merki sameinaðs sveitarfélags

44. fundur skipulagsnefndar

15. mars 2022

Fundinn sátu:
Selma Ásmundsdóttir, Arnþrúður Dagsdóttir, Birgir Steingrímsson, Agnes Einarsdóttir, Atli Steinn Sveinbjörnsson, Helga Sveinbjörnsdóttir og Helgi Héðinsson.

Fundargerð ritaði: Atli Steinn Sveinbjörnsson, skipulagsfulltrúi.

Dagskrá:

1.  Beiðni um umsögn við undanþágu frá skipulagsreglugerð – 2203010
Tekin fyrir beiðni frá Innviðaráðuneytinu um umsögn við undanþágu frá d – lið í gr. 5.3.2.5 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 sem snýr að því að utan þéttbýlis skuli ekki staðsetja íbúðir eða frístundahús nær stofn- og tengivegum en 100 m.
Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að veita umsögn til Innviðaráðuneytisins í samræmi við umræður á fundinum.
Samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu.
Samþykkt
 
2.  Deiliskipulag Skjólbrekku – 2102008
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti þann 27. október 2021 að auglýsa skv. 2. mgr. 41. gr. og 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu að deiliskipulagi Skjólbrekku og breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 – 2023.
Breyting á aðalskipulagi felur í sér að 0,6 ha af landbúnaðarlandi við Skjólbrekku á Skútustöðum er skilgreint sem íbúðarbyggð sem nánar er útfærð í deiliskipulagi sem unnið er samhliða breytingu á aðalskipulagi.
Deiliskipulag Skjólbrekku tekur yfir 12,6 ha svæði þar sem litið er til áhrifasvæðisins í heild og settir fram skilmálar um þróun svæðisins, fyrirhugaða íbúðaruppbyggingu og áhrifamat vegna framkvæmda.
Athugasemdafrestur var gefinn frá og með 3. desember 2021 til og með 14. janúar 2022.
Athugasemdir bárust frá Auði Hildi Hákonardóttir, Auði Jónsdóttur og Gylfa Hrafnkeli Yngvasyni, Áshildi Jónsdóttur, Björgu Jónasdóttur, Daða Lange, Einari Georgssyni, Fjöreggi, Georgi Inga Einarssyni, Herði Halldórssyni, Hildi Hermóðsdóttur, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Inga Þór Yngvasyni, Írenu Einarsdóttur, Kára Þorgrímssyni og Jóhönnu Njálsdóttur, Kristjáni Hjelm, Minjastofnun Íslands, Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Ólöfu Þ. Hallgrímsdóttur og Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur, Rakel Margréti Viggósdóttur, Sigurði Jónssyni, Sigrúnu Skarphéðinsdóttur, Sólveigu Hólmfríði Jónsdóttur, Skarphéðni Frey Ingasyni, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Yngva Péturssyni og Þorsteini Valdimarssyni.
Afgreiðsla skipulagsnefndar á tillögu að deiliskipulagi Skjólbrekku fellur á jöfnu.

Agnes Einarsdóttir og Arnþrúður Dagsdóttir leggja fram eftirfarandi bókun:
Áform sveitarstjórnar um að skipuleggja uppbyggingu íbúðarhúsnæðis við Skjólbrekku eru leið til að auka framboð á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Hinsvegar teljum við að þetta svæði sé of dýrmætt út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Frekari uppbygging mun hafa neikvæð áhrif á ásýnd sveitarinnar og gefa slæmt fordæmi þegar horft er til framtíðar.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um tillöguna kemur fram ,,að áform þau sem þar komu fram væru of stórfelld breyting á umhverfinu innan þessa einstaka náttúruverndarsvæðis og að í þeim fælist hætta á raski og ógnir fyrir viðkvæma náttúru svæðisins sem bæri að forðast.“ Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að tillagan muni hafa „neikvæð áhrif á fuglalíf, og gæti haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika, landslag og gervigíga… Umhverfisstofnun telur að með auknu byggingarmagni á svæðinu muni tillagan hafa áhrif á ásýnd svæðisins. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að við valkostagreiningu varðandi framtíðaruppbyggingu íbúðabyggðar í sveitarfélaginu sé horft til lengri tíma og leggur til að aðrir valkostir utan verndarsvæðisins Mývatns og Laxár séu bornir saman við svæðið sem hér er til umfjöllunar.“

Við hvetjum sveitarstjórn til að falla frá áætlunum um nýja byggingarreiti á svæðinu.
Hafnað
 
3.  Endurskoðun aðalskipulags – 1806007
Lagðar fram tillögur um áform í nýtt aðalskipulag sameinaðs sveitarfélags Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps, staða vinnunnar og næstu skref.
Lagt fram
 
4.  Skýrsla skipulags- og byggingafulltrúa – 1702022
Skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi gerðu grein fyrir stöðu mála og verkefna sem falla undir þeirra verksvið hjá sveitarfélaginu.
 

Fundi slitið kl. 16:26.

Scroll to Top