merki sameinaðs sveitarfélags

Ársreikningur Skútustaðahrepps

Ársreikningur Skútustaðahrepps vegna ársins 2021 var í vikunni lagður fram til fyrri umræðu auk endurskoðunarskýrslu ársins.

Heildartekjur ársins voru 642,3 millj. kr. Rekstrarniðurstaða ársins er neikvæð upp á 68,3 milljónir. Sveitarfélagið lagði á árinu 2021 ríka áherslu á að verja mannauð, fjárfesta í innviðum samfélagsins og tryggja viðspyrnu atvinnulífsins í kjölfar COVID-19.

Viðspyrnuaðgerðir Skútustaðahrepps fólu m.a. í sér aukinn stuðning við Mývatnsstofu, fjárfestingu í göngu- og hjólastíg frá Reykjahlíð í Voga og undirbúning göngu- og hjólastígs frá Geiteyjarströnd í Skútustaði, aukna starfsemi Íþróttamiðstöðvar Skútustaðahrepps, kaup á hlut Sparisjóðs Suður-Þingeyinga í Skjólbrekku og endurbætur á húsnæði Skjólbrekku í kjölfarið, endurbætur á heimilisfræðistofu Reykjahlíðarskóla og samstarf mötuneytis sveitarfélagsins við Matarskemmuna um aukið framboð staðbundinna matvæla. Þá hefur verið í gangi vinna við endurbætur í Höfða og aflað styrkja frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að standa undir hluta kostnaðar við þær (styrkur Framkvæmdasjóðsins færist til tekna á árinu 2022). Samstarf við Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun hefur verið aukið og lögð áhersla á samvinnu um uppbyggingu nýsköpunarklasa í Gíg, auk stuðnings við frumkvöðla tengt Nýsköpun í norðri. Með verkefni tengt fýsileikagreiningu orkukosta hefur verið lagður grunnur að jöfnun húshitunarkostnaðar í sveitarfélaginu. Þá hafa fjárfestingar ársins 2021 miðað að því að styðja enn frekar við umhverfisvernd og uppbyggingu hringrásarhagkerfis, m.a. tengt Bokashi tilraunaverkefni, ráðningu starfsmanns til upprætingar á ágengum plöntutegundum og Auðgangi – verkefni til styrkingar hringrásarhagkerfinu (styrkt af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og færist sá styrkur til tekna árið 2022).

Árangur viðspyrnuaðgerðanna er ótvíræður, en fækkun íbúa sveitarfélagsins er mun minni en ráð hafði verið fyrir gert og endurspeglast það m.a. í hærri tekjum sveitarfélagsins á fyrstu mánuðum ársins 2022. Tekjur vegna staðgreiðslu fyrstu þrjá mánuði ársins 2022 eru um 12 milljónum (12%) hærri en fyrstu þrjá mánuði ársins 2021, sem gefur fyrirheit um að tekjur ársins 2022 verði nokkru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en fjárhagsáætlun 2022 gerir ráð fyrir tæplega 50 milljóna rekstrarafgangi.

Rekstrarniðurstaða ársins 2021 er að mestu í samræmi við rekstraráætlun en þó eru ákveðnir liðir sem víkja nokkuð frá áætlun og má þar m.a. nefna:


-Hækkun lífeyrisskuldbindinga (munur er 19,2 milljónir sem kemur m.a. til vegna hærri lífaldurs í tryggingafræðilegri úttekt)
-Hærri kostnaður við kaup á sérfræðiþjónustu endurskoðenda en áætlun gerði ráð fyrir
-Hærri kostnaður við kaup á hugbúnaðarþjónustu en ráð var fyrir gert, sem orsakast af kaupum á PowerBI uppsetningu fyrir bókhald Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar
-Breytingar á Mikley og skrifstofu sveitarfélagsins að Hlíðavegi sem gert var ráð fyrir að yrðu eignfærðar en færast þess í stað á rekstrarreikning
-Lægri styrkir vegna ýmissa verkefna voru bókfærðir á árinu en áætlun gerði ráð fyrir, þar sem framkvæmd verkefna náði yfir áramót. Tekjur vegna verkefnanna verða bókaðar á árinu 2022 í stað 2021 Ársreikningnum var vísað til síðari umræðu.

Scroll to Top