merki sameinaðs sveitarfélags

58. fundur sveitarstjórnar

58. fundur sveitarstjórnar haldinn að Hlíðavegi 6, 14. apríl 2021, kl. 09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson, Elísabet Sigurðardóttir, Sigurður Böðvarsson, Halldór Þorlákur Sigurðsson, Dagbjört Bjarnadóttir og Sveinn Margeirsson.

Fundargerð ritaði:  Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.Aðgerðir sveitarstjórnar til viðspyrnu vegna Covid-19 – 2003023
Fyrir liggja frekari upplýsingar um stuðning ríkisins til viðspyrnu atvinnulífs í kjölfar Covid-19. Á vettvangi Skútustaðahrepps hefur verið lögð áhersla á græn verkefni sem falla að stefnumörkun sveitarfélagsins og hefur verið unnið í samvinnu við m.a. Vegagerðina, Landgræðsluna, Vatnajökulsþjóðgarð, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Þekkingarnet Þingeyinga.

Gengið hefur verið frá ráðningu Valerija Kishkurno í starf verkefnisstjóra á sviði umhverfismála og ágengra plöntutegunda. Valerija mun verða í samstarfi við umhverfisfulltrúa og umsjónarmann vinnuskóla um upprætingu ágengra plöntutegunda, framkvæmd lífræns tilraunaverkefnis, ruslatínslu, gróðursetningu og önnur verkefni sem falla að stefnumótun sveitarfélagsins.

Unnið er að gerð lista yfir verkefni sem Skútustaðahreppur mun bjóða upp á tengt sumarstörfum námsmanna. Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja tæpum 2,4 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að með átakinu verði til um 2.500 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Hverjum nýjum námsmanni sem ráðinn er inn með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund kr. á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður, sjá: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/04/09/Sokn-fyrir-namsmenn-Sumarnam-og-sumarstorf-2021/

Íbúar eru áfram hvattir til að koma á framfæri ábendingum um frekari verkefni sem hrinda má í framkvæmd til að ýta undir viðspyrnu samfélagsins vegna Covid-19.
Lagt fram
2.Félag eldri mývetninga- samningur 2021 – 2103047
Tekið fyrir bréf frá Hólmfríði Ásdísi Illugadóttur dags. 1. mars 2021 fyrir hönd stjórnar eldri mývetninga óskar eftir endurnýjun á samningi frá 2018 sem gerður var til þriggja ári. Óskað er eftir að nýi samningurinn hækki úr 250.000,-kr í 400.000,-kr.
Félagsstarf eldri Mývetninga er mikilvægur hluti af hamingju sveitunga. Sveitarstjórn samþykkir framlengingu samningsins fyrir árið 2021 og samþykkir hækkun hans um 150 þúsund, með framlagi úr verkefninu Hamingja sveitunga. Erindinu er að öðru leyti vísað til gerðar fjárhagsáætlunar 2022.

Halldór Sigurðarson vék af fundi við afgreiðslu þessa máls.
Samþykkt
3.Staða verkefna í viðspyrnuáætlun sambandsins frá mars 2020 með aðgerðapakka – 2104003
Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 26. mars 2021 var lagt fram minnisblað, dags. 24. mars 2021, með mati á stöðu verkefna í
viðspyrnuáætlun sambandsins frá mars 2020 með aðgerðarpakka fyrir sveitarfélög
og sambandið til viðspyrnu gegn samdrætti í þjóðarbúskapnum.
Lagt fram
4.Umhverfisstefna Skútustaðahrepps endurskoðun – 2011035
Erindi frá Arnþrúði Dagsdóttir formanni umhverfisnefndar dags. 2. mars 2021. Lagðar til lítilsháttar breytingar á aðgerðaráætlun í umhverfisstefnu Skútustaðahrepps.
Sveitarstjórn samþykkir framlagðar breytingar á umhverfisstefnu Skútustaðahrepps.
Samþykkt
5.Nýsköpun í norðri – 1909032
Staða verkefnisins Nýsköpun í norðri (NÍN) og áform um doktorsnám Hildar Ástu Þórhallsdóttur í tengslum við NÍN kynnt.

NÍN hefur m.a. verið kynnt Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ásamt ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs.

Unnin hefur verið greinargerð til Byggðastofnunar vegna viðspyrnustuðnings og verður fundað með fulltrúum SSNE, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Byggðastofnunar um verkefnið á næstu dögum.

Sveitarstjóri mun fjalla um samhengi NÍN við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á fundi Sambands íslenskra sveitarfélaga á föstudag undir yfirskriftinni: Hvernig heimsmarkmiðin eru lögð til grundvallar í sameiningarvinnu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar: „Nýsköpun í norðri“

NÍN tekur þátt í „Hacking Norðurland“, lausnamóti 15.-18.apríl. Skráðir þátttakendur eru 51 (þriðjudagur 13.4.2021). Enn er hægt að skrá sig í hakkaþonið.

Fyrirhugað er að Hildur Þórhallsdóttir, sem sinnt hefur starfi verkefnisstjóra hjá NÍN, sæki um doktorsnám við umhverfis- og auðlindadeild Háskóla Íslands og styðji með því enn frekar við það starf sem unnið hefur verið á vettvangi verkefnisins. Efnistök Hildar í doktorsnáminu munu byggja á niðurstöðum NÍN og vera með áherslu á stjórnsýslu tengt friðlýstum svæðum og stjórnsýslu tengt loftslagsmálum, með Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit sem viðfangsrannsókn (case study). Stefnt er að fjármögnun doktorsnámsins með umsóknum í rannsókna- og nýsköpunarsjóði, en Hildur Ásta Þórhallsdóttir hefur öðlast mikla reynslu á sviði umsóknarvinnu á síðustu misserum, tengt starfi sínu hjá Skútustaðahreppi á vettvangi NÍN. Gert er ráð fyrir að Hildur Ásta verði áfram starfsmaður Skútustaðahrepps á meðan doktorsnáminu stendur, en tímaáætlun gerir ráð fyrir að það taki þrjú ár.
Samþykkt
6.Skýrsla sveitarstjóra – 1611024
Lagt fram
7.Atvinnumála- og framkvæmdanefnd: Fundargerðir – 1809012
Lagt fram
8.Velferðar- og menningarmálanefnd: Fundargerðir – 1809010
Lögð fram fundargerð 26. fundar velferðar- og menningarmálanefndar dags 6. apríl. Fundargerðin er í sex liðum.
Liður 1. Velferðar- og menningarmálanefnd Styrkumsóknir fyrri úthlutun 2021 – 2102021
Velferðar- og menningarmálanefnd leggur til við sveitarstjórn að umsókn nr. 1 verði styrkt um 150.000 kr, umsókn nr. 2 um 200.000 kr og umsókn nr. 3 um 200.000 kr, með þeim fyrirvara að reglur um sóttvarnir leyfi.
Sveitarstjórn samþykkir tillögur velferðar- og menningarmálanefndar um úthlutun styrkja.
Samþykkt
9.Umhverfisnefnd Fundargerðir – 1611036
Lögð fram fundargerð 21. fundar umhverfisnefndar dags. 8. apríl 2021. Fundargerðin er í fjórum liðum.
Lagt fram  
10.Landsvirkjun- Upplýsingar um starfsemi í sveitarfélaginu- 2104005
Fulltrúar Landsvirkjunar komu til kynningar á starfsemi fyrirtækisins í sveitarfélaginu. Á dagskrá voru eftirfarandi atriði:

1. Almennt um reksturinn og helstu verkefni 2020
2. Yfirlit um hljóðmælingar og loftgæðamælingar
3. Verkefni á döfinni 2021

Kynntar voru skipulagsbreytingar innan Landsvirkjunar, sem m.a. fela í sér aukna áherslu á nýsköpun innan fyrirtækisins. Kynnt var umhverfisskýrsla og mælingar á brennisteinsvetni, ásamt fleiru. Umræður um rannsóknar-, samstarfs- og nýsköpunarverkefni á svæðinu.
Sveitarstjórn þakkar fulltrúum Landsvirkjunar fyrir góða kynningu og gagnlegar umræður. Óskað var eftir upplýsingum um fjölda starfsmanna sem vinna við Kröfluvirkjun og eru búsettir utan sveitarfélagsins. Sveitarstjórn óskar eftir því að starfsemi Landsvirkjunar verði kynnt fyrir íbúum með reglubundnum hætti. Sveitarstjórn óskar eftir því að Landsvirkjun auki samstarf innan svæðisins tengt nýsköpun og loftslagsmálum og að stofnaður verði formlegur vettvangur þar að lútandi. Nokkrar umræður voru um tækifæri og áskoranir á svæðinu. Sveitarstjórn samþykkir að senda stjórn Landsvirkjunar erindi tengt þeim. Samþykkt

Fundi slitið kl. 11:15.

Scroll to Top