merki sameinaðs sveitarfélags

43. fundur skipulagsnefndar

43. fundur Skipulagsnefndar haldinn í gegnum fjarfundarbúnað,

 þriðjudaginn 15. febrúar 2022, kl.  13:00.

Fundinn sátu:

Selma Ásmundsdóttir, Arnþrúður Dagsdóttir, Pétur Snæbjörnsson, Birgir Steingrímsson, Margrét Halla Lúðvíksdóttir, Agnes Einarsdóttir, Atli Steinn Sveinbjörnsson og Helga Sveinbjörnsdóttir.

Fundargerð ritaði:  Atli Steinn Sveinbjörnsson, skipulagsfulltrúi.

Dagskrá:
1. Breyting á deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga – 2201014
2. Gerð deiliskipulags fyrir Björk, ferðaþjónusta – 2009026
3. Deiliskipulag Skjólbrekku – 2102008
4. Efnistaka í Garði – Breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 – 2023 – 2202014

1.  Breyting á deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga – 2201014
Tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga sem felur í sér að heimilt verði að reisa snyrtiaðstöðu í einnar hæðar byggingu með gólfflatarmáli að hámarki 60m2 í stað 40 m2 svo unnt verði að uppfylla skilyrði um aðgengi fyrir alla og möguleika á gjaldtöku.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Höfða og Ytrivoga og að farið verði með hana skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin leggur til að leitað verði umsagnar Umhverfisstofnunar í samræmi við lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 97/2004 en að öðru leyti verði fallið verði frá grenndarkynningu þar sem breytingin varðar ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulagsbreytingu og birta auglýsingu um samþykkt hennar í B-deild Stjórnartíðinda.
Samþykkt
 
2.  Gerð deiliskipulags fyrir Björk, ferðaþjónusta – 2009026
Tekin fyrir að nýju tillaga að deiliskipulagi Bjarkar, Skútustaðahreppi. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti þann 27. október 2021 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Bjarkar skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagssvæðið er 4,24 ha og nær utan um starfsemi ferðaþjónustu og tengda starfsemi, íbúðarhús auk tjaldsvæðis.
Tillagan var auglýst frá og með 3. desember 2021 til og með 14. janúar 2022 og bárust athugasemdir frá Ólöfu Þ Hallgrímsdóttur og Leifi Hallgrímssyni f.h. Vogabús ehf, Minjastofnun, Vegagerðinni og Umhverfisstofnun.
1. Ólöf Þ Hallgrímsdóttir og Leifur Hallgrímsson f.h. Vogabús ehf
Mörk skipulagssvæðisins eru víða ónákvæm og línur dregnar út fyrir loftmynd (sjá mynd 2). Mikilvægt er að mörk skipulagssvæðisins séu rétt og myndir nákvæmar.
1. Svar skipulagsnefndar
Þess verður gætt að skipulagsmörkin samrýmist mörkun aðliggjandi skipulagsáætlana og að ekki verði skörun milli áætlana í samræmi við gr. 7.2 í skipulagsreglugerð.
2. Ólöf Þ Hallgrímsdóttir og Leifur Hallgrímsson f.h. Vogabús ehf
Undirrituð gera athugasemdir við að deiliskipulagið nái ekki yfir allt athafnasvæði Bjarkar þ.e austan Vogahrauns 2. Þar hefur verið raskað miklu af ósnortnu hrauni og búin til plön og lagður vegur, líklega allt án tilskilinna leyfa. Sem næstu nágrannar teljum við eðlilegt að þetta svæði sé innan deiliskipulagsins og framtíðaráform svæðisins komi þar fram. Við krefjumst þess að svæðinu verði bætt við skipulagið en eins og segir í viðfangsefni í skipulagstillögunni: „ Þá er skipulagssvæði nýs deiliskipulags nokkuð stærra en í deiliskipulaginu frá 2009, eða 4,24 ha, og mun ná utan um tengda starfsemi og íbúðarhús auk tjaldsvæðis.“

2. Svar skipulagsnefndar
Við undirbúning að vinnu deiliskipulags Bjarkar var ákveðið að draga línurnar utan um þau áform sem lágu fyrir árið 2009 og þá breytingu sem gera átti á deiliskipulaginu 2015. Frekari skipulagsbreytingar verða gerðar á kostnað landeigenda og það skal undirstrikað að allar framkvæmdir eiga að byggja á skipulagsgerð eða grenndarkynntar sé deiliskipulag ekki fyrir hendi.

3. Ólöf Þ Hallgrímsdóttir og Leifur Hallgrímsson f.h. Vogabús ehf
Vert er að vekja athygli á að íbúðarhúsalóð er við hlið starfandi fjárhúsa, ekki stendur til að leggja þá starfsemi af. Mótmælt er íbúðarhúsalóð svo nálægt fjárhúsum því líklegt er að kvartanir vegna lyktar og hávaða bærust fljótlega frá íbúum hússins. Því er einnig mótmælt harðlega ef til stendur að reisa gámaeiningar á umræddri íbúðarhúsalóð. Undirrituð vona að „nýbyggingar muni fela í sér ný efnisleg verðmæti“ eins og stendur í deiliskipulaginu þar sem umhverfisþættir eru metnir og umhverfissjónarmið eru höfð til hliðsjónar varðandi byggð og efnisleg verðmæti.

3. Svar skipulagsnefndar
Í tillögu að deiliskipulagi Bjarkar eru settir skilmálar á lóð L1 sem stendur við fjárhúsið. Þar segir m.a: Taka skal mið af aðliggjandi byggingum m.t.t. brunavarna. Byggingin skal ekki skerða möguleika Voga 1 til framþróunar og breyttrar nýtingar bygginga. Í Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 ? 2023 segir um byggingarlist og mannvirkjagerð: Einfaldar skúrabyggingar s.s. endurnýttar vinnubúðir eða gámaeiningar eru ekki viðeigandi húsgerðir í einstöku umhverfi Mývatnssveitar. Í stefnu sveitarstjórnar sem birtist í aðalskipulagi segir: Stefnt er að fallegri og aðlaðandi byggð með góðri byggingarlist sem m. a. felst í viðeigandi húsgerðum, innbyrðis samræmi og góðri aðlögun að eldri byggð og umhverfi. Skipulagsnefnd leggur til að skilmálum um útlit bygginga verði bætt við í deiliskipulag Bjarkar í samræmi við aðalskipulag.
4. Ólöf Þ Hallgrímsdóttir og Leifur Hallgrímsson f.h. Vogabús ehf
Í gildandi skipulagi er Vogahraun 4 skilgreint íbúðarhús og lóðin undir því var 2000m2. Þar hefur verið rekin gisting frá árinu 2011. Ekki er skilgreindur tiltekinn byggingarreitur á lóðinni og gera undirrituð athugasemdir við að svo sé ekki
4. Svar skipulagsnefndar
Ekki er gert ráð fyrir breyttu umfangi Vogahrauns 4 og því ekki skilgreindur byggingarreitur utan um þau hús.
5. Ólöf Þ Hallgrímsdóttir og Leifur Hallgrímsson f.h. Vogabús ehf
Bent er á að stöðuleyfi fyrir gámaeiningar austan við Vogafjós var háð grenndarkynningu sem aldrei var gerð. Stöðuleyfið er útrunnið, hafi það nokkurn tíma tekið gildi og það er krafa okkar sem næstu nágranna að vita hvað er fyrirhugað að gera með allar þessa gámaeiningar.
Er ætlunin að flytja gámaeiningarnar á nýja íbúðarhúsalóð sunnan fjárhúsa? Er ekki kominn tími á að marka stefnu í uppbyggingu húsa í Mývatnssveit og setja skorður á endalausa gámabyggingar út um alla sveit, engum til sóma. Gámar eiga ekki samleið með stórbrotinni og einstakri náttúru Mývatnssveitar svo tími er kominn til að stöðva gámavæðingu sveitarinnar. Skorað er á skipulagsyfirvöld að taka á þessum málum til framtíðar séð.
5. Svar skipulagsnefndar
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemdina og bendir á að í Aðalskipulagi Skútustaðahrepps er að finna skýra skilmála um æskilega byggingarlist í einstöku umhverfi Mývatnssveitar. Þörf er á upplýsingagjöf til íbúa og landeigenda og aðgerðaráætlun af hálfu sveitarstjórnar við að koma böndum á lausafjármuni sem krefjast stöðu- eða byggingarleyfis.
6. Ólöf Þ Hallgrímsdóttir og Leifur Hallgrímsson f.h. Vogabús ehf
Undanfarin ár hafa eigendur Bjarkar breytt þó nokkuð landslagi og ásýnd á svæðinu austan Vogafjóss með losun úrgangsefnis, og flutnings á háum birkitrjám sem eru hærri en 1,80.
Það er mikilvægt fyrir okkur sem nágranna að frágangur þessa svæðis verði tekinn fyrir í komandi deiliskipulagi. Við vekjum einnig athygli á að þessir efnisflutningar og breyting lands er innan verndarsvæðis Mývatns og Laxár og því háð samþykki UST.
Tjaldsvæði 6100 m2 er það land sem þegar hefur verið tekið er úr landbúnaðarnotum og skipulagt sem tjaldsvæði. Bent skal á að tjaldsvæðið er nýtt til sauðfjárbeitar bæði vor og haust.
6. Svar skipulagsnefndar
Í lögum um verndun Mývatns og Laxár nr. 97/2004 segir að leita skuli leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geta áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á landsvæði innan verndarsvæðisins. Í reglugerð um fráveitu og skólp nr. 798/1999 segir í gr. 7.2 að skólp skuli hreinsa með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa ef viðtaki er viðkvæmur eða nýtur sérstakrar verndar vegna nytja af ýmsu tagi, lífríkis, jarðmyndana eða útivistar, auk annarra sérstakra vatnsverndunarsvæða. Getið er um skilmála fráveitu í deiliskipulagi Bjarkar. Gróðursetning trjáa sem gegna þeim tilgangi að mynda skjól eru ekki háðar framkvæmdaleyfi og koma því ekki inn á borð sveitarfélagsins en það er á ábyrgð viðkomandi framkvæmdaraðila að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar fyrir hverskonar framkvæmdum innan verndarsvæðisins. Í byggingarreglugerð segir um tré og runna á lóðum í gr. 7.2.2 að ekki megi planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 m. Við staðsetningu trjáa á lóð sem ætlað er að vaxi frjáls skal taka tillit til skuggavarps á viðkomandi lóð og nágrannalóðum. Sé trjám eða runnum plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skal hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 m. Skipulagsnefnd leggur til að í greinargerð verði bætt skilmálum um lóðafrágang. Starfsleyfi tjaldstæða er í höndum Heilbrigðiseftirlits Norðurlandseystra og ráðstöfun búfjár á ábyrgð eiganda.

7. Ólöf Þ Hallgrímsdóttir og Leifur Hallgrímsson f.h. Vogabús ehf
Sumarbústaðir í landi Bjarkar eru ekki innan skipulags Voga I og það þarf að teikna inn á kort.
7. Svar skipulagsnefndar
Sumarbústaðir í landi Bjarkar eru utan deiliskipulagsmarka þessa skipulags.

Minjastofnun
Lýsing á skipulaginu kom til umsagnar fyrr á árinu eins og vísað er til í greinargerðinni bls. 7 og fór minjavörður þá í úttekt um svæðið. Engar fornleifar fundust við könnun stofnunarinnar og engin hús innan skipulagssvæðisins falla undir lög um menningarminjar. Öll hús á svæðinu eru listuð upp í greinargerðinni. Minjastofnun gerir því ekki athugasemd við skipulagið eins og það var kynnt stofnuninni.
Rétt er að vekja athygli á 2. mgr. 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 en þar segir: „Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.“

Svar skipulagsnefndar
Umsögn krefst ekki svars

Vegagerðin
Vegagerðin hefur farið yfir tillögu að deiliskipulagi Bjarkar, Skútustaðahreppi
skv. tölvupósti dags. 1.12.2021.
Í umsögn við skipulagslýsingu var bent á að afmarka þyrfti bílastæði við Björk,
vestan vegar. Samkvæmt tillögu er búið að afmarka bílastæðið sem eykur mjög
umferðaröryggi.
Engin gönguleið er yfir Mývatnssveitarveg er yfir Mývatnssveitarveg (848)
samkvæmt tillögunni. Búast má við umferð í báðar áttir yfir veginn og þyrfti að
skoða hvernig best væri að koma fyrir afmarkaðri þverun til að auka
umferðaröryggi gangandi og hjólandi.
Samkvæmt Vegalögum nr. 80/2007 þarf leyfi Vegagerðarinnar fyrir öllum
mannvirkjum innan veghelgunarsvæðis. Á það m.a. við lagnir, skilti, skurði og
fleira. Leyfi Vegagerðarinnar þarf einnig fyrir öllum framkvæmdum innan
veghelgunarsvæðis. Á þetta við þótt mannvirki eða framkvæmdir séu í samræmi
við gildandi skipulag.

Svar skipulagsnefndar
Afmarkaðri þverun yfir Mývatnssveitarveg 848 verður bætt við á uppdrátt í deiliskipulagi Bjarkar til þess að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi í samráði við Vegagerðina.

1. Umhverfisstofnun
Vísað er til erindis skipulagsfulltrúa Skútustaðahrepps er barst 1. desember sl. þar sem óskað er umsagnar Umhverfisstofnunar um tillögu að deiliskipulagi fyrir Björk í Mývatnssveit í Skútustaðahreppi.
Í greinargerð kemur fram að unnið var deiliskipulag fyrir svæðið árið 2009 sem öðlaðist ekki gildi og því áformað að vinna nýtt deiliskipulag. Einnig kemur fram að skipulagssvæði nýs deiliskipulags verður nokkuð stærra en í deiliskipulaginu frá 2009, eða 4,24 ha, og mun ná utan um tengdar byggingar og íbúðarhús auk tjaldsvæðis. Í tillögunni kemur fram að tillagan geri ráð fyrir 200 m² starfsmannahúsi á byggingareit 1 (B1), 150 m² starfsmannahúsi á B2, 600 m² veitingastað á B3, 100 m² afgreiðslu á B4. Auk þess er í dag á lóð 4 veitingarekstur og gistihús, á lóð 5 er gistihús með tveimur herbergjum, á lóð 6 er gistihús með átta herbergjum og á lóð 7 er gistihús með átta herbergjum.
Umhverfisstofnun bendir á að stofnunin veitti umsögn varðandi lýsingu skipulagsins dags. 14. júní 2021.1
Mývatn
Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það komi fram að hluti skipulagssvæðisins er verndað samkvæmt lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Nánar er mælt fyrir um verndun Mývatns og Laxár í reglugerð nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.
Umhverfisstofnun bendir á að ekki er fjallað um verndarsvæðið í greinargerð tillögunnar og mikilvægt er að fjallað sé um áhrif hennar á verndarsvæðið. Umhverfisstofnun bendir á að í 4. gr. ofangreindra laga kemur fram að forðast skal að valda spjöllum á vatnasviði Mývatns og Laxár sem raskað gætu vernd vatnsins og árinnar samkvæmt ákvæðum laga þessara, sérstaklega gæðum og rennsli grunnvatns.

1. Svar skipulagsnefndar
Upplýsingum um verndarsvæði Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu verður bætt við í greinargerð og gerð grein fyrir því hver möguleg áhrif þeirra áforma sem lýst er í deiliskipulagi Bjarkar muni hafa á verndarsvæðið.

2. Umhverfisstofnun
Fráveita
Í greinargerð kemur fram að innan skipulagssvæðisins eru tvær tveggja þrepa rotþrær og við endurnýjun/uppfærslu þeirra skal gera ráð fyrir ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa eða í samræmi við gildandi reglugerðir og samþykktir.
Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt 24. gr. reglugerð nr. 665/2012 um verndun Mývatns og Laxár segir að skólp á vatnasviðinu skal hreinsað með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um fráveitur og skólp.
Umhverfisstofnun bendir einnig á að í dag uppfyllir fráveitan ekki kröfur um fráveitu í samræmi við ofangreinda reglugerð og er það ekki í samræmi við sameiginlega umbótaáætlun Skútustaðahrepps og rekstraraðila vegna fráveitumála í Skútustaðahreppi árin 2018-2021. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að unnið sé eftir sameiginlegri umbótaáætlun vegna fráveitumála.

2. Svar skipulagsnefndar
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemdina.

3. Umhverfisstofnun
Ásýnd og landslag
Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að fjallað sé um áhrif tillögunnar á ásýnd og landslag í kafla 5 (umhverfisáhrif). Byggingareitir tillögunnar eru fyrir utan verndarsvæði Mývatns ? og Laxár. Í 3. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár segir að óheimilt er að valda spjöllum eða raski landslagi á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. Að mati Umhverfisstofnunar mun frekari uppbygging við Mývatn hafa áhrif á ásýnd og landslag verndarsvæðisins.

3. Svar skipulagsnefndar
Í greinargerð kafla 5 verður bætt við texta um áhrif tillögunnar á ásýnd og landslag.

4. Umhverfisstofnun
Hraun
Í greinargerð kemur fram að framkvæmdir munu hafa áhrif á hraun að verulega litlu leyti.
Umhverfisstofnun bendir á að hraunið sem verður raskað fellur undir a. lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Í 61. gr. laganna er kveðið á um sérstaka vernd þeirra vistkerfa og jarðminja sem taldar eru upp í 1. mgr. og 2. mgr. sama ákvæðis. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins ber að forðast röskun þeirra náttúrufyrirbæra, sem undir greinina falla, nema brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Í greinargerð með frumvarpi til laga um náttúruvernd er með orðalaginu „brýn nauðsyn“ lögð áhersla á að einungis mjög ríkir hagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir.
Mikilvægt er að ofangreint komi fram í greinargerð tillögunnar.
Umhverfisstofnun bendir á að þar sem tillagan gerir ráð fyrir röskun á hrauni þarf að rökstyðja þá ákvörðun og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu.
Að mati stofnunarinnar er mikilvægt að afmarka byggingarreiti á þann hátt að hraun verði ekki fyrir raski.
Stofnunin bendir á að skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna allra framkvæmda sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki. Á þetta að tryggja að tekið sé til ítarlegrar skoðunar hvort framangreint skilyrði sé uppfyllt. Við mat á leyfisumsókn ber að vega saman mikilvægi náttúruminjanna sem í húfi eru og hagsmuni af fyrirhugaðri
framkvæmd. Við matið skal litið til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, auk þess sem tekið skal mið af mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi, sbr. 3. og 4. mgr. 61. gr. laganna.
Ákveði leyfisveitandi að veita leyfi þrátt fyrir framangreint skal hann, með vísan í 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, rökstyðja þá ákvörðun sérstaklega og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu. Einnig skal gera grein fyrir fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum, sem og mögulegri endurheimt náttúruverðmæta þegar það á við. Þá skal afrit af útgefnu leyfi sent Umhverfisstofnun, sbr. 6. mgr. ákvæðisins.
Þess má einnig geta að leyfisveitanda er heimilt, skv. 5. mgr. 61. gr. náttúruverndarlaga, að binda leyfi þeim skilyrðum sem eru nauðsynleg til að draga úr áhrifum framkvæmdarinnar á þau náttúrufyrirbæri sem verða fyrir röskun.

4. Svar skipulagsnefndar
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemd Umhverfisstofnunar og leggur til að bætt verði við texta í greinargerð um sérstaka vernd náttúrufyrirbæra sem falla undir lög 60/2013 um náttúruvernd og að brýn nauðsyn þurfi að liggja til grundvallar framkvæmda á svæðum sem njóta verndar.

Skipulagsnefnd áréttar við sveitarstjórn að skipulagsnefnd telji staðsetningu byggingarreits B1 við fjárhús ekki æskilega og að fallið verði frá þeim áformum. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að breytingar verði gerðar á greinargerð og uppdrætti á deiliskipulagi Bjarkar í samræmi við umræður á fundinum. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga og sjá um afgreiðslu deiliskipulags Bjarkar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010 þegar undanþága forsætisráðuneytis frá d lið í gr. 5.3.2.5 skipulagsreglugerð liggur fyrir.
Samþykkt
 
3.  Deiliskipulag Skjólbrekku – 2102008
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti þann 27. október 2021 að auglýsa skv. 2. mgr. 41. gr. og 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tillögu að deiliskipulagi Skjólbrekku og breytingu á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 – 2023.
Breyting á aðalskipulagi felur í sér að 0,6 ha af landbúnaðarlandi við Skjólbrekku á Skútustöðum er skilgreint sem íbúðarbyggð sem nánar er útfærð í deiliskipulagi sem unnið er samhliða breytingu á aðalskipulagi.
Deiliskipulag Skjólbrekku tekur yfir 12,6 ha svæði þar sem litið er til áhrifasvæðisins í heild og settir fram skilmálar um þróun svæðisins, fyrirhugaða íbúðaruppbyggingu og áhrifamat vegna framkvæmda.
Athugasemdafrestur var gefinn frá og með 3. desember 2021 til og með 14. janúar 2022.
Athugasemdir bárust frá Auður Hildur Hákonardóttir, Auði Jónsdóttur og Gylfi Hrafnkeli Yngvasyni, Áshildi Jónsdóttur, Björgu Jónasdóttur, Daða Lange, Einari Georgssyni, Fjöreggi, Georgi Inga Einarssyni, Hildi Hermóðsdóttur, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Inga Þór Yngvasyni, Írenu Einarsdóttur, Kára Þorgrímssyni og Jóhönnu Njálsdóttur, Kristjáni Hjelm, Herði Halldórssyni, Sólveigu Hólmfríði Jónsdóttur, Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Ólöfu Þ Hallgrímsdóttur og Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur, Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn, Sigrúnu Skarphéðinsdóttur, Sigurði Jónssyni, Minjastofnun Íslands, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Yngva Péturssyni og Þorsteini Valdimarssyni.
Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
Frestað
 
4.  Efnistaka í Garði – Breyting á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 – 2023 – 2202014
Arnþrúður tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Tekin fyrir skipulags- og matslýsing fyrir tillögu að breyttu Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023 frá Alta dags. 11. febrúar 2022. Breytingin snýr að því að skilgreina efnistökusvæði við Garð fyrir efnistöku allt að 120.000 m3 efnis á 4,4 ha svæði. Fyrirhugað efnistökusvæði er utan verndarsvæðis Mývatns og Laxár á landi sem hefur verið raskað vegna búskapartengdra athafna og tilrauna til uppgræðslu. Áætlunin felur í sér framkvæmd sem fellur í flokk B í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og er því tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar sem ákvarðar hvort áætlunin sé háð umhverfismati.
Skipulagsnefnd leggur til að sveitarstjórn samþykki skipulags- og matslýsingu vegna breytingar á Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011 – 2023 og að skipulagsfulltrúa verði falið að kynna hana skv. 30. mgr skipulagslaga nr. 123/2010. Sömuleiðis leggur skipulagsnefnd til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að tilkynna fyrirhugaða áætlun til Skipulagsstofnunar sem tekur ákvörðun um það hvort að áætlunin geri ráð fyrir framkvæmdum sem háð skuli mati á umhverfisáhrifum skv. lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.
Samþykkt
 
5.  Skýrsla skipulags- og byggingafulltrúa – 1702022
 

Fundi slitið kl. 15:20.

Scroll to Top