merki sameinaðs sveitarfélags

63. fundur sveitarstjórnar

63. fundur sveitarstjórnar haldinn að Hlíðavegi 6, miðvikudaginn 23. júní 2021, kl. 09:15.

Fundinn sátu:

Elísabet Sigurðardóttir, Halldór Þorlákur Sigurðsson, Dagbjört Bjarnadóttir, Alma Dröfn Benediktsdóttir, Arnþrúður Dagsdóttir og Sveinn Margeirsson.

Fundargerð ritaði:  Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

Í upphafi fundar óskaði Elísabet eftir að taka fimm mál á dagskrá með afbrigðum.
2106041- Viljayfirlýsing um stofnun rannsóknaseturs í sameinuðu sveitarfélagi.
2102006- Umsókn um framlenginu á stöðuleyfi gáms í Bjarnaflagi.
2106020- Múlavegur 5- Endurnýjun lóðaleigusamnings
2106025 Breyting á deiliskipulagi Reykjahlíðar- Skútahraun
2103042- Helluhraun 18- stækkun á lóð.
Samþykkt samhljóða að bæta málunum á dagskrá undir liðum 5, 11, 12, 13, og 14 og færast önnur mál sem því nemur.

1.  Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga – 1905032
Tekið fyrir bréf frá sameiningarnefnd varðandi úrslit kosninga um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.
Lagt fram
 
2.  Undirbúningsstjórn nýs sveitarfélags – 2106031
Á fundi sínum þann 8. júní ákvað samstarfsnefnd um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar að leggja til að sveitarstjórnir skipi tvo til þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara í undirbúningsstjórn sem fái það hlutverk að undirbúa stofnun hins nýja sveitarfélags, í samræmi við 122. gr. sveitarstjórnarlaga.

Helstu verkefni undirbúningsstjórnar nýs sveitarfélags eru að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar sem gilda mun fyrir hið nýja sveitarfélag þar til því hefur verið sett sérstök samþykkt. Hún skal einnig taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, taka saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.
Sveitarstjórn samþykkir að tilnefna Helga Héðinsson, Sigurð Böðvarsson og Ölmu Benediktsdóttur í undirbúningsstjórn nýs sveitarfélags. Til vara eru skipuð Elísabet Sigurðardóttir, Selma Ásmundsdóttir og Agnesi Einarsdóttir.
Samþykkt
 
3.  Deiliskipulag Skjólbrekku – 2102008
Vinna við deiliskipulag Skjólbrekku er komin vel af stað og er í umsjón Teiknistofu Norðurlands.
Lagt fram
 
4.  Umbætur á fjarskiptasambandi í Mývatnssveit – 2101031
Arnþrúður Dagsdóttir kom inn á fundinn undir þessum lið. Brýnt er að bæta fjarskiptasamband í Mývatnssveit, en á allnokkrum stöðum innan sveitarinnar er nauðsynlegt að fjarskiptainnviðir verði byggðir upp til að bæta gsm samband, útvarpssendingu og netsamband.
Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að flýta uppbyggingu fjarskipatainnviða í Mývatnssveit. Er um mikilvægt öryggis- og byggðamál að ræða. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.
Samþykkt
 
5.  Viljayfirlýsing um stofnun rannsóknaseturs í sameinuðu sveitarfélagi – 2106041
Takið fyrir með afbrigðum.
Lögð fram drög að viljayfirlýsing um stofnun rannsóknaseturs. Að viljayfirlýsingunni standa Háskóli Íslands, Svartárkot – menning náttúra, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit sem lýsa yfir vilja til að vinna í sameiningu að stofnun rannsóknaseturs í sameinuðu sveitarfélagi.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að vinna með Háskóla Íslands, Svartárkoti – menning, náttúra og Þingeyjarsveit að framgangi viljayfirlýsingarinnar, í samráði við aðra hagaðila þekkingarsamfélagsins í sameinuðu sveitarfélagi.
Samþykkt
 
6.  Birkiland -Erindi frá lóðarhöfum – 2005003
Aðalfundur Birkilands, félags lóðarhafa haldinn þann 9. júní 2021 beinir þeim tilmælum til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps að skipulagsskilmálum verði breytt þannig að skrá megi lögheimili í Birkilandi.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og skipulagsfulltrúa að kanna möguleika til breytingar skipulagsskilmála í Birkilandi og með hvaða hætti skynsamlegt sé að haga þjónustu innan svæðisins, komi til breytingar á skipulagi. Samráð hefur átt sér stað við landeigendur og lóðarhafa varðandi málið og er lögð áhersla á frekara samráð í þessum efnum. Mikilvægt er að íbúum svæðisins verði gert kleift að skrá lögheimili sín þar, svo sem lög mæla fyrir um.
 Samþykkt
7.  Vegagerðin – samráð – 2009032
Á sumarsólstöðum 2021 hafa malarvegir í Mývatnssveit ekki enn fengið eðlilegt viðhald (heflun og annað viðhald) að loknum vetri. Bent hefur verið á mikilvægi heflunar frá vorleysingum. Slæmt ástand malarvega hefur neikvæð áhrif á búsetuskilyrði í sveitarfélaginu, veldur eignaspjöllum og hindrar dreifingu ferðamanna um sveitarfélagið. Mikilvægt er leggja mat á fýsileika þess að bundið slitlag verði lagt á malarvegi í sveitarfélaginu. Í þeim tilvikum sem ekki verður lagt bundið slitlag, lýsir sveitarfélagið sig reiðubúið til samstarfs við Vegagerðina um langtíma áætlanagerð varðandi viðhald malarvega í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.
Samþykkt
 
8.  Landsvirkjun – Aðgerðaáætlun um losun affallsvatns frá jarðhitanýtingu í Bjarnarflagi – 2106030
Borist hefur minnisblað frá Landsvirkjun varðandi aðgerðaáætlun um losun affallsvatns frá jarðahitanýtingu í Bjarnarflagi. Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að fulltrúar Landsvirkjunar hafi fundað með fulltrúa Orkustofnunar um framgang aðgerðaáætlunarinnar í maí sl. og stefnt sé að frekari fundahöldum á milli þessara aðila í september nk.
Lagt fram
 
9.  Skipulagsnefnd: Fundargerðir – 1611022
Lögð fram fundargerð 36. fundar skipulagsnefndar dags. 15. júní 2021. Fundargerðin er í 11 liðum.
Liðir 5, 6, 8, 9 og 10 verða teknir fyrir undir öðrum liðum.
Lagt fram
 
10.  Samband íslenskra sveitarfélaga: Fundargerðir – 1611015
Lögð fram fundargerð 899. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. dags 11. júní 2021. Fundargerðin er í 25. liðum. Í fundargerðinni óskar stjórn sambandsins Þingeyingum til hamingju með niðurstöðu sameiningarkosninga 5. júní sl.
Lagt fram
 
11.  Múlavegur 5 – Endurnýjun lóðaleigusamnings – 2106020
Tekið fyrir með afbrigðum. Ísak Sigurðsson óskar eftir endurnýjun lóðarleigusamnings að Múlavegi 5, Mývatni. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 15. júní þar sem nefndin lagði til við sveitarstjórn að heimila endurnýjun lóðaleigusamnings við Múlaveg 5, Mývatni. Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar og heimilar endurnýjun á lóðarleigusamningi við Múlaveg 5, Mývatni.
Samþykkt  
12.  Breyting á deiliskipulagi Reykjahlíðar – Skútahraun – 2106025
Tekið fyrir með afbrigðum.
Tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Reykjahlíðar dags. 14. júní 2021 frá Teiknistofu Arkítekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. Breytingin felur í sér stækkun lóða og byggingareita Skútahrauns 2a, 2b, 4a og 4b. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 15. júní þar sem skipulagsnefnd lagði til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna skipulagsáformin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.
Sveitarstjórn samþykkir bókun skipulagsnefndar og felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna skipulagsáformin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga
Samþykkt
 
13.  Helluhraun 18 – stækkun á lóð – 2103042
Tekið fyrir með afbrigðum.
Tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Reykjahlíðar dags. 14. júní 2021 frá Teiknistofu Arkítekta, Gylfi Guðjónsson og félagar. Breytingin felur í sér stækkun lóðar og byggingareits Helluhrauns 18 í samræmi við umsókn Kristjáns Steingrímssonar dags. 23. mars 2021.
Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 15. júní þar sem skipulagsnefnd lagði til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna skipulagsáformin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.
Sveitarstjórn samþykkir bókun skipulagsnefndar og felur skipulagsfulltrúa að grenndarkynna skipulagsáformin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga
Samþykkt
 
14.  Umsókn um framlengingu á stöðuleyfi gáms í Bjarnaflagi – 2102006
Elísabet Sigurðardóttir vék af fundi undir þessum lið. Dagbjört Bjarnadóttir tók við stjórn fundarins.   Tekið fyrir með afbrigðum. Tekin fyrir beiðni frá Bjarna Pálssyni f.h. Landsvirkjunar dags. 24. janúar 2021 um framlengingu stöðuleyfis fyrir gám í Bjarnarflagi. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 15. júní s.l. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að beiðni um framlengingu á stöðuleyfi rannsóknargáms við Skiljustöð 2 í Bjarnarflagi verði hafnað.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar og hafnar beiðni um framlengingu á stöðuleyfi rannsóknargáms við Skiljustöð 2 í Bjarnarflagi. Viðkomandi stöðuleyfi rann út 24.janúar sl., sama dag og óskað var framlengingar þess, en í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30.6.2020, var því hafnað að stöðuleyfi gámsins gæti náð yfir lengri tíma en eitt ár. Farið er fram á að umræddur rannsóknagámur verði fjarlægður sem fyrst, eigi síðar en 20.ágúst 2021.
 

Fundi slitið kl. 12:30

Scroll to Top