merki sameinaðs sveitarfélags

75. fundur sveitarstjórnar

 1. fundur sveitarstjórnar haldinn í Skjólbrekku,
  miðvikudaginn 9. febrúar 2022, kl. 09:15.

Fundinn sátu:
Helgi Héðinsson, Elísabet Sigurðardóttir, Sigurður Böðvarsson, Halldór Þorlákur Sigurðsson, Dagbjört Bjarnadóttir og Sveinn Margeirsson.

Fundargerð ritaði: Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

 1. Mannauðsstefna Skútustaðahrepps – 1612034
  Borist hafa minniháttar ábendingar um uppfærslu á mannauðsstefnu Skútustaðahrepps. Stefnan verður uppfærð m.t.t þessara ábendinga og birt á vef sveitarfélagsins.
  Samþykkt
 2. Landeigendafélag Voga – Málefni hitaveitu – 1712010
  Sveitarstjóri hefur á liðnum vikum rætt við ákveðna landeigendur í Vogum um ýmis mál, m.a. tengt aðgangi að köldu vatni og samningi um hitaveitu í Vogum (þ.m.t. greiðslu fyrir afnot af heitu vatni sem nýtt er af hálfu landeigenda í Vogum). Frá vordögum 2020 hefur legið fyrir samningur milli landeigenda Voga og sveitarfélagsins tengt þessu efni og hefur mikill meirihluti landeigenda undirritað hann.

Eftir samræður sveitarstjóra við landeigendur er ljóst að einstakir landeigendur hafa ekki fallist á fyrirliggjandi samning og hyggjast ekki gera það. Þá hafa einstakir landeigendur ekki ljáð máls á frekari samningaviðræðum um málið.
Sveitarstjórn felur oddvita, sveitarstjóra og lögmanni sveitarfélagsins að senda landeigendum Voga erindi. Úrlausn málsins varðar brýna samfélagshagsmuni og því mikilvægt að fundin verði farsæl lending á málinu á komandi vikum.
Samþykkt

 1. Klappahraun – uppbygging – 2202006
  Lögð fram drög að forvalsauglýsingu vegna byggingar almennra leiguíbúða í Klappahrauni.
  Lagt er til að málinu sé frestað.
  Frestað
 2. Stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar sveitarfélaga á landsbyggðinni – 2202002
  Lagt fram minnisblað vegna fyrirhugaðrar stofnunar húsnæðissjálfseignarstofnunar sveitarfélaga á landsbyggðinni. Fyrir liggur erindi, þar sem leitað er afstöðu sveitarfélagsins til þáttöku í slíkum vettvangi.
  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkir fyrir sitt leyti að taka þátt í stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar sveitarfélaga á landsbyggðinni. Samþykkið er þó með þeim fyrirvara að fyrir liggur sameining sveitarfélagsins og Þingeyjarsveitar á vordögum. Sveitarstjórn áskilur sér því svigrúm til að meta hversu virk þátttakan verður, að teknu tilliti til afstöðu leiguíbúða Þingeyjarsveitar hses. og nýrrar sveitarstjórnar sem tekur til starfa eftir sameiningu.
  Samþykkt
 3. Kálfaströnd – 2202005
  Fyrir fundinum lá að taka ákvörðun um ráðstöfun veiðiréttar Kálfastrandar árið 2022.
  Sveitarstjórn samþykkir að bjóða út vetrarveiðirétt Kálfastrandar v. ársins 2022. Íbúum Skútustaðahrepps mun gefast kostur á að bjóða í veiðiréttinn sem er samtals 132 lagnir, að hámarki 9 net sem skiptast í tvo hluta. Annars vegar v. Kálfastrandar 1 (66 lagnir, að hámarki 5 net), en hins vegar 66 lagnir að hámarki 4 net.

Halldór Sigurðsson sat hjá við afgreiðslu málsins.
Samþykkt

 1. Skútustaðahreppur: Starfsmannamál – 1706018
  Eins og fram hefur komið hefur sveitarstjóri, Sveinn Margeirsson, verið ráðinn sem framkvæmdastjóri hjá Brim hf.
  Sveinn mun formlega hefja störf hjá Brim 1. ágúst nk. Í samhengi við þessa ákvörðun sveitarstjóra hefur sveitarstjórn Skútustaðahrepps tekið ákvörðun um breytta verkaskiptingu út kjörtímabilið, í samráði við sveitarstjóra. Í meginatriðum felst breytt verkaskipting í auknu hlutverki oddvita sveitarstjórnar, í daglegum störfum á skrifstofu sveitarfélagsins. Sveinn mun eftir sem áður fylgja eftir ákveðnum verkefnum út kjörtímabilið, en mikill kraftur hefur einkennt síðustu misserin í starfsemi sveitarfélagsins og er mikilvægt að takast megi að ljúka þeim mikilvægu verkefnum sem eru á oddinum. Febrúarmánuður mun verða nýttur til yfirfærslu verkefna og er gert ráð fyrir að sú verkaskipting sem er lýst að ofan taki formlega gildi 1. mars.

Hjá sveitarfélaginu starfar framúrskarandi hópur fólks og við munum takast á við komandi breytingar, saman, með jákvæðni og gleði að leiðarljósi.

Þá liggur fyrir að Alfreð Steinmar Hjaltason hefur verið ráðinn í stöðu verkefnastjóra framkvæmda. Alfreð starfaði tímabundið s.l. sumar að verkefnum á vegum sveitarfélagsins við góðan orðstír. Hann mun á vordögum ljúka BSc námi í iðnaðarverkfræði. Alfreð mun hefja störf á vordögum.

Sigurði Guðna Böðvarssyni er falið umboð til að ganga frá starfslokasamkomulagi við Svein ásamt ráðningarsamningi við oddvita, Helga Héðinsson. Að leiðarljósi er haft að kostnaður sveitarfélagsins verði ekki aukinn frá því sem annars hefði orðið og tryggt verði eftir fremsta megni að þau fjölmörgu verkefni sem eru á oddinum fái kröftugan framgang með nýju skipulagi. 

Sigurði er falið að leggja starfslokasamkomulag og ráðningarsamning fyrir næsta fund sveitarstjórnar.
Samþykkt

 1. Skýrsla sveitarstjóra – 1611024
  Lagt fram
 2. Nauðsynleg viðbrögð sveitarfélaga vegna breytinga á barnaverndalögum – 2202004
  Lagt fram minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna breytinga á barnaverndarlögum og áhrifa þeirra á sveitarfélög.
  Lagt fram
 3. Mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn og rétt barna til þátttöku og áhrifa – 2202003
  Lagt fram bréf frá Umboðsmanni barna varðandi mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn og rétt barna til þátttöku og
  áhrifa
  Lagt fram
 4. Velferðar- og menningarmálanefnd: Fundargerðir – 1809010
  Lögð fram fundargerð 32. fundar velferðar- og menningarmálanefndar dags. 1. febrúar 2022. Fundargerðin er í fimm liðum.
  Lagt fram

Fundi slitið kl. 11:15.

Scroll to Top