17. fundur skóla- og félagsmálanefndar haldinn að Hlíðavegi 6, 9. júní 2020, kl. 10:30.
Fundinn sátu:
Alma Dröfn Benediktsdóttir, formaður, Arnar Halldórsson, varaformaður, Þuríður Pétursdóttir, aðalmaður, Sylvía Ósk Sigurðardóttir, aðalmaður, Helgi Arnar Alfreðsson, aðalmaður og Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri. Jafnframt sátu fundinn Sólveig Jónsdóttir skólastjóri og Edda Hrund fulltrúi foreldrafélagsins.
Fundargerð ritaði: Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.
Dagskrá:
1. Skólastefna: Eftirfylgni - 1808026
Lögð fram skýrsla frá Tröppu ráðgjöf dags. 27. maí 2020 um mat á skólastefnu Skútustaðahrepps með áherslu á stjórnun og fleira og samþættingu námsgreina.
Megin niðurstaðan er að innleiðing skólastefnu sveitarfélagsins í Reykjahlíðarskóla er komin af stað og mikilvæg skref verið stigin í áætlanagerð, stefnumótun og endurskoðun og ígrundun á starfsháttum. Tækifæri til að innleiða skólastefnu sveitarfélagins af festu felast í að nýta matslista og sýnilegt innra mat á því hvernig heilsueflandi skóli, jákvæður agi, grænfáni, samstarf við foreldra og nærsamfélagið, samstarf við nemendur, samþætting námsgreina og tenging við nærsamfélagið birtast í skólastarfinu.
Séu einkenni viðkomandi þátta ekki nægilega skýr þurfa tímasettar úrbætur að liggja fyrir og verða augljóst viðfangsefni í augum skólasamfélagsins.
Með áframhaldandi úrbótum í kjölfar ytra mats og yfirsýn og eftirfylgni á innleiðingu skólastefnu Skútustaðahrepps væri eðlilegt að innleiðingu á skólastefnu sveitarfélagsins verði að fullu lokið 2022 og sveitarfélaginu og skólasamfélaginu ljóst hvernig skólastefnan birtist í starfi grunnskólans. Í kjölfarið er hægt að ímynda sér að sveitarfélagið ákveði hvort þörf sé á að skerpa á skólastefnunni, setja ný viðmið og jafnvel að gera sérstakt ytra mat á gæðum skólastarfsins í heild.
Skólanefnd lýsir yfir ánægju sinni með úttektina og telur mikilvægt að gerði verði sambærileg skýrsla að ári liðnu sem nái jafnframt til leikskólans.
2. Reykjahlíðarskóli - Samþætting námsgreina - 2006011
Hjördís Albertsdóttir kennari við Reykjahlíðarskóla kynnti breytingar á skólastarfi á næsta skólaári en þá verður unnið markvisst að samþættingu á námsgreinum í öllum námshópum. Hjördís mun leiða breytingarnar og verður verkefnisstjóri.
Nefndin þakkar Hjördís fyrir góða kynningu og lýsir yfir mikilli ánægju með innleiðingu á samþættingu námsgreina í Reykjahlíðarskóla. Er þetta stórt framfaraskref í skólastarfinu og ánægjulegt að sjá kennsluhætti skólans þróast með þessu hætti. Nefndin vill jafnframt fá reglulega skýrslu inn á fundi sína um hvernig innleiðingin gengur.
3. Barnvæn sveitarfélög - Innleiðing barnasáttmála - 2005020
Nefndin samþykkti á síðasta fundi að sækja um innleiðingu á Skútustaðahreppi sem Barnvænt sveitarfélag sem er verkfærakista og líkan sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga.
Innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í 8 skref, sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum, getur sveitarfélag sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi. Viðurkenningin er háð því að starfsfólk UNICEF meti sem svo að innleiðingarferlið hafi verið réttindum barna í sveitarfélaginu til framdráttar og að aðgerðaáætlun verkefnisins hafi verið fylgt eftir. Til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélag að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að tveimur árum liðnum.
Formaður tilkynnti að umsókn sveitarfélagsins um verkefnið hefur verið samþykkt og hefst undirbúningur að innleiðingu barnasáttmálans í haust. Nefndin lýsir yfir ánægju sinni með að umsóknin sveitarfélagsins hafi verið samþykkt.
Fundi slitið kl. 11:30.