merki sameinaðs sveitarfélags

21. fundur atvinnumála- og framkvæmdanefndar

28. apríl 2022

Fundinn sátu:
Anton Freyr Birgisson, Sigurbjörn Reynir Björgvinsson, Hallgrímur Páll Leifsson, Sveinn Margeirsson og Atli Steinn Sveinbjörnsson.

Fundargerð ritaði: Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri

Dagskrá:

1.  Göngu- og hjólastígur – 2008026
Opnuð hafa verið tilboð í lagningu göngu- og hjólastígs frá Dimmuborgaafleggjara í Skútustaði. Fyrir liggur hönnun stígsins, sem aðlöguð hefur verið að óskum landeigenda í samráði við Vegagerðina, Umhverfisstofnun, RAMÝ, Náttúrufræðistofnun, Minjastofnun o.fl.
Atvinnumála- og framkvæmdanefnd fagnar framgangi framkvæmdar við göngu- og hjólastíg. Um er að ræða afar mikilvægt verkefni fyrir umferðaröryggi og lífsgæði íbúa og ferðamanna. Nefndin leggur áherslu á að göngu- og hjólastígur verði kláraður umhverfis náttúruperluna Mývatn hið fyrsta.
Samþykkt
 
2.  Staða fráveitumála – 1701019
Svartvatnstankur á Hólasandi hefur verið tekinn til notkunar. Stefnt er að formlegri opnun hans í lok maí, en framkvæmdin við svartvatnstankinn hefur verið eitt lykilverkefna í umhverfismálum Mývatnssveitar.
Nefndin fagnar framgangi málsins. Frá upphafi verkefnisins hefur áburðarverð snarhækkað, sem endurspeglar vel hvað mottó svartvatnsnýtingar í Mývatnssveit: „Að breyta sulli í gull“ hefur átt vel við.
Lagt fram
 
3.  Skútustaðahreppur Húsnæðisáætlun – 1709004
Við lok COVID-19 liggur fyrir mikill kraftur í atvinnulífi Mývatnssveitar. Sá kraftur mun styðja við íbúaþróun sveitarfélagsins og er mikilvægt að húsnæðisáætlun verði framfylgt. Uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Skjólbrekku er fagnað. Mikilvægt er að fá til samstarfs verktaka til uppbyggingar í Klappahrauni og þéttbýlið í Reykjahlíð þannig byggt frekar upp. Þá er mikilvægt að skipulagsvinna við Skjólbrekku verði kláruð og lögð þar áhersla á uppbyggingu fjölskylduvænnar byggðar á svæðum sem þegar hefur verið raskað innan þéttbýlissvæðisins. Samþykkt
 
4.  Fýsileikagreining orkukosta – 2106009
Verkáætlun varðandi uppsetningu varmadæla er í vinnslu og er stefnt að uppsetningu varmadæla síðsumars. Verkefnið gegnir lykilhlutverki í að jafna húshitunarkostnað og fría raforku sem í dag er nýtt til húshitunar. Miðað við stöðu verkefnisins núna munu á milli 10-15 húseigendur í Mývatnssveit setja upp varmadælur við hús sín á árinu 2022.
Atvinnumála- og framkvæmdanefnd fagnar framgangi málsins. Nefndin telur mikilvægt að reynslan af uppsetningu varmadæla í Skútustaðahreppi nýtist í sameinuðu sveitarfélagi.
Lagt fram
 

Fundi slitið kl. 09:30.

Scroll to Top