40. fundur

  • Sveitarstjórn
  • 27. maí 2020

40. fundur sveitarstjórnar haldinn í Skjólbrekku  miðvikudaginn 27. maí 2020, kl.  09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson, oddviti, Elísabet Sigurðardóttir, aðalmaður, Sigurður Böðvarsson, varaoddviti, Halldór Þorlákur Sigurðsson, aðalmaður, Dagbjört Bjarnadóttir, aðalmaður, Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.

Dagskrá:

1. Skútustaðahreppur: Ársreikningur 2019- Fyrri umræða - 2005029

Ársreikningur Skútustaðahrepps og stofnana fyrir árið 2019 lagður fram til fyrri umræðu. Þorsteinn G. Þorsteinsson, endurskoðandi hjá KPMG, kom á fundinn og fór yfir ársreikninginn vegna ársins 2019 og svaraði fyrirspurnum.

Bókun
Rekstur sveitarfélagsins á seinasta ári gekk heilt yfir með ágætum. Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 603,1 milljónum króna, þar af námu rekstrartekjur A hluta 530,9 milljónir króna. Rekstrarafgangur samstæðunnar var 28,4 milljónir króna sem var 43,6 milljónum króna undir áætlun. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð að fjárhæð 17,6 milljón króna. Metár var í fjárfestingum sveitarfélagsins á árinu 2019 eða 218 milljónir króna og voru þær að mestu fjármagnaðar með handbæru fé. Handbært fé í árslok 2019 var 69,8 milljónir króna. Helstu frávik í rekstri voru lægri skattekjur en áætlað var, aðrar tekjur voru hærri en áætlað var en launakostnaður og framkvæmdir voru talsvert umfram áætlun.

Helstu þættir ársreiknings
Heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B hluta eru 931,2 milljónir króna. Heildarskuldir og skuldbindingar eru 299,7 milljónir króna. Lífeyrisskuldbinding hækkar frá árinu 2018 og nemur 84,8 milljónum króna og þar af er áætluð næsta árs greiðsla 2,2 milljónir króna. Skuldahlutfall A- og B-hluta skv. 2. tl. 64. gr. sveitarstjórnarlaga nemur 49,7% af reglulegum tekjum. Eigið fé í samanteknum reikningsskilum er 631,5 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 67,8%. Veltufjárhlutfall samstæðunnar var 0,71. Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 37,6 milljónum króna í veltufé frá rekstri sem er 6,2% af heildartekjum.

Helstu frávik frá áætlun
Helstu frávik í rekstri samantekinna reikningsskila A og B hluta eru að útsvar og fasteignaskattur eru 18,8 milljónum króna lægri en áætlun gerði ráð fyrir, framlög Jöfnunarsjóðs eru 2,8 milljónum króna hærri en áætlun, aðrar tekjur eru 40,6 milljónum króna hærri en áætlun, laun og launatengd gjöld eru 59,7 milljónum króna hærri en áætlun, annar rekstrarkostnaður er 7,8 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 1,5 milljónum króna hagstæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Afskriftir eru 2,1 milljón króna hærri en áætlað var.

Metár í uppbyggingu og fjárfestingum
Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í samanteknum reikningsskilum A og B hluta nam á árinu 2019 samtals 218 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 157 milljónum króna. Meðal helstu framkvæmda ársins voru bygging nýs leikskóla, kaup á þremur nýjum íbúðum í Klappahrauni, fyrsti áfangi göngu- og hjólreiðastígs, endurbætur á stígum í Höfða, gatnagerðarframkvæmdir, malbikunarframkvæmdir, fráveituframkæmdir, viðhaldsframkvæmdir o.fl.

Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga miðast meðal annars við að:
- Skuldaviðmið sveitarfélaga þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðu Skútustaðahrepps í árslok 2019 er 49,7%.
- Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga tilgreina einnig að rekstrarjöfnuður á hverju þriggja ára tímabili sé jákvæður og er þessi rekstrarjöfnuður hjá Skútustaðahreppi jákvæður sem nemur 221,6 milljónum króna.

Ljóst er að Covid-19 heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir mun hafa veruleg áhrif á mörgum sviðum um allan heim, þar með talið efnahagsleg, á þessu ári. Vænta má að áhrif á rekstur sveitarfélagsins á þessu ári verði umtalsverð m.a. vegna lægri skatttekna og annarra tekna, frestun gjalddaga og aukinna útgjalda. Forsendur fjárhagsáætlunar 2020 eru að miklu leyti brostnar en til að mæta tekjusamdrætti og halda sig við fjárfestingaáætlun ársins sem hluti af viðspyrnuaðgerð hefur sveitarfélagið tekið 150 m.kr. langtímalán.

Samþykkt samhljóða að vísa ársreikningi Skútustaðahrepps og stofnana hans fyrir árið 2019 til síðari umræðu í sveitarstjórn.

2. Barnvæn sveitarfélög - Innleiðing barnasáttmála - 2005020

Í kjölfar lögfestingar Barnasáttmálans á Íslandi 2013 hefur eftirspurn eftir fræðsluefni og stuðningi við innleiðingu sáttmálans aukist til muna. Á það ekki síst við sveitarfélögin, sem sinna stærstum hluta þeirra verkefna sem hafa beina tengingu við daglegt líf barna og ungmenna. Til að svara þessari eftirspurn hóf UNICEF á Íslandi, í samstarfi við umboðsmann barna árið 2016, að búa til líkan fyrir innleiðingu Barnasáttmálans innan íslenskra sveitarfélaga, líkan sem við köllum barnvæn sveitarfélög. Frá því verkefnið var sett á laggirnar hefur UNICEF haldið utan um innleiðingu, veitt sveitarfélögum ráðgjöf og sinnt fræðslu til starfsmanna og kjörinna fulltrúa.
Barnvæn sveitarfélög er verkfærakista og líkan sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Sjá nánar á www.barnvaensveitarfelog.is/.
Innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í 8 skref, sem sveitarfélag stígur með það að markmiði að virða og uppfylla réttindi barna. Að tveimur árum liðnum, getur sveitarfélag sótt um viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi. Viðurkenningin er háð því að starfsfólk UNICEF meti sem svo að innleiðingarferlið hafi verið réttindum barna í sveitarfélaginu til framdráttar og að aðgerðaáætlun verkefnisins hafi verið fylgt eftir. Til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélag að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að tveimur árum liðnum.
Skóla- og félagsmálanefnd leggur til við sveitarstjórn að sveitarfélagið skrái sig til þátttöku í verkefninu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skrá sig til þátttöku og felur formanni skóla- og félagsmálanefndar að halda utan um verkefnið.

3. Söfnun og förgun dýrahræja - 2005028

Lagt fram erindi frá Ólafi Jónssyni héraðsdýralækni NA-umdæmis f.h. Matvælastofnunar þar sem segir að um 20 ár séu liðin frá því að síðasta riðutilfelli var greint í Skjálfandahólfi. Það sé mikilvægur áfangasigur í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé og nú eru varnarhólfin þrjú í Þingeyjarsýslum hrein með tilliti til riðu. Á þessum tímamótum í baráttunni við riðuna eru sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum hvött til þess að koma sér upp söfnunargámum fyrir dýrahræ sem víðast þannig að bændur geti losað sig með auðveldum og tryggilegum hætti gripi sem drepast.

Sveitarstjórn þakkar héraðsdýralækni fyrir ábendinguna og felur formanni landbúnaðar- og girðingarnfendar að hafa samband við önnur sveitarfélög sem standa frammi fyrir því sama og að hafa samband við Terra sem sér um sorphirðu sveitarfélagsins hvað varðar úrlausn mála. Málið verði jafnframt tekið upp í samhengi við endurskoðun á þróunarsamningi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um sorphirðu.

4. Sumarstörf 2020 - 2005009

Sveitarstjóri fór yfir stöðu mála á ráðningu sumarstarfsfólks, bæði fyrir námsfólk og í unglingavinnu. Sveitarfélagið fékk úthlutað 10 sumarstörfum til tveggja mánaða fyrir námsmenn.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að bæta við þriðja mánuðinum við fyrir námsmenn í sumar. Kostnaðaráætlun er 2 m.kr. og verður fjármagnaður með færslu fjárheimildar af málaflokki 04-26 yfir á 06-27.

5. Úthlutun leiguhúsnæðis - 1905018

Bókun færð í trúnaðarmálabók.

6. Starf sveitarstjóra - 2005004

Alls barst 21 umsókn um stöðu sveitarstjóra Skútustaðahrepps en umsóknarfrestur var til og með 17 maí s.l. Nafnalisti umsækjenda verður birtur þegar gengið hefur verið frá ráðningu en stefnt er að því að ljúka ráðningaferlinu um mánaðarmótin.

7. Staða fráveitumála - 1701019

Sigurður Böðvarsson vék af fundi vegna vanhæfi. Friðrik Jakobsson varamaður kom inn á fundinn.
Lagt fram erindi frá Ingibjörgu Björnsdóttur f.h. Skútustaða ehf. vegna innkaupamála. Sveitarfélagið bauð rekstraraðilum í Mývatnssveit 2019 að taka þátt í sameiginlegum innkaupum á vatnssalernum með beinum innflutningi frá Jets í Noregi til þess að fá hagstæðari kjör. Er þetta hluti af umbótaáætlun sveitarfélagsins og rekstraraðila en sveitarfélagið hefur sett upp nýtt fráveitukerfi í leikskóla, grunnskóla og íbúðir í Klappahrauni. Hluti Skútustaða ehf. í pöntuninni voru 13 salerni og dælubúnaður ásamt hlutfallslegur kostnaður í flutningnum. Skútustaðir ehf. bjóða sveitarfélaginu sinn hluta til kaups á kostnaðarverði, samtals 4.570.789 kr. m/vsk.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að kaupa salernin og dælibúnaðinn af Skútustöðum ehf. og verða salernin sett upp í íþróttamiðstöð og Skjólbrekku. Gert er ráð fyrir innkaupunum í fjárfestingaáætlun undir liðum 8 og 13.

8. Landeigendafélag Voga - Málefni hitaveitu - 1712010

Friðrik fór af fundi og Sigurður tók sæti sitt á ný.
Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar.

9. Reykjahlíðarskóli - Skólaakstur - 2005027

Dagbjört Bjarnadótir vék af fundi vegna vanhæfis og Friðrik Jakobsson varamaður tók sæti hennar.
Lögð fram tillaga skólastjóra um skólaakstur skólaárið 2020-2021.
Samkvæmt yfirliti skólastjóra verða aðeins 9 nemendur í skólaakstri skólaárið 2020-2021.
Í ljósi þess að innkaupareglur sveitarfélagsins eru í endurskoðun verður ákvörðun um næstu skref frestað til næsta fundar.

10. Skútustaðahreppur: Hamingja sveitunga - 1808046

Friðrik vék af fundi og Dagbjört tók sæti sitt á ný.
Dagbjört, Helgi og Þorsteinn fóru yfir stöðu hamingjuverkefnisins og lögðu fram samning til staðfestingar við Sálfræðiþjónustu Akureyrar.
Skútustaðahreppur og Sálfræðiþjónusta Norðurlands hafa tekið höndum saman og ætla að bjóða Mývetningum upp á verkefni sem felst í sértækri þjónustu varðandi geðrækt (hluti af hamingjuverkefninu). Geðræktarverkefnið skiptist í fræðslu, ráðgjöf, verkefni og rannsóknir þar sem megináherslan verður á lífsleikni og sjálfsrækt annars vegar og geðrækt hinsvegar.
Fyrr í mánuðinum var opinn fyrirlestur og kynning á geðræktarverkefninu í Skjólbrekku og var fundinum jafnframt streymt á facebook síðu sveitarfélagsins, er hægt að nálgast upptöku af honum þar. Eru Mývetningar hvattir til þess að horfa á fundinn því þar er kynnt aðferðarfræði sem er einstök á landsvísu en sveitarfélagið mun bjóða upp á námskeið til að efla geðrækt Mývetninga. Jafnframt mun sveitarfélagið bjóða íbúum upp á þrjá ókeypis tíma hjá sálfræðingi. Þá verða forvarnir og úrræði fyrir grunnskólanemendur og ungmenni í gegnum náttúrumeðferð.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn við Sálfræðiþjónustu  Norðurlands en hann gildir til 2021. Samningurinn rúmast innan fjárhagsáætlunar ársins.

11. Aðgerðir sveitarstjórnar til viðspyrnu vegna Covid-19 - 2003023

Sveitarstjóri og oddviti fóru yfir stöðu 15 viðspyrnuaðgerða sem sveitarstjórn samþykkti að ráðast í vegna Covid-19 og mikils samdráttar í atvinnulífinu. Sumar aðgerðir eru komnar af stað og aðrar komnar langt í undirbúningi.
Byggðastofnun hefur gert samantekt á áhrifum niðursveiflu í ferðaþjónustu á atvinnuástand á landsbyggðinni en í henni er mikilvægi ferðaþjónustunnar greint eftir svæðum og sveitarfélögum. Skýrslan var unnin af frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Niðurstöður leiða í ljós að mörg sveitarfélög verða fyrir miklum búsifjum vegna ástandsins en að mati Byggðastofnunar verða níu sveitarfélög fyrir þyngstu höggi; eitt á Norðurlandi eystra sem er Skútustaðahreppur, fimm á Suðurlandi og þrjú á Suðurnesjum. Þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp að Byggðastofnun eru í takt við sviðsmyndagreiningu sveitarstjórnar Skútustaðahrepps. Samkvæmt Byggðastofnun er áætlað að lækkun útsvarsstofns á ársgrundvelli í Skútustaðahreppi verði 12-28% eftir sviðsmyndum. Áætlað atvinnuleysi í apríl var 36,4% en í maí 30,9%. Hlutfall gistinótta erlendra ferðamanna var yfir 90% sl. sumar. Boðað er að rætt verði við viðkomandi sveitarfélög í framhaldinu þar sem gripið verður til sértækari aðgerða. Ríkið hefur þegar lagt fram aðgerðarpakka fyrir sveitafélögin á Suðurnesjum.

Sveitarstjórn leggur mikla áherslu á að vinnu ríkisins gagnvart Skútustaðahreppi verðið hraðað eins og hægt er til að bregðast við erfiðu atvinnuástandi sem og miklu tekjufalli sveitarfélagsins.

12. Breyting á deiliskipulagi Birkilands - 1909015

Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi kom inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.
Tekið fyrir að nýju erindi varðandi breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps og deiliskipulagi Birkilands.
Tillaga að óverulegri breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps var send Skipulagsstofnun í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsstofnun svaraði erindinu með bréfi dags. 5. maí 2020.
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemdir Skipulagsstofnunnar og leggur til við sveitarstjórn að samþykkja að um verulega breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps sé að ræða. Skipulagsnefnd leggur til að skipulagsfulltrúa verði falið að óska eftir uppfærðum gögnum frá framkvæmdaraðila í samræmi við að um verulega breytingu sé að ræða og í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunnar og leggja þau fyrir á næsta fund skipulagsnefndar.

Sveitarstjórn staðfestir bókun skipulagsnefndar.

13. Endurskoðun aðalskipulags - 1806007

Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi kom inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.
Lögð fram til kynningar drög að lýsingu vegna endurskoðunar aðalskipulags Skútustaðahrepps frá Alta ehf. en drögin voru jafnframt kynnt fyrir skipulagsnefnd. Drögin eru enn í vinnslu og eru lögð fram til kynningar. Skipulagsnefnd hefur falið skipulagsfulltrúa og formanni skipulagsnefndar að gera meginstefnudrög til umræðu í nefndinni.

14. Landsnet - Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Hólasandslínu 3 - 2005011

Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi kom inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.
Tekið fyrir erindi dags. 11. maí 2020 þar sem Guðmundur Ingi Ásmundsson f.h. Landsnets sækir um framkvæmdaleyfi til Skútustaðahrepps fyrir Hólasandslínu 3, 220 kV háspennulínu.
Sótt er um framkvæmdaleyfi á grundvelli 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 6. og 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi, nr. 772/2012, fyrir framkvæmdinni Hólasandslína 3, 220 kV háspennulína.
Framkvæmdin er matsskyld skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er fyrirliggjandi álit Skipulagsstofnunnar dags. 19. september 2019. Fyrirhuguð framkvæmd er í samræmi við gildandi aðalskipulag Skútustaðahrepps.
Meðfylgjandi umsókninni eru eftirtalin fylgigögn:
Lýsing mannvirkja
Útboðsgögn vegna vegslóðar, jarðvinnu og undirstaða ásamt kortum og teikningum
Óundirritað samþykki Vegagerðarinnar vegna vegþverana og vegtenginga ásamt tölvupósti með samþykki
Matsskýrsla vegna mats á umhverfisáhrifum ásamt viðaukum
Álit Skipulagsstofnunnar vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar
Markmið með byggingu Hólasandslínu 3 er að bæta raforkukerfi landsins, tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu þessara landshluta, auka flutningsgetu, öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku, næstu 50 árin hið minnsta. Að auki mun sveigjanleiki í kerfinu, með tilliti til staðsetningar orkuvinnslu annars vegar og orkunotkunar hins vegar, aukast verulega. Þessi sveigjanleiki mun auka hagkvæmni í kerfinu og bæta nýtingu orkuauðlinda. Fyrirhuguð framkvæmd gerir ráð fyrir að ný Hólasandslína 3 verði með 550 MVA hitaflutningsmörk.
Hólasandslína 3 er á framkvæmdaáætlun kerfisáætlun Landsnets hf. 2018-2027 sem Orkustofnun hefur samþykkt.
Fyrirhuguð línuleið innan Skútustaðahrepps er um óskipt land jarðarinnar Grímsstaðir og liggur fyrir samkomulag þar að lútandi við alla landeigendur.
Skipulagsnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025.
Skipulagsnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023.
Skipulagsnefnd hefur kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar, dags. 19. september 2019, um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar: Hólasandslína 3. Með vísan til framkvæmdalýsingar er um að ræða hina umhverfismetnu framkvæmd.
Í áliti Skipulagsstofnunnar er fjallað um áhrif framkvæmdarinnar innan marka Skútustaðahrepps. Þar segir m.a. að fyrirhuguð lína liggur að mestu um mela- og sandlendi þar sem gróðurþekja er fremur lítil og að mestu bundin við uppgræðslusvæði. Framkvæmdin raskar ekki votlendi sem nýtur sérstakrar verndar, bakkagróðri, náttúrulegu birki eða friðuðum plöntum og hefur því óveruleg áhrif á gróður.
Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð lína innan Skútustaðahrepps muni ekki hafa neikvæð áhrif á jarðminjar með hátt verndargildi og því um óverulega neikvæð áhrif að ræða. Varðandi ásýnd telur Skipulagsstofnun að Hólasandslína 3 muni hafa talsvert neikvæð áhrif. Að mati Skipulagsstofnunar verða áhrif framkvæmdar á útivist og ferðamennsku á Hólasandi nokkuð neikvæð. Varðandi fornleifar telur Skipulagsstofnun að neikvæð áhrif Hólasandslínu verði ekki veruleg ef fylgt verði áformuðum mótvægisaðgerðum Landsnets og ábendingum Minjastofnunar Íslands.
Í 9. gr. c. í raforkulögum nr. 65/2003 er m.a. kveðið á um að sveitarstjórnum beri að tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Í 9. gr. a. er lagagrundvöllur fyrir kerfisáætlun þar sem gert er ráð fyrir umsóttri framkvæmd. Fjallað var um framkvæmdina í kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027 sem var samþykkt af Orkustofnun, dags. 18.1.2019. Þá hafa skipulagsáætlanir þeirra sveitarfélaga sem Hólasandslína 3 nær til og varða fyrirkomulag línulagnar verið kynntar hverju sveitarfélagi.
Lagaskilyrði eru til útgáfu umsótts framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Hólasandslínu 3 verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar. Meðfylgjandi er greinargerð þar sem fjallað er um afgreiðslu framkvæmdaleyfis og samræmi þess við niðurstöðu álits Skipulagsstofnunnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

15. Ósk um breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi Voga 1 - 2002003

Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi kom inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.
Tekið fyrir að nýju erindi varðandi breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps og deiliskipulagi Voga 1.
Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps var send Skipulagsstofnun í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í svari Skipulagsstofnunnar kom m.a. fram að leita þyrfti umsagna áður en hægt væri að staðfesta tillögu að breytingu. Kom m.a. fram að stofnunin mælti með því að farið yrði með skipulagsbreytinguna í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga, þ.e. að hún verði auglýst og kynnt samhliða breytingu á deiliskipulagi svæðisins.
Skipulagsnefnd telur að um óverulega breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps sé að ræða. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að óska eftir umsögnum frá þeim aðilum sem Skipulagsstofnun óskar eftir. Skipulagsnefnd leggur einnig til að skipulagsfulltrúa verði falið að senda uppfærða tillögu á Skipulagsstofnun í samræmi við bréf stofnunnarinnar. Jafnframt er lagt til að skipulagsfulltrúa sé falið að vinna málið áfram í samræmi við lög og reglugerðir.

Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulagsnefndar.

16. Landsvirkjun - ósk um breytingu á deiliskipulagi Kröfluvirkjunar - 2005016

Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir véku af fundi vegna vanhæfis. Friðrik Jakobsson varamaður kom inn á fundinn. Sigurður varaoddviti tók við stjórn fundarins.
Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi kom inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.
Tekið fyrir erindi frá Landsvirkjun dags. 14. maí 2020 þar sem þess er óskað að fá heimild til að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi Kröfluvirkjunar vegna fyrirhugaðrar niðurdælingarholu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Meðfylgjandi umsókninni er matslýsing vegna fyrirhugaðrar vinnu við breytingu á deiliskipulaginu í samræmi við lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006.
Umsóknin er send með fyrirvara um endanlega niðurstöðu Skipulagsstofnunnar um ákvörðun um matsskyldu niðurrennslisholu.
Breyting á deiliskipulagi Kröfluvirkjunar fellst í því að gert verði ráð fyrir og skilgreind niðurdælingarhola fyrir förgun á þéttivatni frá Kröflustöð. Fyrirhugað er að staðsetja niðurdælingarholuna sunnan við kæliturninn í Kröflu og skábora holuna til vesturs, en markmiðið er að finna lekt við að skábora gegnum gossprungu frá Daleldum.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar og samþykkir matslýsinguna og að skipulagsfulltrúa verði falið að leita umsagna vegna hennar í samræmi við lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Jafnframt verði Landsvirkjun heimilað að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi Kröfluvirkjunar. Sveitarstjórn beinir því til Landsvirkjunar að hafa samráð við landeigendur í öllu ferlinu.

17. Andmæli við stöðuleyfi við skiljustöð - 2002004

Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir véku af fundi vegna vanhæfis og Friðrik Jakobsson varamaður kom inn á fundinn.
Guðjón Vésteinsson kom inn á fundinn undir þessum lið.
Lagt fram bréf frá Guðmundi H. Péturssyni lögfræðingi f.h. Landeigendafélags Reykjahlíðar dags. 21. maí þar sem skorað er á sveitarfélagið að afturkalla stöðuleyfi Landsvirkjunar fyrir gám við skiljustöð 2 í Bjarnarflagi.
Landeigendafélag Reykjahlíðar hefur þegar kært útgefið stöðuleyfi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál (UUA) og settu jafnframt fram stöðvunarkröfu sem UUA hafnaði. Sjá https://uua.is/urleits/14-2020-bjarnarflag/.

Vegna erindis lögfræðings Landeigendafélags Reykjahlíðar samþykkir sveitarstjórn að útgefið stöðuleyfi til Landsvirkjunar verði háð því skilyrði að engar framkvæmdir verði leyfðar fyrr en úrskurður UUA vegna kæru landeigenda Reykjahlíðar liggi fyrir. Verði niðurstaða UUA sú að útgefið stöðuleyfi standi þá taki það gildi frá og með þeim degi sem úrskurðurinn liggur fyrir og gildi í eitt ár. Sveitarstjórn hvetur jafnframt Landsvirkjun og landeigendur Reykjahlíðar að ná sáttum í málinu.

18. SSNE - Skipun þingfulltrúa – 2005030

Fyrir sveitarstjórn liggur að skipa tvo þingfulltrúa og jafn marga varamenn á þing SSNE í samræmi við 5. og 6. grein samþykkta SSNE.

Sveitarstjórn samþykkir að oddviti og sveitarstjóri verði aðalfulltrúar og Dagbjört Bjarnadóttir og Margrét Halla Lúðvíksdóttir varafulltrúar.

19. Íþróttahús og Reykjahlíðarskóli - Viðhaldsáætlun - 1911035

Sigurður Böðvarsson vék af fundi vegna vanhæfis, Friðrik Jakobsson varamaður tók sæti hans.
Eitt tilboð barst í útboði á endurnýjun á þaki á Reykjahlíðarskóla, frá Húsheild ehf. Kostnaðaráætlun var 36,6 m.kr. en tilboð Húsheildar ehf. var 14% yfir kostnaðaráætlun. Verkís sá um gerð verklýsingar, magnskrár, kostnaðaráætlunar og útboðsgagna. Farið var í skýringarviðræður við Húsheild ehf. þar sem gerðar voru breytingar á nokkrum þáttum og er því nýtt tilboð Húsheildar ehf. 39,3 m.kr. eða 7,4% yfir kostnaðaráætlun.

Sveitarstjórn samþykkir tilboð Húsheildar ehf. samhljóða. Verkið rúmast innan fjárhagsáætlunar ársins.

20. Snjómokstur: Kostnaður 2019-2020 – 2005032

Sigurður vék af fundi og Friðrik tók sæti hans.
Lagt fram yfirlit vegna kostnaðar sveitarfélagsins við snjómokstur í Reykjahlíð og á heimreiðum árin 2019 og 2020 en þar er sérstaklega horft til vetursins 2019 og 2020 þar sem hann var einstaklega snjóþungur.
Rekstrarárið 2019: 8.085.468 kr. (þar af okt.-des. 3.098.336 kr.) Kostnaðaráætlun var 5.043.000 kr. Snjómokstur fór því 60% fram úr áætlun.
Rekstrarárið 2020: 8.010.119 kr. Kostnaðaráætlun var 5.043.000 kr. Snjómokstur er því þegar farinn 59% fram úr áætlun.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðauka við fjárhagsáætlun 2020 vegna snjómoksturs að upphæð 5 m.kr. (Viðauki nr. 4 - 2020) sem verður fjármagnaður með handbæru fé.

21. Ólöf Hallgrímsdóttir - Nefndarlaun - 2005031

Friðrik vék af fundi og Sigurður tók sæti á ný.
Lagt fram bréf frá Ólöfu Hallgrímsdóttur dags. 25. maí 2020 þar sem hún afsalar sér nefndarlaunum í umhverfisnefnd það sem eftir er af kjörtímabilinu og að andvirðið fari til góðra mála og stofnaður verði sjóður til uppbyggingar sundlaugar í Mývatnssveit. Jafnframt hvetur hún "alla þá sem sjá sér fært og eru aflögufærir að líta í eigin barm að gera slíkt hið sama." Þá óskar bréfritari eftir upplýsingum um hversu háar upphæðir sveitarfélagið var að greiða í fundarlaun vegna fastanefnda og hinna ýmsu stýrihópa fyrir árið 2019.

22. J.Jónsson ehf - Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 1910021

Dagbjört fór af fundi og Friðrik tók sæti hennar það sem eftir lifði fundar.
Lögð fram að nýju umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 20. maí 2020 þar sem Arnór Jónsson f.h. J. Jónssonar ehf. sækir um rekstrarleyfi til sölu gistingar í flokki II, gististaður án veitinga, í Birkilandi 1 a-b (Fnr. 2339035 01-0101 og 01-0102).

Þar sem búið er að breyta skipulagi í Birkilandi á lóðum 1 a-b, gerir sveitarstjórn ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa, heilbrigðiseftirlitinu og eldvarnareftirlitinu sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

23. Þúfukollur ehf. - Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2005034

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 20. maí 2020 þar sem Ólafur Þröstur Stefánsson f.h. Þúfukollu ehf., sækir um rekstrarleyfi til gistingar í flokki II, gististaður án veitinga, fyrir Þúfu (Fnr 250-9053).

Sveitarstjórn frestar afgreiðslu erindisins þar til öryggis- og lokaúttekt á húsnæðinu hefur farið fram.

24. Hlíð ferðaþjónusta ehf - Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 2005033

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 20. maí 2020 þar sem Gísli Sverrisson fyrir hönd Hlíð ferðaþjónustu ehf. sækir um rekstrarleyfi í flokki II, gististaður án veitinga, fyrir Reykjahlíð tjaldsvæði (Fnr. 216-3129).

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa, heilbrigðiseftirlitinu og eldvarnareftirlitinu sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

25. Gísli Rafn Jónsson: Kæra vegna útboðs skólaaksturs - 1806031

Lagt fram álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru Gísla Rafns Jónssonar vegna framkvæmd útboðs Skútustaðahrepps á skólaakstri sveitarfélagsins í maí 2018. Ráðuneytið telur ekki tilefni til frekari aðgerða í máli þessu en bendir sveitarfélaginu á að yfirfara innkaupareglur þess.

26. Skýrsla sveitarstjóra – 1611024

Sveitarstjóri fór yfir og lagði fram skýrslu um helstu verkefni frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
Skýrslan verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

27. Skipulagsnefnd: Fundargerðir – 1611022

Lögð fram 24. fundargerð skipulagsnefndar 19. maí 2020. Fundargerðin er í 7 liðum.

28. Skóla- og félagsmálanefnd: Fundargerðir - 1809011

Lögð fram 16. fundargerð skóla- og félagsmálanefndar dags. 20. maí 2020. Fundargerðin er í 10 liðum.

Liður 2: Reykjahlíðarskóli - Starfsmannamál og starfsáætlun veturinn 2020-2021
Sveitarstjóri og skólastjóri fóru yfir stöðu tónlistarkennslu næsta skólaár. Norðurþing hefur sagt upp samstarfssamningi og þá hafa farið fram viðræður við Þingeyjarsveit um kennsluna en það samstarf hentar ekki að þessu sinni. Einnig hafa verið skoðaðar leiðir með að ráða kennara/leiðbeinanda innan sveitar til eins árs.
Skóla- og félagsmálanefnd leggur til við sveitarstjórn að ráðinn verði kennari/leiðbeinandi til eins árs.
Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

29. Brunavarnarnefnd Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar: Fundargerðir - 1705024

Lögð fram fundargerð í sameiginlegri brunavarnanefnd Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar haldinn í fjarfundi miðvikudaginn 20. maí 2020. Fundargerðin er 3 liðum.

Liður 1: Brunavarnaáætlun Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar
Sveitarstjórn staðfestir tillögur brunavarnanefndar um breytingar á brunavarnaáætluninni.

30. Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerðir - 1611030

Lögð fram fundargerð framkvæmdastjórnar Héraðsnefndar Þingeyinga bs. haldinn í fjarfundi 18. maí 2020. Fundargerðin er í 5 liðum.
Liður 2: Tillaga að framtíðarskipulagi AÞ ses.
Framkvæmdastjórn leggur fram tvo valkosti varðandi framtíðar rekstur byggðasamlagsins við fulltrúaráð HNÞ bs:
- Að umsýsla HNÞ bs. verði falin einu aðildarsveitarfélaganna með sérstökum samningi.
- Að umsýsla HNÞ bs. verði falin AÞ ses. með sérstökum samningi í samræmi við tillögu stjórnar AÞ ses.

31. Forstöðumannafundir: Fundargerðir - 1611048

Lögð fram 41. fundargerð forstöðumannafundar Skútustaðahrepps dags. 19. maí 2020.

32. Nýsköpun í norðri - Fundargerðir stýrihóps - 1911001

Lögð fram fundargerð frá stýrihópi Nýsköpunar í norðri dags. 20. maí 2020.

 

Fundi slitið kl. 14:45.

         


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FUNDARGER?IR

Atvinnumálanefnd / 24. janúar 2021

17. fundur

Sveitarstjórn / 14. janúar 2021

52. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 5. janúar 2021

23. fundur

Umhverfisnefnd / 30. nóvember 2020

18. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 18. nóvember 2020

21. fundur

Landbúnađar- og girđinganefnd / 11. desember 2020

9. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 21. desember 2020

22. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar II/II

Sveitarstjórn / 16. desember 2020

51. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar I/II

Atvinnumálanefnd / 3. apríl 2020

9. fundur

Atvinnumálanefnd / 7. maí 2020

10. fundur

Atvinnumálanefnd / 4. júní 2020

11. fundur

Atvinnumálanefnd / 24. september 2020

12. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. október 2020

13. fundur

Atvinnumálanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. nóvember 2020

15. fundur

Atvinnumálanefnd / 11. desember 2020

16. fundur

Sveitarstjórn / 9. desember 2020

50. fundur

Sveitarstjórn / 27. nóvember 2020

49. fundur sveitarstjórnar

Skipulagsnefnd / 17. nóvember 2020

28. fundur skipulagsnefndar

Velferđar- og menningarmálanefnd / 3. nóvember 2020

21. fundur

Umhverfisnefnd / 11. nóvember 2020

17. fundur

Sveitarstjórn / 11. nóvember 2020

48. fundur sveitarstjórnar

Atvinnumála- og framkvćmdanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 21. október 2020

Skóla- og félagsmálanefnd

Skóla- og félagsmálanefnd / 21. október 2020

Skóla- og félagsmálanefnd

Sveitarstjórn / 28. október 2020

47. fundur

Sveitarstjórn / 7. október 2020

46. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 6. október 2020

20. fundur