merki sameinaðs sveitarfélags

26. fundur umhverfisnefndar

14. janúar 2022

Fundur var haldinn í gengnum fjarfundarbúnað kl. 10:00

Fundinn sátu:

Sigurður Erlingsson, Alma Dröfn Benediktsdóttir, Bergþóra Hrafnhildardóttir og Arnþrúður Dagsdóttir.

Fundargerð ritaði:  Alma Dröfn Benediktsdóttir, verkefnastjóri.

Dagskrá:

1.  Loftslagsstefna Skútustaðahrepps – 2108039
Lögð fyrir drög að loftslagsstefnu Skútustaðahrepps 2022-2025.
Aðgerðir verða endurskoðaðar árið 2025 og á fimm ára fresti eftir það í samræmi við Parísarsamkomulagið 2015. Árangur verður mældur a.m.k. árlega og verður miðlað á heimasíðu sveitarfélagsins. Greining á losun í sveitarfélaginu er unnin í samstarfi við Greenfo ehf. Einnig koma að verkefninu starfsmenn sveitarfélagsins á ýmsum sviðum til þess að stuðla að raunhæfni og sátt með stefnuna.
Umhverfisnefnd samþykkir að kynna drög fyrir starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins. Nauðsynlegt er að fá sjónarmið flestra á þessu mikilvæga verkefni og upplýsa íbúa um stöðu vinnunnar.
Samþykkt
 
2.  Starfshópur – Framandi og ágengar tegundir – 1811050
Lögð fyrir skýrsla fagnefndar um heftingu útbreiðslu ágengra tegunda í Mývatnssveit 2021.
Í fagnefndinni situr fulltrúi frá umhverfisnefnd hreppsins sem er formaður og auk hans fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Landgræðslunni og Fjöreggi. Fagnefndinni er ætlað að hafa yfirsýn og skipuleggja vinnu við eyðingu ágengra plantna í samstarfi við verkefnastjóra málefnisins á hverjum tíma. Sumarið 2021 réði Skútustaðahreppur Valiju Kiskurno í 100% starf í sex mánuði með styrk Vinnumálastastofnunnar.
Í skýrslunni er farið yfir umfang vinnunar sumarsins 2021, þau svæði sem helst var unnið á og stöðuna á þeim svæðum. Þá er bent á tækifæri til úrbóta við skipulag og framkvæmd vinnunnar.
Umhverfisnefndin telur mikilvægt að skipuleggja vel vinnu sumarsins 2022 og finna leið til að virkja íbúa og landeigendur betur í þessu umfangsmikla verkefni. Tillögur fagnefndarinnar að skipulagi vinnunnar verða teknar fyrir á næsta fundi.
Samþykkt
 
3.  Urðunarstaður fyrir óvirkan úrgang – 2010003
Skipulagsfulltrúi kynnti starfsleyfi fyrir urðun óvirks úrgangs við Kollóttuöldu.
Í nóvember s.l. gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir urðun óvirks úrgangs við Kollóttuöldu í landi Grímsstaða sem gildir til 2037. Starfsleyfið veitir heimild til urðunar á 370 tonnum af óvirkum úrgangi á ári og kemur til með að styrkja aðra starfsemi á svæðinu, svo sem efnistöku og rekstri svartvatnstanks, uppgræðslu og starfsemi á vegum Landgræðslunnar og mögulega framtíðarþróun orkuvinnslusvæðisins við Þeistareyki.
Starfsleyfið er gefið er út í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Umhverfisnefnd fagnar því að þessi mál séu komin réttan og betri farveg. Nefndin telur mikilvægt að sveitarfélagið gefi út leiðbeiningar til íbúa um meðferð sorps.

Samþykkt
 
4.  Umhverfisfulltrúi – 2011001
Daði Lange umhverfisfulltrúi fór yfir stöðuna á starfinu framundan.
Nefndin þakkkar Daða góða kynningu.
Samþykkt
 

Fundi slitið kl. 12:00.

Scroll to Top