41. fundur

  • Sveitarstjórn
  • 10. júní 2020

41. fundur sveitarstjórnar haldinn að Hlíðavegi 6,  miðvikudaginn 10. júní 2020, kl.  09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson, oddviti, Elísabet Sigurðardóttir, aðalmaður, Sigurður Böðvarsson, varaoddviti, Halldór Þorlákur Sigurðsson, aðalmaður, Dagbjört Bjarnadóttir, aðalmaður, Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

Í upphafi fundar lagði oddviti til að eftirfarandi máli yrði bætt við á dagskrá með afbrigðum:
1711016- Minnisblað - Skipulagsfulltrúi
2006016 – Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga
Samþykkt samhljóða að bæta málinu við á dagskrá fundarins undir lið 13 og færast önnur mál til sem því nemur.

1. Starf sveitarstjóra - 2005004

Sveitarstjórn samþykkir að ráða Svein Margeirsson í starf sveitarstjóra Skútustaðahrepps til loka yfirstandandi kjörtímabils. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt fyrirliggjandi ráðningasamning.
Capacent var sveitarstjórn innan handar í ráðningaferlinu. Alls sótti 21 um starf sveitarstjóra Skútustaðahrepps en tveir drógu umsóknina til baka. Umsækjendur voru:
Ásbjörn Ólafur Ásbjörnsson
Berglind Ragnarsdóttir
Bjarni Jónsson
Björgvin Harri Bjarnason
Einar Örn Thorlacius
Glúmur Baldvinsson
Grétar Ásgeirsson
Gunnar Örn Arnarson
Gunnlaugur A. Júlíusson
Jón Hrói Finnsson
Jónína Benediktsdóttir
Ólafur Kjartansson
Páll Línberg Sigurðsson
Rögnvaldur Guðmundsson
Sigurður Jónsson
Siguróli Magni Sigurðsson
Skúli H. M. Thoroddsen
Sólborg Lilja Steinþórsdóttir
Sveinn Margeirsson

Sveinn hefur störf 1. ágúst og býður sveitarstjórn hann velkominn til starfa.

2. Skútustaðahreppur: Ársreikningur 2019 - 2005029

Ársreikningur Skútustaðahrepps og stofnana hans fyrir árið 2019 er tekinn til síðari umræðu. Vísað er til yfirferðar endurskoðenda við fyrri umræðu þann 27. maí síðastliðinn. Engar breytingar hafa orðið á ársreikningnum frá fyrri umræðu. Endurskoðendur Skútustaðahrepps hafa áritað ársreikninginn með fyrirvaralausri áritun.

Sveitarstjórn staðfestir ársreikninginn samhljóða með undirritun sinni. Ábyrgðar- og skuldbindingayfirlit staðfest og undirritað. Ársreikningurinn verður aðgengilegur á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum. Sveitarstjóra falið að senda ársreikninginn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

3. Ungmennaráð - Málefni ungs fólks - 2006003

Ungmennaráð Skútustaðahrepps mætti á fyrsta sinn á fund sveitarstjórnar Skútustaðahrepps. Fyrir hönd ungmennaráðs mættu Helgi James Price Þórarinsson, Inga Þórarinsdóttir og Arna Þóra Ottósdóttir. Í ungmennaráðinu eru jafnframt Dóróthea Gerður Örnólfsdóttir og Anna Mary Yngvadóttir. Fyrsti fundur ungmennaráðs var haldinn 16. janúar s.l. en ráðið hefur alls haldið fimm fundi.
Helgi, Inga og Arna fóru yfir helstu áherslur ungmennaráðsins sem eru m.a. umferðaröryggismál, aðkoma að skóla og íþróttahúsi, lagfæring á leiktækjum í skólanum, leiðbeina ungu fólki í líkamsræktinni, starfsemi félagsmiðstöðvar, hinsegin fræðsla fyrir almenning, regnbogagangstétt, samráðsvettvangur ungmennaráða á svæði SSNE, hundasvæði, sundlaugarmál o.fl.

Sveitarstjórn þakkar ungmennaráði fyrir góðar hugmyndir og gott samtal um málefni ungs fólks. Hugmyndunum verður vísað í viðeigandi nefndir, í framkvæmd það sem hægt er og til gerðar fjárhagsáætlunar.
Sveitarstjórn lýsir yfir mikilli ánægju með að starfsemi ungmennaráðs er komin af stað. Mikilvægt er fyrir sveitarfélagið að hlusta á sjónarmið unga fólks og bjóða þeim meiri aðkomu að málefnum sveitarfélagsins.

4. Nýsköpun í norðri - 1909032

Oddviti fór yfir stöðu Nýsköpunar í norðri en verkefnið var sett af stað í tengslum við sameiningarviðræður Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Aðgerðir NÍN byggja á vinnu rýnihópa NÍN frá janúar-mars 2020. Þær eru sex talsins og miða að því að farið geti saman viðspyrna fyrir atvinnulíf svæðisins í kjölfar samdráttar í ferðaþjónustu árið 2020 og aukinn viðnámsþróttur samfélagsins m.t.t. loftslagsmála, matvælaframleiðslu og byggðafestu. Aðgerðirnar miða að langtímaáhrifum á efnahag svæðisins en skipta jafnframt máli strax árið 2020. Auk víðtækrar samvinnu heimamanna varðandi mótun aðgerðanna er samstarf við lykilstofnanir sem geta stutt við framkvæmd aðgerðanna mikilvægt, s.s. Nýsköpunarsjóð Atvinnulífsins, Listaháskólann, Umhverfisstofnun, Háskólann á Akureyri, Landgræðsluna, Skógræktina, Vatnajökulsþjóðgarð og Þekkingarnet Þingeyinga.
Aðgerðirnar eru:
Aðgerð 1: Rannsókna- og nýsköpunarklasi: Uppbygging á aðstöðu fyrir nýsköpun, menntun og rannsóknir
Aðgerð 2: Kolefnisbinding með skógrækt og landgræðsla með nýtingu heyfyrninga
Aðgerð 3: Sameiginlegt vörumerki og Bændamarkaður
Aðgerð 4: Uppbygging hringrásarhagkerfis í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi
Aðgerð 5: Greining auðlinda, mannauðs, innviða og regluverks
Aðgerð 6: Samstaða íbúa og samhangandi upplifun ferðamanna á öllu svæðinu

Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju sinni með hversu vel hefur tekist til með verkefnið sem kemur á góðum tíma og er hluti af viðspyrnuaðgerðum sveitarfélagsins. Afar mikilvægt er að ríkisvaldið komi með meira fjármagn inn í verkefnið því það byggir á atvinnuskapandi nýsköpun heimafólks.

5. Skútustaðahreppur - Jafnlaunavottun - 1909040

Skútustaðahreppur hefur hlotið jafnlaunavottun frá frá vottunarstofunni iCert, sem er staðfesting þess að jafnlaunakerfi Skútustaðahrepps samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins, ÍST85:2012. Tilgangur jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og miða að auknu launajafnrétti kynjanna. Með þessu er markmiðið að auka almenna starfsánægju starfsmanna með gegnsærra og réttlátara launakerfi.
Jafnlaunastefna Skútustaðahrepps snýst um að greidd séu sömu laun fyrir jafn verðmæt störf óháð kyni þess sem sinnir starfinu. Jafnlaunastefnan er hluti af Mannauðsstefnu Skútustaðahrepps.
Skútustaðahreppur hefur undanfarið verið í innleiðingu á jafnlaunakerfi með það að markmiði að hljóta jafnlaunavottun. Jafnlaunakerfið er sett upp samkvæmt jafnréttislögum og jafnlaunastaðli. Sú vinna hefur gengið vel og er jafnlaunakerfið nú tilbúið og búið að taka í notkun. Vottunarúttekt fór fram og er niðurstaðan sú að Skútustaðahreppur uppfyllir öll skilyrði sem sett eru fram til að hljóta jafnlaunavottun.
Meðal jafnlaunamarkmiða sveitarfélagsins er að útrýma óútskýrðum launamun umfram 2%. Niðurstaða launagreiningar sýnir kynbundinn launamun, þar sem konur mælast með 2,83% hærri laun en karlar, þegar litið er til uppreiknaðra heildarlauna. Úr launagreiningunni komu nokkur frávik sem öll hafa verið sett í farveg og vinnslu í samræmi við verklagsreglu um frábrigði, úrbætur og forvarnir.

Lögð var áherslu á það í upphafi að starfsfólk á hreppsskrifstofu myndi sjá um innleiðinguna svo þekkingin á jafnlaunakerfinu myndi haldast þar. Margrét Halla Lúðvíksdóttir skrifstofustjóri hélt utan um verkefnið með glæsibrag. Sveitarstjórn lýsir yfir ánægju sinni með jafnlaunavottunina.

6. Landeigendafélag Voga - Málefni hitaveitu - 1712010

Lagður fram að nýju, að beiðni stjórnar Landeigendafélags í Vogum, viðauki við samning Skútustaðahrepps f.h. Veitustofnunar Skútustaðahrepps og þinglýstra eigendur jarðanna Voga 1, Voga 2, Voga 3, Voga 4 og Bjarkar í Skútustaðahreppi sem fara með eignarhald á öllum óskiptum réttindum Voga, um málefni hitaveitu sem samþykktur var á 35. fundi sveitarstjórnar 11. mars s.l.

Sveitarstjórn samþykkir viðaukasamninginn samhljóða fyrir sitt leyti með áorðnum orðalagsbreytingum.

7. Aðgerðir sveitarstjórnar til viðspyrnu vegna Covid-19 - 2003023

Sveitarstjóri og oddviti fóru yfir stöðu þeirra 15 viðspyrnuaðgerða sveitarfélagsins vegna Covid-19 sem sveitarstjórn samþykkti. Viðspyrnuaðgerðirnar ganga samkvæmt áætlun. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fundaði með sveitarstjóra, oddvita og varaoddvita í vikunni til þess að fara yfir stöðuna í Skútustaðahreppi sem er eitt þeirra 9 sveitarfélaga sem er hvað háðast ferðaþjónustunni og fer hvað verst út úr samdrættinum í kjölfar Covid-19.

8. Staða fráveitumála - 1701019

Lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samorku þar sem vakin er athygli á því að Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um sérstakt tímabundið fjárfestingaátak og í því felst m.a. að 200 milljónum króna á árinu verður varið í uppbyggingu á fráveitumálum hjá sveitarfélögum og veitufyrirtækjum.

9. Refa- og minkaskytta - Daði Lange ráðningasamningur - 2006001

Lagður fram verktakasamningur við Daða Lange Friðriksson grenjaskyttu.

Sveitarstjórn samþykkir samninginn samhljóða.

10. Nefnd um endurbyggingu sundlaugar: Lokaskýrsla - 2006004

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 10. apríl 2019 að skipa nefnd vegna endurbyggingar sundlaugar í Skútustaðahreppi. Nefndina skipuðu:
- Sveitarstjórn: Helgi Héðinsson formaður og Halldór Þ. Sigurðsson.
- Atvinnumála- og framkvæmdanefnd: Edda Hrund Guðmundsdóttir.
- Mývetningur, íþrótta- ungmennafélag: Jóhanna Jóhannesdóttir.
- Fulltrúar íbúa og atvinnulífs: Pétur Snæbjörnsson og Ólafur Ragnarsson.
- Fulltrúi eldri Mývetninga: Birkir Fanndal.
- Starfsmaður nefndarinnar: Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.
Lögð fram lokaskýrsla nefndarinnar í samræmi við erindisbréf hennar.

Tillaga sundlaugarnefndar til sveitarstjórnar:

Sundlaugarnefndin hélt 9 bókaða fundi. Nefndin varð sammála í upphafi um að leggja áherslu á tvær sviðsmyndir við byggingu sundlaugar í Skútustaðahreppi. Annars vegar sviðsmynd 1 þar sem dregin er upp mynd af hagkvæmasta kostinum með 25 metra steypri laug eða úr stáli ásamt hreinsibúnaði sem uppfyllir ítrustu kröfur um hreinsun og miðað við staðsetningu þar sem eldra sundlaugarkar var. Hins vegar sviðsmynd 2 þar sem er að finna hönnun að draumalauginni til að draga að ferðamenn með framúrskarandi arkitektúr þar sem tekið er mið af náttúrufegurðinni í Mývatnssveit.
Faglausn dró upp sviðsmynd 1 með steyptu sundlaugarkari en VA arkitektar sviðsmynd 2. Þá var leitað til A. Óskarssonar vegna sviðsmyndar 1 með sundlaugakar úr stáli. Jafnframt komu í ljós gögn frá 2013 frá Form ráðgjöf með teikningum af sundlaugarsvæði sem samsvarar til sviðsmyndar 1.

Rekstur sundlaugar:
Leitað var eftir upplýsingum um rekstur annarra sundlauga á landinu og fengust upplýsingar frá um 10 sveitarfélögum. Rekstur sundlauganna átti það sameiginlegt að standa ekki undir sér. Meira að segja vinsælar laugar eins og á Hófsósi og Blönduósi eru reknar með tapi á ársgrundvelli.
KPMG var fengið til þess að leggja mat á kostnaðaráætlun um rekstur sundlaugar í Reykjahlið miðað við sviðsmynd 1 um ódýrsta kostinn. KPMG lagði jafnframt til næmigreiningu til 30 ára þar sem hægt er að vegna og meta reksturinn út frá mismunandi forsendum. Miðað við grunn rekstrarforsendur eins og starfsmannahald, lántöku, viðhald o.fl. og að meðaltali 15 þúsund manna gestafjölda að meðaltali ári í 30 ár þar sem aðgangsmiðinn kostar 1.000 kr. er uppsafnað rekstrartap um 965 m.kr. eða að meðtaltali 32 m.kr. á ári.

Vatnsgæði:
Nefndin óskaði eftir skýrslu frá Geochemy um samanburð á vatnsgæði á hitaveituvatni Skútustaðahrepps og Grjótagjárvatninu fyrir sundlaug í Reykjahlíð. Niðurstaðan var að mæla með hitaveituvatni Skútustaðahrepps í fyrirhugaða sundlaug Reykjahlíðar vegna lægra efnainnihalds og minni útfellingahættu.

Hreinsibúnaður:
Mikil þróun hefur átt sér stað þegar kemur að hreinsibúnaði sundlauga hin síðari ár sem uppfylla kröfur reglugerða heilbrigðiseftirlitsins. Þann 6. apríl var vígður nýr hreinsibúnaður í Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Búnaðurinn framleiðir klór úr matarsalti þar sem rafstraumur er notaður til að kljúfa saltið í frumefni sín. Þegar þau efni blandast vatninu myndast efni sem hentar vel til sótthreinsunar í sundlaugum. Fyrir sundlaugargesti þýðir þetta að klórlyktin minnkar talsvert. Sviði í augum og húðerting minnkar og efnin fara betur með sundfatnað. Tæknibúnaðurinn mun leysa núverandi klór af hólmi og hafa í för með sér bætt lífsgæði sundlaugargesta og starfsfólk og verða betra fyrir m.a. augu, húð og öndunarfæri. Þetta er einnig mun umhverfisvænni lausn.

Hagkvæmasti kosturinn:
Sundlaugarnefndin samþykkir að leggja fyrir sveitarstjórn að taka afstöðu til byggingar á sundlaug sem tekur mið af sviðsmynd 1 um ódýrasta kost til að reisa sundlaug þar sem gamla sundlaugarkarið var, m.a. vegna samlegðaráhrifa með rekstri íþróttamiðstöðvar. Fyrir liggja útreikningar og grunnforsendur hönnunargagna þar sem kostnaður við að byggja upp hefðbundna laug með steyptu sundlaugarkari, hreinsibúnaði, heitum pottum, vaðlaug og frágangi á útisvæði liggur á bilinu 160-200 m.kr. Ljóst er að framkvæmdin og rekstur sundlaugarinnar verður fjárhagslega íþyngjandi fyrir sveitarfélagið en á móti vega lýðheilsuleg sjónarmið og búsetugæði.

Sveitarstjórn þakkar sundlaugarnefndinni fyrir vel unnin störf og faglega skýrslu.

Bókun vegna sundlaugarskýrslu frá H-lista:
Að mati meirihluta sveitarstjórnar þarf að nálgast þarf þetta risastóra verkefni á ábyrgan hátt. Í samræmi við stefnu H-listans og fjárhagsáætlun hefur frá árinu 2018 markvisst verið unnið að því að taka saman og greina kostnað við endurbyggingu og rekstur sundlaugar í Reykjahlíð. Slíkt hefur reyndar verið gert um árabil, en nú hefur verið farið ofan í allar þær forsendur sem fyrir liggja samhliða ítarlegri öflun nýrra gagna og því hægt að taka vel ígrundaða ákvörðun með hagsmuni allra íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi. Forsendurnar hvað varðar byggingarkostnað eru nokkuð skýrar, en veruleg óvissa er um gestafjölda og greiðsluvilja sem leiðir af sér verulega óvissu um rekstrarhæfi.
Að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna og stöðu sveitarfélagsins er óhugsandi að sveitarfélagið ráðist í uppbyggingu sundlaugar á þessum tímapunkti. Slík fjárfesting sem ber með sér gríðarlega áhættu hvað varðar rekstrarhæfi hefði að öllum líkindum mjög neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins, nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir og aðrar aðkallandi fjárfestingar. Það mat staðfestir ítarleg fjárstreymisgreining sem rýnd hefur verið af sérfræðingum KPMG. Greiningin ber með sér að um er að ræða áhættufjárfestingu sem er óverjandi fyrir kjörna fulltrúa að standa fyrir að svo stöddu.
Vissulega hefði sundlaug jákvæð áhrif á hamingju íbúa og lífsgæði, en fyrir þá fjármuni sem fyrirsjáanlegt er að færu í uppbyggingu og rekstur slíkrar einingar er hægt að ráðast í verkefni sem hefðu mun meiri jákvæð áhrif til lengri tíma litið.
Vera kann, að einhverjum árum liðnum, að sveitarfélagið hefði bolmagn til að ráðast í þessa framkvæmd, en sá tími er því miður ekki núna.
Helgi Héðinsson, Elísabet Sigurðardóttir, Sigurður Böðvarsson og Dagbjört Bjarnadóttir.

Bókun frá N-lista vegna sundlaugarskýrslu:
Undirritaður lýsir yfir vonbrigðum með rekstrarlíkan og forsendur KPMG vegna reksturs sundlaugar í sviðsmynd 1. Forsendurnar eru að mínu mati rangar og gefa þar af leiðandi ekki rétta mynd af rekstri sundlaugarinnar. Þá er ekki tekið nægt tillit til aukinna lífsgæða og hamingju íbúa auk betri búsetuskilyrða.
Halldór Þ. Sigurðsson

Lokaskýrsla nefndarinnar og öll fylgigögn verða aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.

11. Skútustaðahreppur: Innkaupareglur - 1801010

Lögð fram tillaga að uppfærðri innkaupastefnu og innkaupareglum Skútustaðahrepps. Reglum þessum er ætlað að vera lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 til fyllingar og útfæra nánar framkvæmd innkaupa hjá sveitarfélaginu.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

12. Reykjahlíðarskóli - Skólaakstur - 2005027

Dagbjört Bjarnadótir vék af fundi vegna vanhæfis og Friðrik Jakobsson varamaður tók sæti hennar undir þessum lið.
Lögð fram tillaga skólastjóra um skólaakstur skólaárið 2020-2021.
Samkvæmt yfirliti skólastjóra verða aðeins 9 nemendur í skólaakstri skólaárið 2020-2021. Fyrir liggur að Snow Dogs ehf. og Egill Freysteinsson hafa séð um skólaakstur sveitarfélagsins samkvæmt samningum í kjölfar útboðs 2018. Eigendur Snow Dogs ehf. hafa tilkynnt um að þeir muni ekki sinna skólaakstri á næsta skólaári.
Lagt er til að einn skólabíll verði með skólaaksturinn næsta skólaár og samið verði beint við foreldra eins nemanda.
Nánari útfærsla tillögunnar færð í trúnaðarmálabók vegna persónugreinanlegra upplýsinga (lög um persónuvend og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018).

Sveitarstjórn samþykkir að leita eftir framlengingu á samningum vegna skólaaksturs til eins árs og með tilliti aðlögunar á akstursleiðum vegna breyttra aðstæðna. Vegna þessa er vísað til 15. gr. innkaupareglna sveitarfélagsins m.a. með tilliti til þess að samningsgerð fór fram á grundvelli útboðs sem gerði ráð fyrir 3ja ára samningstíma.

13. Skipulagsfulltrúi - Minnisblað - 1711016

Þar sem tímabundin ráðning skipulagsfulltrúa er að renna út var auglýst eftir skipulagsfulltrúa Skútustaðahrepps. Umsóknarfrestur var til 8. júní s.l. Tvær umsóknir bárust.

Sveitastjórn samþykkir samhljóða að ráða Guðjón Vésteinsson í starf skipulagsfulltrúa Skútustaðahrepps og að áframhaldandi samstarf verði við Þingeyjarsveit um skipulags- og byggingamál sveitarfélaganna. Sveitarstjóra falið að sækja um undanþágu til umhverfis- og auðlindaráðherra.

14. Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga - 2006016

Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga verður haldinn 10. júní 2020.

Sveitarstjórn samþykkir að Sigurður Böðvarsson verði fulltrúi Skútustaðahrepps á fundinum.

15. Skólastefna: Eftirfylgni - 1808026

Lögð fram skýrsla frá Tröppu ráðgjöf dags. 27. maí 2020 um mat á skólastefnu Skútustaðahrepps með áherslu á stjórnun og fleira og samþættingu námsgreina.
Megin niðurstaðan er að innleiðing skólastefnu sveitarfélagsins í Reykjahlíðarskóla er komin af stað og mikilvæg skref verið stigin í áætlanagerð, stefnumótun og endurskoðun og ígrundun á starfsháttum. Tækifæri til að innleiða skólastefnu sveitarfélagins af festu felast í að nýta matslista og sýnilegt innra mat á því hvernig heilsueflandi skóli, jákvæður agi, grænfáni, samstarf við foreldra og nærsamfélagið, samstarf við nemendur, samþætting námsgreina og tenging við nærsamfélagið birtast í skólastarfinu.
Séu einkenni viðkomandi þátta ekki nægilega skýr þurfa tímasettar úrbætur að liggja fyrir og verða augljóst viðfangsefni í augum skólasamfélagsins.
Með áframhaldandi úrbótum í kjölfar ytra mats og yfirsýn og eftirfylgni á innleiðingu skólastefnu Skútustaðahrepps væri eðlilegt að innleiðingu á skólastefnu sveitarfélagsins verði að fullu lokið 2022 og sveitarfélaginu og skólasamfélaginu ljóst hvernig skólastefnan birtist í starfi grunnskólans. Í kjölfarið er hægt að ímynda sér að sveitarfélagið ákveði hvort þörf sé á að skerpa á skólastefnunni, setja ný viðmið og jafnvel að gera sérstakt ytra mat á gæðum skólastarfsins í heild.

16. Skýrsla sveitarstjóra - 1611024

Sveitarstjóri fór yfir og lagði fram skýrslu um helstu verkefni frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
Skýrslan verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

17. Skóla- og félagsmálanefnd: Fundargerðir - 1809011

Lögð fram 17. fundargerð skóla- og félagsmálanefndar dags. 9. júní 2020. Fundargerðin er í tveimur liðum.

18. Atvinnumála- og framkvæmdanefnd: Fundargerðir - 1809012

Lögð fram 11. fundargerð atvinnumála- og framkvæmdanefndar dags. 4. júní 2020. Fundargerðin er í 5 liðum.

19. Landbúnaðar- og girðinganefnd: Fundargerðir - 1612009

Lögð fram 7. fundargerð landbúnaðar- og girðinganefndar dags. 29. maí 2020. Fundargerðin er í 4 liðum.

20. Markaðsstofa Norðurlands: Fundargerðir - 1712011

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Markaðsstofu Norðurlands dags. 5. apríl, 8. maí og 13. maí 2020.

21. SSNE - Fundargerðir - 1611006

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra dags. 8. apríl, 6. maí og 2. júní 2020.

22. Nefnd um endurbygging sundlaugar: Fundargerðir - 1905011

Lögð fram fundargerð frá 9. fundi sundlaugarnefndar dags. 4. júní 2020.

 

Fundi slitið kl. 12:45.

      

  


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FUNDARGER?IR

Atvinnumálanefnd / 24. janúar 2021

17. fundur

Sveitarstjórn / 14. janúar 2021

52. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 5. janúar 2021

23. fundur

Umhverfisnefnd / 30. nóvember 2020

18. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 18. nóvember 2020

21. fundur

Landbúnađar- og girđinganefnd / 11. desember 2020

9. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 21. desember 2020

22. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar II/II

Sveitarstjórn / 16. desember 2020

51. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar I/II

Atvinnumálanefnd / 3. apríl 2020

9. fundur

Atvinnumálanefnd / 7. maí 2020

10. fundur

Atvinnumálanefnd / 4. júní 2020

11. fundur

Atvinnumálanefnd / 24. september 2020

12. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. október 2020

13. fundur

Atvinnumálanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. nóvember 2020

15. fundur

Atvinnumálanefnd / 11. desember 2020

16. fundur

Sveitarstjórn / 9. desember 2020

50. fundur

Sveitarstjórn / 27. nóvember 2020

49. fundur sveitarstjórnar

Skipulagsnefnd / 17. nóvember 2020

28. fundur skipulagsnefndar

Velferđar- og menningarmálanefnd / 3. nóvember 2020

21. fundur

Umhverfisnefnd / 11. nóvember 2020

17. fundur

Sveitarstjórn / 11. nóvember 2020

48. fundur sveitarstjórnar

Atvinnumála- og framkvćmdanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 21. október 2020

Skóla- og félagsmálanefnd

Skóla- og félagsmálanefnd / 21. október 2020

Skóla- og félagsmálanefnd

Sveitarstjórn / 28. október 2020

47. fundur

Sveitarstjórn / 7. október 2020

46. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 6. október 2020

20. fundur