merki sameinaðs sveitarfélags

71. fundur sveitarstjórnar

71. fundur sveitarstjórnar haldinn í skjóllbrekku, miðvikudaginn 8. desember 2021, kl 09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson, Elísabet Sigurðardóttir, Sigurður Böðvarsson, Halldór Þorlákur Sigurðsson, Dagbjört Bjarnadóttir, Sigurbjörn Reynir Björgvinsson og Sveinn Margeirsson.

Fundargerð ritaði:  Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.  Kálfaströnd – Kaupsamningur – 2112003
Halldór Sigurðsson vék af fundi undir þessum lið. Sigurbjörn Reynir Björgvinsson tók sæti í hans stað.

Gengið hefur verið frá kaupsamningi um jörðina Kálfaströnd við eiganda hennar, Elínu Einarsdóttur. Skútustaðahreppur kaupir jörðina og fasteignir sem henni fylgja á 140 milljónir. Viðræður um kaupin hafa staðið yfir frá vordögum 2021, með hléum. Það er sameiginleg framtíðarsýn kaupanda og seljanda að sveitarfélagið Skútustaðahreppur muni um ókomna tíð stuðla að vernd náttúru Kálfastrandar. Sameiginleg framtíðarsýn felur jafnframt í sér að almenningur eigi þess kost að njóta náttúru jarðarinnar á grundvelli skipulags. Skútustaðahreppur mun vinna að þróun skipulags og innviðauppbyggingar á Kálfaströnd í samræmi við þessa framtíðarsýn.

Með kaupunum opnast sveitarfélaginu möguleikar til að gefa íbúum og gestum aukið aðgengi að náttúruperlunni Mývatni á grundvelli langtíma skipulags og byggja upp stefnumiðað samstarf við menntastofnanir, stofnanir ríkisins, sjóði á sviði náttúruverndar og innviðauppbyggingar og aðra sem láta sig einstaka náttúru Mývatnssveitar varða. Kaupin gefa sveitarfélaginu jafnframt aðgang að húsakosti sem nýst getur áhaldahúsi og stutt við byggðaþróun sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn vill þakka Elínu Einarsdóttur fyrir viðskiptin og það traust sem hún sýnir sveitarfélaginu með því að fela því varðveislu og skipulag einstakrar náttúru Kálfastrandar.
Samþykkt samhljóða.
2.  Viðaukar við fjárhagsáætlun – 1811035
Tekinn fyrir viðauki varðandi fjárfestingu fyrir 140 milljónir í jörðinni Kálfaströnd. Viðaukanum er mætt með langtímalánum.

Samhliða samþykkt á viðaukanum er tekið lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:

Sveitastjórn Skútustaðahrepps samþykkir á 71. fundi sveitarstjórnar, haldinn þann 8. desember 2021, að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 65.000.000, til allt að 34 ára. Leitað verði eftir „grænni lántöku“ (til 18 ára) hjá Lánasjóði sveitarfélaga, enda um að ræða kaup sem hafa vernd náttúruperlunnar Kálfaströnd við Mývatn að markmiði. Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Er lánið tekið til fjármögnunar á kaupum sveitarfélagsins á jörðinni Kálfaströnd, sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Sveini Margeirssyni, sveitarstjóra, kt. 140378-5699, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Skútustaðahrepps að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

Samhliða samþykkt viðaukans er jafnframt gefið út skuldabréf til greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs, að fjárhæð 75 milljónir króna, í samræmi við kaupsamning um jörðina Kálfaströnd, sem undirritaður var af Elínu Einarsdóttur (seljanda) og Sveini Margeirssyni, f.h. Skútustaðahrepps (kaupanda) þann 28. nóvember sl. Er Sveini Margeirssyni, sveitarstjóra, kt. 140378-5699, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Skútustaðahrepps að ganga frá útgáfu skuldabréfs sbr. framangreint.

Samþykkt samhljóða.
3.  Fýsileikagreining orkukosta – 2106009
Halldór Sigurðsson tók sæti að nýju á fundinum undir þessum lið. Sigurbjörn Reynir Björgvinsson vék af fundi.

Kynnt vinna við fýsileikagreiningu orkukosta. Ráðgjafafyrirtækið Hagvarmi hefur greint raforkunotkun vegna húshitunar og dregið saman helstu upplýsingar vegna hönnunar varmadæla fyrir íbúa sem ekki hafa aðgang að hitaveitu.
Lagt fram
4.  Skútustaðahreppur Húsnæðisáætlun – 1709004
Kynnt staða vinnu við stafræna húsnæðisáætlun Skútustaðahrepps til næstu 10 ára. Húsnæðisáætlun er hluti þess að auka upplýsingaflæði sveitarfélaganna og húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og auðveldar áætlanagerð og yfirsýn allra aðila á húsnæðismarkaði.
Stefnt er að því að áætlanagerð ljúki 15. desember n.k. og verða niðurstöður á landsvísu kynntar á húsnæðisþingi í janúar 2022.
Lagt fram
5.  Fjárhagsáætlun 2022-2025 – 2108028
Síðari umræða um fjárhagsáætlun 2022-2025.

Greinargerð og umfjöllun um gjaldskrár:

Árið 2021 var ár viðspyrnu í Skútustaðahreppi. Eftir góðan árangur í rekstri sveitarfélagsins á árunum 2016-2019, sem tengdist sterkri ferðaþjónustu svæðisins ekki hvað síst, var fótum kippt undan rekstri sveitarfélagsins með Covid-19 heimsfaraldrinum. Sveitarstjórn tók þá ákvörðun að nýta sterkan fjárhag sveitarfélagsins til uppbyggingar og viðspyrnu á árinu 2020 og hefur sú stefna, ásamt góðri samvinnu við ríki og einkaaðila á árinu 2021 borið ávöxt. Íbúum fjölgaði um 2,1% frá 1.desember 2020 til 1. desember 2021, en fjölgun íbúa frá apríl 2021 og fram til desember 2021 var tæp 7%.

Íbúar sveitarfélagsins eru mikilvægasta auðlind samfélagsins. Fjárfestingar ársins 2021 hafa haft að markmiði að auka hamingju íbúa og jafnframt að styðja atvinnuuppbyggingu og viðnámsþrótt atvinnulífs til framtíðar. Ferðaþjónusta er mikilvægasta atvinnugreinin í Skútustaðahreppi og hafa fjárfestingar sveitarfélagsins miðað að því að styðja við atvinnugreinina, ásamt því að gæta að vernd náttúru Mývatnssveitar, sem er mikilvægasta auðlind sveitarinnar og verður vart metin til fjár í því samhengi, né öðru.

Á árinu 2021 voru stærstu framkvæmdir og fjárfestingar:
– Kaup sveitarfélagsins á jörðinni Kálfaströnd, með markmið um náttúruvernd, uppbyggingu innviða og skipulagt aðgengi almennings að leiðarljósi
– Gerð göngu- og hjólastígs umhverfis Mývatn, í samvinnu við Vegagerðina (annar áfangi)
– Endurbætur í Íþróttamiðstöð
– Endurbætur á félagsheimilinu Skjólbrekku
– Endurnýjun á tækjabúnaði áhaldahúss og Reykjahlíðarskóla
– Frágangur vegna safntanks á Hólasandi í tengslum við nýja fráveitulausn, í samstarfi við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landgræðsluna o.fl.
Þá hefur verið lögð áhersla á skipulag íbúðabyggðar við Skjólbrekku og góða samvinnu við ríkisaðila og fyrirtæki tengt uppbyggingu gestastofu og þekkingarmiðstöðvar í Gíg – gamla Skútustaðaskóla. Samvinna við matvælaframleiðendur í héraði hefur verið aukin og mötuneyti Skútustaðahrepps lagt áherslu á kaup á matvöru beint frá býli, í samvinnu við Matarskemmuna á Laugum.

Fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps árið 2022 er unnin út frá markmiðum um jafnvægi á milli áframhaldandi viðspyrnu samfélagsins, innviðauppbyggingar og rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins. Fjárhagsáætlunin tekur mið af sameiningu sveitarfélagsins við Þingeyjarsveit og þeim tækifærum sem felast í henni. Fjárfestingar og áherslur í rekstri miða að uppbyggingu innviða sem treysta samkeppnishæfni til lengri tíma og aukinni nýsköpun, samhliða því að sameinað sveitarfélag sé í fararbroddi í umhverfisvernd og baráttu við loftslagsbreytingar.
Með áherslu á fjárfestingar á árinu 2022 er stoðum rennt undir langtíma vöxt innan marka sameinaðs sveitarfélags. Lögð er áhersla á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og áframhaldandi vinnu við lagningu göngu- og hjólastígs, í samvinnu við Vegagerðina. Slíkar fjárfestingar í innviðum samfélagsins krefjast allnokkurrar lántöku, en samkvæmt samningi við Vegagerðina mun Skútustaðahreppur fá endurgreiðslu á 70% af framkvæmdakostnaði við göngu- og hjólastíg á árunum 2024 og 2025. Er það mat sveitarstjórnar að nauðsynlegt sé að hraða framkvæmdinni svo sem auðið er á meðan fjöldi ferðamanna hefur ekki náð hámarki á ný. Með slíku móti megi tryggja umferðaröryggi og styðja við uppbyggingu sjálfbærrar ferðaþjónustu svæðisins.
Nauðsynlegt er að fylgjast afar vel með rekstri sveitarfélagsins á árinu 2022 og gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Stefnt er að innleiðingu tæknilausna í því augnamiði, þ.a. auka megi yfirsýn kjörinna fulltrúa og stjórnenda í sveitarfélaginu yfir stöðu rekstrar á hverjum tíma. Mikilvægt er að rekstur sveitarfélagsins sé sveigjanlegur og fylgst sé með fjármögnunarþörf og rekstri með reglubundnum hætti og eftir því sem forsendur breytast.
Fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps fyrir árið 2022 miðar sérstaklega að því að koma til móts við tvo hópa, svo sem verið hefur síðustu ár, þ.e. fjölskyldufólk og eldri borgara:
– Fjölskyldufólki með því að bjóða áfram upp á ókeypis skólamáltíðir í grunnskóla og leikskóla, ókeypis frístund og ritföng.
– Eldri borgurum með því að veita verulegan afslátt af fasteignagjöldum fjórða árið í röð.

Á 70. fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, þann 24. nóvember 2021, var fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps fyrir árið 2022 tekin til fyrri umræðu. Samhliða áætlun næsta árs er jafnframt lögð fram þriggja ára rammaáætlun Skútustaðahrepps fyrir árin 2023-2025.

Almennar forsendur:
Útsvar 14,52%
Fasteignaskattur A 0,625% af fasteignamati
Fasteignaskattur B 1,32% af fasteignamati
Fasteignaskattur C 1,65% af fasteignamati
Vatnsgjald 0,15% af fasteignagjaldi, auk aukavatnsgjalds
Holræsagjald 0,225% af fasteignagjaldi
Lóðaleiga 10,50 kr pr. ferm
Almennar gjaldskrár: Almenn hækkun í A-hluta í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs
Íbúafjöldi 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023 2024
1. des. 432 493 504 507 476 486 506 516 526

Þriggja ára rammaáætlun er á föstu verðlagi miðað við áætlun 2022 hvað varðar rekstrartekjur og rekstrargjöld og einungis áætluð áhrif magnbreytinga á rekstur og efnahag. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld byggja hins vegar á áætluðu verðlagi hvers árs samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands um áætlaða vísitölu neysluverðs. Fjárhagsáætlun þessi hefur verið unnin af sveitarstjórn, sveitarstjóra, skrifstofustjóra og fastanefndum auk þess sem samráð var haft við forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og endurskoðanda. Heildartekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar 726 m.kr. á næsta ári og er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 47 milljónir. Gert er ráð fyrir að framlög vegna sameiningar við Þingeyjarsveit nemi 52,5 milljónum. Vaxtagjöld eru áætluð 18,4 milljónir. Sveitarfélagið greiðir af 395 m. kr langtímalánum um áramótin 2021/2022 og er gert ráð fyrir allt að 250 m. kr nýjum langtímalántökum á árinu 2022.Fjárfestingaáætlun 2022
Fjárfestingar Skútustaðahrepps á árinu 2022 taka mið af þeirri stefnumótun sem átt hefur sér stað á vettvangi sveitarfélagsins á síðustu árum og sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, sem taka mun gildi um mitt ár 2022. Með sameiningu þessara sveitarfélaga myndast stærsta skipulagsheild landsins, alls um 12 þúsund ferkílómetrar. Sýn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps er að áhersla á nýsköpun, sjálfbæra orkunýtingu og matvælaframleiðslu, auk ferðaþjónustu, muni byggja undir efnahagslega velsæld svæðisins á komandi árum og tryggja viðnámsþrótt þess fyrir utanaðkomandi áföllum á borð við Covid-19 farsóttina.
Á árinu 2021 hefur samstillt átak einkaaðila, sveitarfélagsins og ríkisins verið ein meginforsenda þess að tekist hefur að snúa ofan af miklu atvinnuleysi sem skapaðist vegna Covid-19. Vill sveitarstjórn þakka fjölmörgum samstarfsaðilum sínum gott samstarf á liðnu ári.

Fjárfestingaáætlun 2022 miðar að áframhaldandi sókn samfélagsins, fjárfestingum sem styðja við metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og áherslu á gott samstarf. Sterk rök hníga að því að með fjárfestingum þeim sem hér eru kynntar verði enn frekar lagður sterkur grunnur að áframhaldandi sókn samfélagsins, sjálfbærum vexti helstu atvinnugreina svæðisins, sókn í náttúruverndar- og umhverfismálum og framgangi Heimsmarkmiða SÞ innan sveitarfélagsins:

Göngu- og hjólreiðastígur Dimmuborgir – Skútustaðir (samstarf við Vegagerðina) 150 milljónir
Skipulagsvinna og fjárfesting í nýju íbúðarhúsnæði 100 milljónir
Þróun þekkingarseturs tengt Gestastofu í Gíg 5 milljónir
Framkvæmdir við Íþróttamiðstöð og nánasta umhverfi 15 milljónir
Bygging hjúkrunarheimilis að Hvammi í samstarfi við önnur sveitarfélög 33,4 milljónir
Framkvæmdir við salernishús og uppsetning „svífandi stíga“ í nágrenni Höfða- 44 milljónir
Framkvæmdir í kjölfar fýsileikagreiningar orkukosta (unnið á árinu 2021) 19,6 milljónir
Endurnýjun hitaveitu tengt framkvæmdum við göngu- og hjólastíg 22 milljónir
Aðrar framkvæmdir 15 milljónir
Samtals rammi fjárfestinga í innviðum sveitarfélagsins 404 millj.

Í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð, Umhverfisstofnun, RAMÝ, Landgræðsluna, Háskóla Íslands og aðra hagaðila sem munu vilja byggja upp starfsemi í Gíg.
Með fjármögnun frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Á árinu 2021 var unnin fýsileikagreining orkukosta í Skútustaðahreppi. Sú greining snerist um að greina mögulega kosti til orkuskipta á heimilum sem í dag nýta rafmagn til húshitunar. Stóð sveitarfélagið straum af kostnaði við greininguna og hlaut til þess stuðning úr viðspyrnuaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Vill sveitarstjórn nýta tækifærið og þakka stuðninginn, sem og íbúum, sem unnið hafa með starfsmönnum sveitarfélagsins og ráðgjafafyrirtækinu Hagvarma að framkvæmd fýsileikagreiningarinnar, fyrir samstarfið.

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir framkvæmdum sem fylgi í kjölfar fýsileikagreiningarinnar. Í því samhengi gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir að sveitarfélagið muni styðja íbúa með lögheimili í sveitarfélaginu um allt að kr 900 þúsund til uppsetningar á varmadælu á heimili sínu (s.s. innkaup á dælu og fylgihlutum, safnlögn með frostlegi ásamt uppsetningu á dælu, lagningu safnlagnar og tengingu safnlagnar við dælu), þó ekki um hærri upphæð en sem nemur 35% af heildarkostnaði við uppsetningu og að sameiginlegur stuðningur sveitarfélagsins og Orkusjóðs verði ekki umfram heildarkostnað við framkvæmdina. Er um að ræða sambærilegan stuðning og önnur sveitarfélög hafa boðið upp á og miðar stuðningurinn við jöfnun húshitunarkostnaðar í sveitarfélaginu og að stutt verði við markmið ríkisstjórnar um orkuskipti. Jafnframt er gert ráð fyrir að sveitarfélagið muni sjá um þjónustu við uppsettar varmadælur, með sambærilegum hætti og raunin er varðandi rekstur hitaveitu Skútustaðahrepps. Fýsileikagreiningin bar saman möguleika til uppsetningar varmadæla og útvíkkunar hitaveitu og verður íbúum sem það kjósa jafnframt boðið að nýta stuðninginn til tengingar á hitaveitu, reynist það hagkvæmt og raunhæft.

Önnur áhersluatriði á árinu 2022 eru m.a.
– Þróun skólastarfs og samstarf skóla í sameinuðu sveitarfélagi
– Starf fjölmenningarfulltrúa í samstarfi við Þingeyjarsveit og Norðurþing.
– Áframhaldandi þróun Hamingjuverkefnisins með sértækum aðgerðum.
– Gerð nýs aðalskipulags.
– Ókeypis skólamáltíðir í leik- og grunnskóla.
– Áfram verður boðið upp á ókeypis frístundaþjónustu eftir að skólatíma lýkur hjá grunnskólanum og jafnframt boðið upp á heimakstur í stað frístundar einu sinni í viku ef óskað er. Þá verður áfram boðið upp á ókeypis ritföng.
– Áfram verður boðið upp á ókeypis akstur í félagsstarf eldri borgara.
– Áframhaldandi starf varðandi moltugerð (lífræna afganga). Sorpmál voru tekin til sérstakrar skoðunar á árinu 2021 og hefur kostnaður vegna sorphirðu lækkað á árinu. Kostnaður vegna sorphirðu er samt sem áður umtalsvert hærri en tekjur sveitarfélagsins vegna gjaldtöku í tengslum við sorphirðu. Því verður gjaldskrá sorphirðu hækkuð til að minnka þann mun sem er á tekjum og gjöldum sveitarfélagsins tengt sorphirðu.

– Börn til 16 ára aldurs fá ókeypis í sund á Laugum. Boðið verður upp á árskort sem gilda bæði í Íþróttamiðstöð Skútustaðahrepps og sundlaugina á Laugum.
– Unnið verður eftir lýðheilsustefnu sveitarfélagsins.
– Unnið verður eftir umhverfisstefnu sveitarfélagsins.
– Unnið verður eftir menningarstefnu sveitarfélagsins.
– Unnið verður eftir skólastefnu sveitarfélagsins.
– Unnið verður eftir húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.
– Unnið verður eftir mannauðsstefnu sveitafélagsins.
– Unnið verður eftir umferðaröryggisáætlun sveitarfélagsins.
– Unnið verður eftir persónuverndarstefnu sveitarfélagsins.
– Unnið verður eftir fjölmenningarstefnu sveitarfélagsins.
– Unnið verður eftir markmiðum atvinnu- og nýsköpunarstefna sveitarfélagsins og aðgerðaáætlun mótuð á grunni þeirra

Óvissuþættir í áætluninni eru, eðli málsins samkvæmt, fjölmargir. Meðal helstu þátta eru:
– Þróun Covid-19 á Íslandi og á heimsvísu.
– Þróun ferðaþjónustunnar og hvaða ferðatakmarkanir muni verða í gildi
– Þróun launakostnaðar, vaxtastigs og verðbólgu
– Íbúaþróun sveitarfélagsins
– Fjárfesting í nýsköpunartækifærum sveitarfélagsins
– Þróun í innviðafjárfestingu sveitarfélagsins, s.s. tengt gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar

Fjárhagsáætlun 2023-2025
Gert er ráð fyrir því að þegar líður á árið 2023 hafi atvinnulíf í sameinuðu sveitarfélagi náð viðspyrnu og að fjárfestingar á árunum 2024-2025 verði fyrst og fremst miðaðar við nauðsynlegt viðhald. Dregið verði úr kostnaði við rekstur sveitarfélagsins, svo sem kostur er og lán greidd upp samfara auknum útsvarstekjum sem koma til í tengslum við þróttmikið atvinnulíf í vexti. Fjárfesting í innviðum á borð við skóla og leikskóla verði fullnýtt áður en til frekari fjárfestinga kemur á þeim sviðum og starf þeirra samþætt eins og fagleg og rekstrarleg sjónarmið kalla á. Að loknu þessu tímabili mun traustur rekstur sameinaðs sveitarfélags verða grundvöllur til frekari uppbyggingar innviða, s.s. íþróttamannvirkja.

Mývatnssveit 8. desember 2021
Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri, Helgi Héðinsson, oddviti, Elísabet Sigurðardóttir, Sigurður Böðvarsson, Halldór Þorlákur Sigurðsson, Dagbjört Bjarnadóttir


Fasteignagjöld: Álagningarreglur 2022
Tillaga að álagningarreglum fasteignagjalda fyrir árið 2022:
Fasteignaskattur A 0,625% af fasteignamati
Fasteignaskattur B 1,32% af fasteignamati
Fasteignaskattur C 1,65% af fasteignamati
Vatnsgjald 0,15% af fasteignamati, auk notkunarvatnsgjalds (34 kr/m3, auk mælaleigu) hjá fyrirtækjum sem nota vatn til annars en heimilisþarfa (með vísan í 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004)
Holræsagjald 0,225% af fasteignamati.
Lóðaleiga kr. 10,50 á m2.
Gjalddagar ofangreindra gjalda umfram kr. 25.000 verði 10, sá fyrsti 1. mars 2022. Gjalddagi gjalda undir kr. 25.000 verði 1. maí 2022.

Fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði, sem eigandi býr í, skal felldur niður/lækkaður hjá elli- og örorkulífeyrisþegum samkv. eftirfarandi reglum:
100% lækkun:
Einstaklingar með tekjur allt að 5.700.000 kr.
Samskattaðir aðilar með tekjur allt að 7.900.000 kr.
80% lækkun:
Einstaklingar með tekjur á bilinu 5.700.000 til 6.500.000 kr.
Samskattaðir aðilar með tekjur á bilinu 7.900.000 til 8.800.000 kr.
50% lækkun:
Einstaklingar með tekjur á bilinu 6.500.000 til 7.500.000 kr.
Samskattaðir aðilar með tekjur á bilinu 8.800.000 til 9.200.000 kr.
Miðað er við tekjuárið 2020.

Álagning fasteignagjalda á fasteignir sem leyfi hafa til reksturs gististaða:
Ef afnotum fasteignar sem metin er sem ein heild er á þann veg háttað að greiða ber fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, ákveður byggingarfulltrúi hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka, sbr. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 að viðbættu álagi sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem Skútustaðahreppur hefur nýtt sér. Skal eiganda veittur andmælaréttur áður en hlutfallsleg skipting er ákveðin í upphafi eða henni breytt.

Þjónustugjaldskrá 2022
Lagðar eru til hækkanir í samræmi við breytingu á neysluverðsvísitölu á almennum gjaldskrám sveitarfélagsins í A-hluta sveitarsjóðs, s.s. leikskólagjöldum, gjaldskrám tónlistarskólans, heimaþjónustu eldri borgara, bókasafns, og gjaldskrá hunda- og kattahalds. Jafnframt verði áfram ókeypis skólamáltíðir fyrir grunn- og leikskólabörn, ókeypis frístund og ritföng eins og verið hefur.
Þá er lagt til að sorphirðugjald verði hækkað um 30%, til að minnka það bil sem er á kostnaði við sorphirðu og tekjum vegna sorphirðugjalda. Fyrirséð er að hækka þurfi sorphirðugjöld enn frekar til að jafnvægi geti náðst á milli gjalda og tekna í þessum málaflokki. Er því lögð áhersla á það á árinu 2022, eins og gert var á árinu 2021, að stuðla að því að lágmarka sorp og kostnað samfélagsins samfara því.
Lagt er til að, eftir verðlagsuppfærslur, verði gefinn afsláttur af gjaldskrá Skjólbrekku til að stuðla að hamingju sveitunga og blómlegu menningarlífi. Gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar miði að aukinni notkun Íþróttamiðstöðvarinnar, með áherslu á árskort til sveitunga, samfara aukinni uppbyggingu aðstöðu innan og utan Íþróttamiðstöðvar. Árskort í Íþróttamiðstöð Skútustaðahrepps mun einnig veita aðgang að sundlauginni á Laugum.
Gjaldskrár B-hluta taki almennt mið af vísitöluhækkunum.
Gildistaka 1. janúar 2022, nema annað sé tekið fram:

Veittur verði 50% afsláttur af gatnagerðargjöldum samkvæmt samþykkt um gatnagerðargjald, stofngjald holræsa, byggingarleyfisgjald, gjöld vegna skipulagsvinnu og afgreiðslu- og þjónustugjöld í Skútustaðahreppi. Gefinn verði 80% afsláttur af sömu gjaldskrá, sé um að ræða nýbyggingu sem hefur viðurkennda umhverfisvottun á borð við Svansvottun.

Skjólbrekka
Veittur verði 50,0% afsláttur af verðskrá Skjólbrekku frá 2021 eftir verðlagsuppfærslu, þ.e. frá eftirfarandi verðskrá (verð með vsk):
1. Fundir
Minni salur 10.600 kr.
Stóri salur 35.600 kr.
2. Fjölskyldusamkomur s.s. afmæli og ættarmót. Aðgangur að eldhúsi og áhöldum innifalinn:
Minni salur 42.100 kr.
Stóri salur 70.100 kr.
Allt húsið 107.900 kr.
3. Fermingar og erfidrykkjur. Aðgangur að eldhúsi og áhöldum innifalinn:
Allt húsið 54.000 kr.
4. Menningarviðburðir. Aðgangur að eldhúsi og áhöldum innifalinn:
Minni salur 27.000 kr.
Stóri salur 37.800 kr.
Allt húsið 54.000 kr.
Staðfestingargjald kr. 25.800
5. Þorrablót, árshátíðir, dansleikir, viðburðir með áfengisveitingum o.fl. Allt húsið (skemmtanaleyfi III innifalið):
Allt húsið 170.500 kr. Þrif á eigin ábyrgð
Allt húsið 210.500 kr. Þrif innifalin
Staðfestingargjald 42.400 kr.
Þrif eru innifalin í leiguverði í flokki 1-4 en valkvætt í flokki 5.
Stefgjöld og dyravarsla eru ekki innifalin í leiguverði þegar við á.


Íþróttahús
Stakt gjald fullorðinna 3.000 kr.
1 mánaðar kort 15.000 kr.
3ja mánaða kort 35.000 kr.
6 mánaða kort, 40.000 kr.
Árskort 45.000 kr.
Hjónakort/parakort
1 mánaðar kort 25.000 kr.
3ja mánaða kort 45.000 kr.
6 mánaða kort, 70.000 kr.
Árskort 80.000 kr.

Kort fela í sér aðgang að allri aðstöðu sem aðgengileg er á hverjum tíma, þ.m.t. aðgang að heitum potti og íþróttastarfi á vegum Mývetnings (knattspyrna, blak). Utan opnunartíma Íþróttamiðstöðvar fela kort í sér a.m.k. aðgengi að klifurvegg, líkamsrækt, samveruherbergi og aðstöðu í anddyri (píla, pool og þythokkí).

Íþróttasalur, leiga í 1 klst 7.000 kr. mánudaga-föstudaga en 8.500 kr. laugardaga.
Lykilkort 3.000 kr. (2.000 kr. fást endurgreiddar þegar korti er skilað).
Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að loka íþróttamiðstöð í allt að 1/2 mánuð árlega til viðgerða án þess að til endurgreiðslu eða afsláttar á árskortum komi.
Ókeypis aðgangur fyrir 65 ára og eldri og öryrkja sem eru íbúar í sveitarfélaginu.

Frekara samstarf verður við haft við Ungmennafélagið Mývetning um úthlutun tíma í íþróttasal og stefnt að gjaldfrjálsri notkun leiðbeinenda á íþróttasal, svo lengi sem þeir veita korthöfum 20% afslátt af þátttökugjöldum í tímum. Minnt er á rétt til endurgreiðslu stéttarfélaga og vinnuveitenda vegna kostnaðar vegna líkamsræktar.

Leikskólagjöld
Tímagjald pr. mánaðarklst. kr. 3.673
Tímagjald, einstæðir foreldrar (25% afsl) kr. 2.755
Afsláttarreglur
Systkinaafsl. 2. barn 50%
Systkinaafsl. 3. og 4. barn 75%
Afsláttur er veittur af því gjaldi sem lægra er, ef um mislanga vistun er að ræða.
Heimiluð er gjaldfrjáls 2-4 vikna samfelld frítaka utan lokunartíma einu sinni á almanaksárinu. Umsóknir um gjaldfría frítöku berist leikskólastjóra að lágmarki fjórum vikum fyrir áætlaða frítöku.
Fyrir þá nemendur sem útskrifast að vori en þurfa á vistun að halda eftir sumarlokun, þarf að sækja sérstaklega um áframhaldandi vistun til leikskólastjóra með 4 vikna fyrirvara.
Ef barn er sótt eftir að umsömdum vistunartíma lýkur er lagt á 500 kr. gjald pr. tilvik.
Ef um langtímaveikindi er að ræða (4 vikur eða lengur) er hægt að sækja um niðurfellingu dvalargjalds gegn framvísun læknisvottorðs.

Fæðiskostnaður í mötuneyti grunnskóla og leikskóla
0 kr.
Sérstök áhersla verður á hráefniskaup úr héraði í mötuneyti sveitarfélagsins og miðlun varðandi uppruna hráefna, næringargildi matvæla og loftslagsáhrif matvæla úr héraði í samanburði við hráefni sem sótt eru lengra að.

Frístund grunnskóla: 0 kr.

Tónlistarskólagjöld
60 mín. á viku 27.946 kr.
40 mín. á viku 23.757 kr.
35 mín. á viku 22.089 kr.
30 mín. á viku 18.177 kr.
Fullorðnir greiða 20% álag.
Hljóðfæraleiga 4.967 pr. önn.
Fjölskylduafsláttur:
2. meðl. fjölskyldu fær 20% afslátt.
3. meðl. fjölskyldu fær 40% afslátt.
4. meðl. fjölskyldu fær 60% afslátt.
Ekki er veittur afsláttur af hljóðfæraleigu.
Gjaldskráin miðast við hverja önn. Nemendur greiða skólagjöld í upphafi hverrar annar. Hætti nemendur námi verður ekki um endurgreiðslur skólagjalda að ræða nema til komi veikindi eða aðrar sérstakar ástæður.
Kennsla fellur niður á starfsdögum Reykjahlíðarskóla.

Bókasafn
Ársskírteini 2.000 kr.

Sorp
Sorphirðu- og sorpeyðingargjald
Sorphirðu- og sorpeyðingargjald á íbúð/íbúðarhúsnæði 50.286 kr.
Sumarhús 38.192 kr.
Sorptunnugjald fyrir nýja tunnu 21.045 kr.
Gjalddagar eru þeir sömu og gjalddagar fasteignagjalda
Þar sem sorphirða fer fram samkvæmt sérstakri þjónustubeiðni skal innheimta sorphirðugjaldsins vera samkvæmt reikningi fyrir kostnaði.
Verð á klippikorti fyrir gámasvæði (4m3 af úrgangi), heimili 12.214 kr.
ATH! Eitt ókeypis kort fylgir hverju heimili einu sinni á ári

Gjöld rekstraraðila:
Fyrir áætlað lágmarks magn allt að 100 kg. eða 1,5 m3 skal greiða í móttöku og flutningsgjald kr. 5.862 og í urðunargjald kr. 6.351 eða samtals kr. 12.214.
Fyrir hvert kíló umfram 100 kg greiðist samtals í móttöku og flutningsgjald 54,93 kr. og 65,25 kr. í urðunargjald og fyrir hvern 1,5 m3 umfram 1,5 m3 bætist 5.894 kr. fyrir móttöku og flutningsgjald og 6.339 kr. í urðunargjald.
Ekki er tekið gjald fyrir móttöku á flokkuðum úrgangi sem ber úrvinnslugjald, þar má nefna: pappaumbúðir, plastumbúðir, hjólbarðar, heyrúlluplast, ýmis spilliefni og úrelt ökutæki.


Félagsleg heimaþjónusta
Fullt gjald fyrir hverja unna vinnustund 3.000 kr.
Tekjumörk þjónustuþega sem búa einir kr./klst.
Allt að 320.000 kr/mán.
Á bilinu 320.000 – 420.000 kr/mán. 950
Á bilinu 420.000 – 520.000 kr/mán. 1500
Yfir 520.000 kr/mán. 3000
Tekjumörk hjóna:
Allt að 500.000 kr/mán. 0
Frá 500.000 – 580.000 kr/mán. 950
Frá 580.000 – 670.000 kr/mán. 1500
Yfir 670.000 kr. mán. 3.000
Tekjumörk örorku/endurhæfingarlífeyrisþega sem býr einn er kr. 320.000 pr. mánuð.
Tekjumörk örorku/endurhæfingarlífeyrisþega sem býr ekki einn er kr. 250.000 pr. mánuð.

Hunda- og kattahald
Skráningagjald fyrir hund 3.165 kr.
Skráningagjald fyrir kött 3.165 kr.
Handsömunargjald fyrir hund og kött í fyrsta sinn 5.779 kr.
Handsömunargjald fyrir hund og kött í annað sinn 11.558 kr.


Samþykkt.
6.  Undirbúningsstjórn vegna sameiningar – Fundargerðir – 2112004
Lagðar fram fundargerðir undirbúningsstjórnar vegna sameiningar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Fundargerðirnar má finna á www.thingeyingur.is
Lagt fram
7.  Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerðir – 1611015
Lögð fram fundargerð 903. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fundargerðin er í sautján liðum.
Lagt fram
8.  Skýrsla sveitarstjóra – 1611024

Fundi slitið kl. 12:30

Scroll to Top