merki sameinaðs sveitarfélags

52. fundur sveitarstjórnar

52. fundur sveitarstjórnar haldinn í Skjólbrekku, 13. janúar 2021, kl. 09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson , Elísabet Sigurðardóttir , Sigurður Böðvarsson , Halldór Þorlákur Sigurðsson , Dagbjört Bjarnadóttir og Sveinn Margeirsson.

Fundargerð ritaði:  Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1.Stytting vinnuviku – 2009018
Margrét Halla Lúðvíksdóttir kom inná fundinn og kynnti vinnu á vegum sveitarfélagsins vegna styttingu vinnuvikunnar.

Unnið hefur verið í starfshópi sem skipaður var fulltrúum mismunandi starfsstöðva sveitarfélagsins og hafa starfsmenn kosið um tillögu þar að lútandi. Allar starfsstövar hreppsins eru sammála um að stytta vinnuvikuna um 2 tíma, þ.e. fara úr 40 stundum á viku í 38 stundir. Forstöðumenn skipuleggja fyrirkomulag fyrir sína starfsmenn.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu starfsmanna samhljóða og þakkar fyrir góða vinnu tengt styttingu vinnuvikunnar.
Samþykkt
2.Hótel Gígur – Gestastofa og Nýsköpunarklasi – 2008030
Tilkynnt hefur verið um kaup ríkisins á Hótel Gíg (áður Skútustaðaskóla).

Samhliða uppbyggingu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs verður horft til þróunar á þekkingar- og nýsköpunarklasa í húsinu. Þannig skapist sameiginlegur vettvangur fyrir frumkvöðla, fyrirtæki og stofnanir, sem vinna á sviði þekkingar, rannsókna, miðlunar og nýsköpunar.

Markmiðið er meðal annars að styrkja samfélagið og byggðina og gefa fyrirtækjum og frumkvöðlum tækifæri til að efla starf sitt og starfsumhverfi.

Áformin hafa verið í burðarliðnum um talsverðan tíma, en hafa fengið byr í seglin síðustu mánuði. Á vormánuðum 2020 unnu 30 Þingeyingar í rýnihópum Nýsköpun í norðri (NÍN). Einn hópanna var helgaður innviðauppbyggingu á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Þar var m.a. lögð áhersla á að koma á fót miðstöð þekkingar, miðlunar og nýsköpunar í Mývatnssveit.

Skútustaðahreppur hefur átt í góðu samstarfi við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið um áformin, sem og Vatnajökulsþjóðgarð, Landgræðsluna, Umhverfisstofnun, Ramý og fleiri stofnanir sem leggja áherslu á þekkingardrifið starf á sviði verndunar og nýtingar á svæðinu.

Uppbygging þekkingar- og nýsköpunarklasans er mikilvægt skref í viðspyrnuaðgerðum Skútustaðahrepps, mun styrkja innviði samfélagsins og stórauka tækifæri á sviði þekkingar og nýsköpunar.
Skútustaðahreppur fagnar kaupum ríkisins á Hótel Gíg, sem áður hýsti Skútustaðaskóla.
Samþykkt
3.Skútustaðahreppur- Gerð deiliskipulags fyrir Höfða – 1810020
Atli Steinn Sveinbjörnsson skipulagsfulltrúi kom inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.

Tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga.

Tilgangur deiliskipulagsgerðarinnar er m.a. að bæta útivistarsvæði Höfða og umhverfis Ytrivoga, með því að móta stefnu um framtíð svæðisins, uppbyggingu stíga og áningarstaða og ákvarða forsendur fyrir framkvæmdir og rekstur á svæðinu.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að tillaga að deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga verði samþykkt með áorðnum breytingum vegna innkominna athugasemda umsagnaraðila og skipulagsnefndar eftir auglýsingu. Jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að senda þeim sem athugasemdir gerðu svör skipulagsnefndar/sveitarstjórnar við þeim og að annast gildistöku deiliskipulagstillögunnar eins og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.
Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulagsnefndar með skilyrði um að uppbygging á fuglaskoðunarhúsi sé háð leyfi sveitarfélagsins, komi til hennar. Hámarksstærð fuglaskoðunarhúss sé 10m2. Deiliskipulagi verði breytt í þessa veru.
Samþykkt
4.Lokaskýrsla um tilraunaverkefni um sérstakan húsnæðisstuðning – 2012014
Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 11. desember 2020 var lögð fram meðfylgjandi lokaskýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um tilraunaverkefni um sérstakan húsnæðisstuðning, dags. í nóvember 2020. Eftirfarandi var bókað og samþykkt: Stjórn sambandsins samþykkir að þær tillögur sem fram koma í skýrslunni verði kynntar fyrir sveitarstjórnum og stjórnendum í velferðarþjónustu til að fá afstöðu þeirra um eitt opinbert stuðningskerfi við leigjendur. Framangreint tilkynnist hér með.
Lagt fram
5.Áskorun frá Markaðsstofu Norðurlands um stuðning við skíðasvæði – 2012015
Stjórn MN skorar á sveitarfélög að styðja vel við rekstur skíðasvæða. Skíðasvæði gegna mikilvægu hlutverki í vetrarferðaþjónustu.
Sveitarstjórn tekur undir með Markaðsstofu Norðurlands um mikilvægi skíðasvæða í samhengi vetrarferðamennsku. Skíðasvæði Mývetnings í Kröflu mun vonandi slá í gegn árið 2021, en framkvæmdafólk í sveitinni á heiður að enduruppbyggingu þess síðustu mánuði.
Lagt fram
6.Stafræn þróun sveitarfélaga – 2101002
Á 891. fundi stjórnar sambands íslenskra sveitarfélaga þann 20.11 2020 var eftirfarandi fært til bókar:
„Stafrænt ráð sveitarfélaga – 2009664SA
Lögð fram fundargerð 3. fundar stafræns ráðs sveitarfélaga frá 4. nóvember 2020. Einnig lögð fram glærukynning um fjármögnun sameiginlegra stafrænna verkefna. Sævar Freyr Þráinsson, formaður ráðsins og Fjóla María Ágústsdóttir, breytingastjóri stafrænnar þjónustu komu inn á fundinn undir þessum lið.
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þakkar fyrir greinargóða kynningu á vinnu sem er til mikillar hagsbótar fyrir sveitarfélögin.
Stjórnin er jákvæð fyrir því að stofnað verði miðlægt tækniteymi sambandsins sem kostað verði af sveitarfélögunum skv. tillögu um kostnaðarþátttöku árið 2021. Forsenda þess að teymið verði stofnað er að meginþorri sveitarfélaga taki þátt í verkefninu en mikilvægt er að kynna það vel fyrir sveitarfélögum á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að verkefnið sé tímabundið, til tveggja ára fyrst um sinn, með mögulegri framlengingu.
Stjórnin samþykkir einnig tillögu um feril ákvarðanatöku Stafræns ráðs við val á forgangsverkefnum og leggur áherslu á að ferlið verði kynnt vel fyrir öllum sveitarfélögum.“

Á grunni ofangreindrar bókunar liggur fyrir eftirfarandi tillaga:
1. Að stofnað verði miðlægt tækniteymi Sambands íslenskra sveitarfélaga (árlegur kostnaður 45 mkr.) sem sinna mun innleiðingu rafrænna lausna, gagnauppbyggingu og tengingu gagna gagnvart öllum sveitarfélögum landsins eins og nánar er útlistað í kynningunni.
2. Að sveitarfélög greiði fjárhæð sem er 200.000 kr. föst fjárhæð og svo m.v. íbúafjölda sem skipti framangreindri fjárhæð 45 mkr á milli sveitarfélaganna.

Miðað við liði 1 og 2 í tillögunni er gert ráð fyrir greiðslu Skútustaðahrepps upp á 265.149 krónur
Samþykkt
7.Grænbók um byggðamál – 2101010
Erindi barst frá SSNE þess efnis að Grænbók um byggðamál hafi verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda. Grænbókinni er ætlað að meta stöðu byggðamála og vera grundvöllur fyrir nýja stefnumótun í byggðamálum til fimmtán ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Hafist verður handa við gerð hvítbókar (þingsályktunartillögu) í byrjun árs 2021 og stefnt að því að taka annan samráðsfundahring með landshlutunum áður en sú vinna klárast (vonandi um mánaðarmótin janúar/febrúar). Janúarmánuður verður nýtturtil að funda með stjórnendum í hverju ráðuneyti um mögulega samhæfingu við stefnur/áætlanir í hverju ráðuneyti.

Lykilviðfangsefni og áherslur, sem settar eru fram í grænbókinni, byggja að miklu leyti á fundum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins með landshlutasamtökum.

Frestur til að skila umsögnum og ábendingum rennur út 25. janúar.

Slóðin á samráðsgáttina: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/&Cases/Details/?id=2863
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að undirbúa umsögn og senda inn fyrir tilskilinn frest, að höfðu samráði við sveitarstjórn.
Lagt fram
8.Skýrsla sveitarstjóra – 1611024
Lagt fram
9.Velferðar- og menningarmálanefnd: Fundargerðir – 1809010
Fundargerð 23. fundar velferðar- og menningarmálanefndar dags. 5. janúar 2021. Fundargerðin er í einum lið.
Lagt fram

Fundi slitið kl. 11:15.

Scroll to Top