merki sameinaðs sveitarfélags

59. fundur sveitarstjórnar

59. fundur sveitarstjórnar haldinn í Skjólbrekku, 28. apríl 2021, kl. 09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson, Elísabet Sigurðardóttir, Sigurður Böðvarsson, Halldór Þorlákur Sigurðsson, Dagbjört Bjarnadóttir og Sveinn Margeirsson.

Fundargerð ritaði:  Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

Í upphafi fundar lagði oddviti til að bæta við tveimur málum á dagskrá með afbrigðum: 1705007 Leikskólinn Ylur, starfsmannamál og máli: 2006016 Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga. Samþykkt samhljóða að bæta málunum við.
1.Framkvæmdaleyfi fyrir niðurdælingarholu við Kröflu – 2103024
Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir véku af fundi við afgreiðslu þessa liðar. Friðrik Jakobsson og Alma Benediktsdóttir tóku sæti í þeirra stað. Sigurður Böðvarsson tók við stjórn fundarins.

Tekið fyrir að nýju erindi dags. 12. mars 2021 frá Axel Vali Birgissyni f.h. Landsvirkjunar þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir borun niðurdælingarholu fyrir tilraun með förgun á þéttivatni frá Kröflustöð. Erindið var áður á dagskrá sveitarstjórnar þann 24. mars 2021.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að gefa út framkvæmdaleyfi skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulagsnefndar og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis vegna niðurdælingarholu fyrir förgun þéttivatns frá Kröflustöð. Framkvæmdin er í samræmi við breytingu á deiliskipulagi Kröfluvirkjunar, sem auglýst var í B-deild stjórnartíðinda 26. mars sl. Um fyrirkomulag framkvæmdar er vísað til framkvæmdarlýsingar þar sem fram kemur hvernig kröfum Skipulagsstofnunar í matsskylduákvörðun, dags. 28. maí 2020, varðandi umhverfislega þætti er mætt, m.a. varðandi endurmat og vöktun. Niðurdæling þéttivatns, sem verður til í eimsvala og kæliturni Kröfluvirkjunar er hluti af nýtingu jarðhita á svæðinu í samræmi við umhverfislegar kröfur sem nú eru gerðar til slíkrar starfsemi. Í matsskylduákvörðun kemur fram það álit Skipulagsstofnunar að framkvæmdin komi til með að hafa jákvæð áhrif á Dallæk. Við meðferð málsins hafa þessir þættir verið teknir til skoðunar, m.a. í ljósi sjónarmiða um þýðingu samnings landeigenda og ríkissjóðs, sem framkvæmdaraðili heldur á. Sveitarstjórn áréttar mikilvægi þess að virkt samráð eigi sér stað milli framkvæmdaraðila og landeigenda um fyrirætlanir um nýtingu jarðhita á svæðinu, þannig hlutaðeigandi aðilar hafi fjallað um og tekið tillit til hagsmuna hvors annars eins og unnt er áður en mál koma til umfjöllunar leyfisveitenda.

Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út framkvæmdaleyfi skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við ákvörðun framkvæmdaleyfisgjalds verði tekið tillit til vinnu og kostnaðar sem fylgt hefur afgreiðslu málsins.
Samþykkt
2.Framkvæmdaleyfi til efnistöku í Röndum – 2104014
Tekið fyrir erindi dags. 15. apríl 2021 frá Guðrúnu M. Valgeirsdóttur f.h. Landeigenda Reykjahlíðar ehf. þar sem sótt er um heimild til efnistöku úr Röndum, syðst í Jörundargrjótum, merkt E-376 í aðalskipulagi. Sótt er um heimild til þess að vinna allt að 50.000 m3 af efni úr námunni.
Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur skipulagsnefnd farið yfir tilkynningu framkvæmdaraðila. Nefndin telur að fyrirhuguð efnistaka í Jörundargrjótum sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Leitað hefur verið til Jóns Jónssonar, hrl. varðandi eignarréttarlega stöðu tengt málinu. Þegar land er í sameign, gilda óskráðar meginreglur eignarréttar um heimildir sameigenda til nýtingar lands. Þessar meginreglur eru eftirfarandi:
1) Samþykki allra sameigenda þarf fyrir óvenjulegum og mikilsháttar ráðstöfunum.
2) Samþykki meirihluta eigenda þarf fyrir venjulegri nýtingu sem raskar ekki stöðu einstakra eigenda. Við slíka ákvarðanatöku er þó almennt gengið út frá því að væntanleg nýting hafi verið kynnt öllum sameigendum, þannig að þeir hafi haft tækifæri að því að koma að ákvarðanatöku.
3) Hverjum sameigenda er heimil nýting sem er bagalaus fyrir aðra landeigendur og gengið er út frá við stofnun sameignar.
Skipulagsfulltrúa er falið að óska eftir upplýsingum frá leyfisbeiðanda varðandi eftirfarandi:
1. Hvort leyfisbeiðandi telji samþykki meirihluta eigenda nægja til þess að eiga rétt á sækja um framkvæmdaleyfi, gagnvart sameigendum sínum.
2. Hvort væntanleg nýting hafi verið kynnt fyrir öllum sameigendum og þeim gefinn kostur á að koma að ákvörðuninni.
3. Hvort fyrir liggi skriflegt samþykki meirihluta sameigenda fyrir væntanlegri nýtingu.
Frestað
3.Reykjahlíð 3 lóðastofnun – 2104018
Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir tóku sæti á fundinum að nýju. Friðrik Jakobsson og Alma Benediktsdóttir viku af fundi. Helgi Héðinsson tók við stjórn fundarins.

Tekið fyrir erindi dags. 15. apríl 2021 frá Guðmundi H. Péturssyni f.h. landeigenda Reykjahlíðar 3, L153594, þar sem sótt er um stofnun lóðarinnar Reykjahlíðar 3A og skipti hennar út úr jörðinni. Einnig er sótt um landskipti lóðarinnar Reykjahlíð 3 lóð, hún fái nafnið Reykjahlíð 3b og verði stækkuð samkvæmt hnitsettu mæliblaði.
Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við landskiptin né nafnabreytingu í samræmi við fyrirliggjandi gögn og leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar og felur byggingarfulltrúa að annast málsmeðferð vegna málsins eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.
Samþykkt
4.Skútahraun 18 – Breyting á byggingarreit – 2103043
Tekið fyrir erindi frá Stefáni Jakobssyni dags 23. mars 2021 þar sem óskað er eftir breytingu á byggingareit. Fyrirhuguð breyting gerir ráð fyrir viðbyggingu við bílskúr um 7 m til suðurs og 3 m til austurs.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að fyrirhuguð breyting á byggingarreit Skútahrauns 18 verði ekki heimiluð þar sem hún stendur á lóðamörkum og mun hafa veruleg áhrif á ásýnd og heildarmynd götunnar. Viðbygging á þessum stað mun hafa áhrif á útsýni og skuggavarp nágranna.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar og hafnar beiðni um breytingu á byggingarreit Skútahrauns 18.
Samþykkt
5.Helluhraun 18 – stækkun á lóð – 2103042
Tekið fyrir erindi dags. 23. mars 2021 frá Yngva Ragnari Kristjánssyni f.h. Kristjáns Steingrímssonar þar sem óskað er eftir heimild til stækkun lóðar Helluhrauns 18 um 107 m2 norðan við íbúðarhús. Fyrirhuguð er bygging bílskúrs á lóðinni.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja heimild til stækkun lóðarinnar Helluhraun 18 og að skipulagsfulltrúa verði falið að að sjá um gerð óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Reykjahlíðar skv 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við áformin á þessu stigi og felur skipulagsfulltrúa að vinna að óverulegri breytingu á deiliskipulagi í samræmi við 2. mgr. 43. gr skipulagslaga nr. 123/2010, sem m.a. felur í sér grenndarkynningu. Að því loknu verður málið tekið fyrir að nýju.
Samþykkt
6.Haganes lóðastofnun – 2104017
Tekið fyrir erindi dags. 16. apríl 2021 frá Kolbrúnu Ívarsdóttur með beiðni um stofnun lóðar í landi Haganess.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við stofnun lóðar í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að lóðastofnunin verði samþykkt og jafnframt verði byggingarfulltrúa falið að annast málsmeðferð vegna hennar eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar.
Samþykkt
7.Leikskólinn Ylur: Starfsmannamál – 1705007
Ingibjörg Helga Jónsdóttir, leikskólastjóri leikskólans Yls, hefur sagt upp störfum og tekur uppsögn hennar gildi frá og með 1. maí 2021. Sveitarstjórn þakkar Ingibjörgu fyrir vel unnin störf í þágu samfélagsins.
Lagt fram
8.Staða skólastjóra Reykjahliðarskóla – 2103007
Gengið hefur verið frá ráðningu Hjördísar Albertsdóttur í stöðu skólastjóra Reykjahlíðarskóla frá 1. ágúst 2021. Hjördís er einnig ráðin í starf leikskólastjóra á leikskólanum Yl. Hjördís er með BEd menntun í grunnskólakennarafræði og hefur jafnframt lagt stund á MLM nám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Hjördís hefur mikla kennslureynslu og hefur starfað sem varaformaður félags grunnskólakennara frá 2018. Þá hefur Hjördís ríka reynslu af stjórnun á ýmsum sviðum skólasamfélagsins.

Með ráðningu Hjördísar og samþættingu leik- og grunnskóla er stefnt að því að styrkja enn frekar skólasamfélag Skútustaðahrepps. Fjölbreytt náttúra og sterkt samfélag svæðisins eru grundvöllur slíkrar sóknar og mun reynsla Hjördísar af samþættingu námsgreina og þróun kennsluhátta nýtast ríkulega í því samhengi. Framtíðarsýn Hjördísar á þróun skólastarfs vó þungt við mat umsókna, en ráðgjafafyrirtækið Ásgarður var sveitarfélaginu innan handar við mat á umsækjendum.

Reykjahlíðarskóli og leikskólinn Ylur mynda samfélag um 80 nemenda og starfsmanna, sem setur velferð og hagsmuni barna í forgang, með áherslu á lífsleikni, lýðheilsu, jafnrétti, fjölmenningu, lýðræðislegt samstarf og virðingu fyrir manngildi og sjálfbærni. Öflug tengsl við umhverfi og grenndarsamfélag og sérstaða nánasta umhverfis eru nýtt til kennslu.
Sveitarstjórn fagnar ráðningu Hjördísar Albertsdóttur í stöðu skólastjóra Reykjahlíðarskóla og leikskólans Yls.
Lagt fram
9.Skýrsla sveitarstjóra – 1611024
Lagt fram
10.Umhverfisstofnun – Samstarf og samráð – 2104021
Fulltrúar Umhverfisstofnunar kynntu starfsemi stofnunarinnar innan sveitarfélagsins. Umræða um samstarf.
Frestað
11.Menningarmiðstöð Þingeyinga – Fundargerðir – 1910018
Lögð fram fundargerð stjórnarfundar MMÞ haldinn 24. mars 2021 í Safnhúsi Húsavíkur kl:16:00
Lagt fram
12.Flugklasinn Áfangaskýrsla – 1710023
Lögð fram skýrsla frá Markaðsstofu Norðurlands varðandi starf flugklasans Air 66N. Covid-19 heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á markaðsstarf Flugklasans og hafa undanfarnir mánuðir snúist um að búa í haginn fyrir betri tíma eftir heimsfaraldur.
13.Greið leið ehf Aðalfundarboð – 2005014
Boðað til aukafundar hluthafa í Greiðri leið kl. 15:00 miðvikudaginn 28. apríl. Fundurinn verður haldinn í Teams fjarfundi. Tilefni fundarins eru þau mál sem fram koma í meðfylgjandi skjölum sem lögð eru fram til kynningar og til umræðu á fundinum.

Fundurinn er boðaður með 7 daga fyrirvara í samræmi við 12. gr. samþykkta félagsins.

Efni fundarins:

1. Fjárhagsleg endurskipulagning Vaðlaheiðaganga hf.

Akureyri, 21. apríl 2021

Eyþór Björnsson
stjórnarformaður.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að sækja fundinn fyrir hönd sveitarfélagsins.
Samþykkt
14.Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga – 2006016
Tekið fyrir með afbrigðum.

Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga verður haldinn í Skjólbrekku mánudaginn 3. maí og hefst hann kl. 20.
Sveitarstjórn felur Sigurði Guðna Böðvarssyni að sækja fundinn fyrir hönd sveitarfélagsins.
15.Skóla- og félagsmálanefnd: Fundargerðir – 1809011
Lögð fram fundargerð 25. fundar skóla- og félagsmálanefndar dags. 21. apríl 2021. Fundargerðin er í sjö liðum.
Lagt fram
16.Skipulagsnefnd: Fundargerðir – 1611022
Lögð fram fundargerð 34. fundar skipulagsnefndar dags. 20. apríl 2021. Liðir tvö, þrjú, fjögur, fimm og sex hafa þegar verið afgreiddir á fundi sveitarstjórnar undir liðum eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm og sex.
17.Stýrihópur Hamingjunnar – Fundargerðir – 1911003
Lögð fram fundargerð 21. fundar stýrihóps hamingjunnar dags 19. apríl 2021. Fundargerðin er í fjórum liðum.
Lagt fram

Fundi slitið kl. 11:15.

Scroll to Top