að fjarlægja. Valerija tíndi í sumar rusl jafnt og þétt, einnig með aðstoð unga fólksins í vinnuskólanum og var kom magnið sem fannst verulega á óvart.  

 Eins og við þekkjum hefur losun rusls á planinu við búðina oft verið vandamál þar sem svo margir streyma þar í gegn á góðum sumardegi. Eitt af því sem ferðamenn þurfa að losa sig við eru flöskur og dósir til endurvinnslu. Valerija tók það að sér að losa þessar tunnur og lagði endurvinnslugjaldið, tæp 200 þúsund inn á Foreldrafélag skólana í Mývatnssveit.  

 Mikilvægasta verkefni Valerija hefur svo verið að vinna gegn ágengum plöntutegundum í sveitinni. Mest áhersla var lögð á alaskalúpínu og skógarkerfil, en einnig fannst spánarkerfill. Beita þarf fjölbreyttum aðferðum við upprætingu þessara plantna. Valerija beitti orfi, gróf þær upp með handverkfærum eða skóflu, saltaði og fjarlægði fræin. Verkefnið felst í varnarbaráttu en ljóst að ágengar tegundir ógna hinu einstaka lífríki svæðisins og að verkefninu þurfa að koma fjölmargar hendur. Auk hennar unnu í sumar sjálfboðaliðar Fjöreggs, vinnuskólinn, landverðir Umhverfisstofnunar og sjálfboðaliðar þeirra, landeigendur og aðrir sjálfboðaliðar. Markmiðið er síðan að fá enn fleiri aðila til að vinna að þessu verkefni.    

Scroll to Top