merki sameinaðs sveitarfélags

57. fundur sveitarstjórnar

57. fundur sveitarstjórnar haldinn að í Skjólbrekku, 24. mars 2021, kl. 09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson, Elísabet Sigurðardóttir, Sigurður Böðvarsson, Halldór Þorlákur Sigurðsson, Dagbjört Bjarnadóttir og Sveinn Margeirsson.

Fundargerð ritaði:  Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.Framkvæmdaleyfi fyrir niðurdælingarholu við Kröflu – 2103024
Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir véku af fundi við afgreiðslu þessa liðar. Friðrik Jakobsson og Alma Benediktsdóttir tóku sæti í þeirra stað. Sigurður Böðvarsson tók við stjórn fundarins.

Erindi dags. 12. mars 2021 frá Axel Vali Birgissyni f.h. Landsvirkjunar þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir borun niðurdælingarholu fyrir tilraun með förgun á þéttivatni frá Kröflustöð. Framkvæmdin er í samræmi við breytingu á skipulagi Kröfluvirkjunar sem tekur gildi þann 26. mars 2021.
Frestað
2.Stofnun lóða við Kísiliðju – 2103025
Tekið fyrir erindi frá Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur f.h. Landeigenda Reykjahlíðar dags. 14. mars 2021 þar sem óskað er eftir stofnun lóða á iðnaðarsvæði á Kísiliðjureit.
Sveitarstjórn samþykkir stofnun lóða á iðnaðarlóð vestan gömlu Kísiliðjunnar og að byggingarfulltrúa verði falið að annast málsmeðferð vegna þeirra eins og lög og reglugerðir mæla fyrir um.
Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulagsnefndar og hvetur til þess að landeigendur framkvæmi deiliskipulag á svæðinu til þess að halda utan um framtíðar uppbyggingu.
Samþykkt
3.Hótel Laxá – Breyting á deiliskipulagi – 2103017
Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir tóku sæti á fundinum að nýju. Helgi Héðinsson tók við stjórn fundarins.

Tekið fyrir erindi dags. 12. mars 2021 frá Eiríki V. Pálssyni f.h. Hótels Laxá þar sem óskað er eftir að gerð sé breyting á deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæðis í landi Arnarvatns. Meðfylgjandi er tillaga að breytingu á greinargerð dags. 12. mars 2021. Fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting felur í sér heimild til þess að 10% af grunnfleti byggingar megi vera á þriðju hæð. Heildar byggingarmagn og nýtingarhlutfall er óbreytt.
Sveitarstjórn heimilar að gerð sé breyting á deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæðis í landi Arnarvatns og felur skipulagasfulltrúa að fara með breytinguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi og að hún sé grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulagsnefndar um mikilvægi þess að myrkurgæði verði höfð í hávegum og gætt að ljósmengun. Sett verður skilyrði þess efnis við útgáfu byggingaleyfis.
Samþykkt
4.Endurskoðun aðalskipulags – 1806007
Tekið fyrir minnisblað frá skipulagsfulltrúa sem unnið er í tengslum við endurskoðun Aðalskipulags Skútustaðahrepps 2011 – 2023. Vinna stendur yfir af hendi Árna Geirssonar hjá Alta sem er skipulagsráðgjafi sveitarfélagsins í endurskoðun aðalskipulagsins.
Haldinn verður vinnufundur á næstu vikum um stefnumarkandi atriði sem koma fram í minnisblaði skipulagsfulltrúa, þar sem boðið verður sveitarstjórnarfólki, skipulagsnefnd og formönnum annarra nefnda.
Lagt fram
5.Skipulagsnefnd: Fundargerðir – 1611022
Lögð fram fundargerð 33. fundar skipulagsnefndar dags. 16. mars 2021. Liðir fimm, sjö og átta hafa þegar verið afgreiddir á fundi sveitarstjórnar undir liðum tvö, þrjú og fjögur.
Lagt fram
6.Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga – 1905032
Í júní 2019 samþykktu sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar að skipa samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna samkvæmt 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga.
Samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu til sveitarstjórna með skilabréfi dags. 9. mars og greinargerðinni Þingeyingur-stöðugreining og forsendur dags. 9. mars 2021.

Samstarfsnefndin hefur komið saman á 18 bókuðum fundum. Samstarfsnefnd skipaði 5 starfshópa sem fjölluðu um málaflokka sveitarfélaganna og lögðu fram efni og upplýsingar í greiningu og tillögugerð. Minnisblöð frá vinnu starfshópa eru aðgengileg á vefsíðu verkefnisins og hefur verkefnið verið kynnt á íbúafundum og sjónarmiða þeirra aflað.

Það er álit samstarfsnefndar að fram skuli fara atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélaganna um sameiningu sveitarfélaganna í eitt. Lagt er til að atkvæðagreiðsla fari fram laugardaginn 5. júní 2021 í báðum sveitarfélögunum. Jafnframt leggur nefndin til að samstarfsnefnd verði falið að undirbúa atkvæðagreiðslu og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum sveitarfélaganna.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkir að atkvæðagreiðsla um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar fari fram 5. júní 2021 og felur samstarfsnefnd að undirbúa atkvæðagreiðsluna og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum.

Sveitarstjórn skorar jafnframt á Alþingi og ríkisstjórn að bæta samgöngur innan svæðisins. Sérstök áhersla verði lögð á bundið slitlag á héraðs- og tengivegi, að flýta breikkun einbreiðra brúa yfir Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum á þjóðvegi 1 og tengingar milli byggða, til dæmis um Engidalsveg. Þá leggur sveitarstjórn áherslu á að öruggar samgöngur verði tryggðar innan svæðisins og við nærliggjandi þjónustukjarna, svo sem um Ljósavatnsskarð. Þá verði hugað að endurskipulagningu almenningssamgangna, þannig að þær þjóni hagsmunum íbúa svæðisins.
Samþykkt
7.Aðgerðir sveitarstjórnar til viðspyrnu vegna Covid-19 – 2003023
Skútustaðahreppur hyggst taka með virkum hætti þátt í átakinu „Hefjum störf“.
Átakið gerir sveitarfélaginu enn frekar mögulegt að fylgja eftir þeim aðgerðum sem mótaðar hafa verið á vegum sveitarfélagsins á síðustu misserum. Skilgreind verða störf sem m.a. styðja umhverfisstefnu Skútustaðahrepps og sameiginleg markmið með Þingeyjarsveit um að svæðið sé í fararbroddi í baráttu við loftslagsbreytingar og byggðir upp og samnýttir innviðir sem treysta samkeppnishæfni til lengri tíma.

Tengt Hefjum störf verður bændum og öðrum íbúum sveitarfélagsins boðið til samstarfs um viðhald eldri útihúsa og tiltekt á bújörðum, t.d. við niðurrif ónýtra girðinga. Í mótun er listi yfir verkefni sem sinna má tengt átakinu.

Lagt fram
8.Stytting vinnuviku – 2009018
Niðurstöður atkvæðagreiðslu um vinnutímasamkomulag hjá vaktavinnufólki (ÍMS) liggja fyrir. Tillögur vinnuhóps er að vinnuvikan fer í 36 vinnustundir á viku.
Sveitarstjórn samþykkir tillögur vinnuhópsins að vinnuvikan fari í 36 vinnustundir frá og með 1. maí 2021.
Samþykkt
9.Útikennslusvæði leik- og grunnskóla – 1902023
Á fundi skóla- og félagsmálanefndar dags. 17. mars 2021, óskaði nefndin eftir heimild sveitarstjórnar til að færa til plöntur í landi sem er í umsjón sveitarfélagsins, til að nýta við uppbyggingu útikennslusvæðis, sem ráðgert er að koma í gagnið fyrir haustið 2021.
Sveitarstjórn heimilar færslu á plöntum á landi sem er í umsjón sveitarfélagsins, þ.a. byggja megi upp hlýlegt og skjólsælt útikennslusvæði í nágrenni Reykjahlíðarskóla.
Samþykkt
10.Tilraunaverkefni um lífrænar auðlindir-úrgang – 2103034
Unnið hefur verið að undirbúningi að tilraunaverkefni um flokkun á lífrænum úrgangi íbúa og nýtingu hans til landgræðslu og kolefnisbindingar. Byggt er á vinnu starfshóps um lífrænan úrgang. Tilraunaverkefnið hefur m.a. verið mótað í samstarfi við Terra og Landgræðsluna, sem verða meðal samstarfsaðila í því. Stefnt er að því að á næstu vikum verði íbúum boðið upp á að safna lífrænum úrgangi og koma á söfnunarstöð.

Gert er ráð fyrir því að sækja um fjármagn til stuðnings verkefninu, ásamt öðrum verkefnum sem styðja uppbyggingu hringrásarhagkerfis Mývatnssveitar, en Umhverfis-og auðlindaráðuneytið auglýsti nýlega styrki með uppbyggingu hringrásarhagkerfis að markmiði.
Starfshópi um lífrænan úrgang eru þökkuð vel unnin störf og jafnframt fagnar sveitarstjórn því að framkvæmd tilraunaverkefnis sem miðar að nýtingu lífrænna auðlinda sem falla til á heimilum sé framundan. Afkoma Mývetninga hefur í gegnum aldirnar byggt á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og eðlilegt að litið sé á lífrænan úrgang sem auðlind, enda ekki vanþörf á staðbundnum hráefnum til landgræðslu.
Samþykkt
11.Skýrsla sveitarstjóra – 1611024


Lagt fram
12.Ungmennaráð – Málefni ungs fólks – 2006003
Ungmennaráð Skútustaðahrepps mætti á fund sveitarstjórnar Skútustaðahrepps en í samþykkt ungmennaráðs kemur fram að ráðið skuli funda með sveitarstjórn ár hvert í mars. Fyrir hönd ungmennaráðs mættu Margrét Ósk Friðriksdóttir, Kristján Örn Kristjánsson, Helgi James Price Þórarinsson og Dóróthea Gerður Örnólfsdóttir sem var í fjarfundarbúnaði.

Ungmennaráð Skútustaðahrepps var sett á laggirnar haustið 2019. Ráðið er skipað til eins árs í senn.
Ungmennaráð er ráðgefandi um málefni er tengjast ungu fólki á aldrinum 14 til 21 árs í sveitarfélaginu í umboði sveitarstjórnar. Ungmennaráð gerir tillögur til sveitarstjórnar um hvert það mál sem ráðið telur tengjast hagsmunum og aðstæðum ungs fólks. Ráðið fylgist með því, eins og við á, að stofnanir og þjónusta sveitarfélagsins vinni með hagsmuni ungs fólks að leiðarljósi. Með þessum hætti er leitast við að efla umfjöllun sveitarstjórnar um málefni er tengjast ungu fólki.
Margrét, Kristján, Helgi og Dóróthea fóru yfir helstu áherslur ungmennaráðsins og eftirfylgni þeirra aðgerða sem ungmennaráð fjallaði um á kynningarfundi með sveitarstjórn á árinu 2020.

Ungmennaráð lagði sérstaka áherslu á mikilvægi öflugs íþrótta- og félagsstarfs og samstarfs við nágrannasveitarfélög í því samhengi.

Sveitarstjórn óskaði eftir sjónarmiðum ungmennaráðs varðandi tillögur að umbótum sem geta bætt aðstæður og umhverfi ungmenna í sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn þakkar ungmennaráði fyrir góðar hugmyndir og gott samtal um málefni ungs fólks og hrósar ráðinu fyrir skýra, faglega og málefnalega framsetningu. Hugmyndunum verður vísað í viðeigandi nefndir, í framkvæmd það sem hægt er og til gerðar fjárhagsáætlunar 2022.
Samþykkt
13.Fjölmenningarstefna- Túlkaþjónusta – 2103039
Á fundi skóla- og félagsmálanefndar dags 17. mars 2021 beinir nefndin til sveitarstjórnar að fjármagn verði tryggt í fjárhagsáætlun næsta árs til að tryggja aðgengi að vandaðri túlkaþjónustu fyrir nemendur og foreldra.
Sveitarstjórn tekur undir bókun skóla- og félagsmálanefndar og mun hafa að markmiði að tryggja fjármagn til túlkaþjónustu fyrir nemendur og foreldra við gerð næstu fjárhagsáætlunar.
Samþykkt
14.Atvinnumála- og framkvæmdanefnd: Fundargerðir – 1809012
Lögð fram fundargerð 18.fundar atvinnumála- og framkvæmdanefndar dags. 11. mars. Fundargerðin er í fimm liðum.
Lagt fram
16.Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga – 2103029
Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. verður haldinn föstudaginn 26. mars 2021. kl. 15:30 á Grand Hótel Reykjavík. Vakin er athygli á því að allir sveitarstjórnarmenn eiga rétt á að sækja aðalfundinn.

Sveitarstjóri situr aðalfund Lánasjóðsins og fer með umboð sveitarfélagsins.
Samþykkt
15.Skóla- og félagsmálanefnd: Fundargerðir – 1809011
Lögð fram fundargerð skóla- og félagsmálanefndar dags. 17. mars 2021. Fundargerðin er í sex liðum.
Lagt fram

Fundi slitið kl. 11:15.

Scroll to Top