Fráveitumál - Einstök umhverfisvćn lausn

  • Skútustađahreppur
  • 28. janúar 2020

Í verndaráætlun Mývatns og Laxár segir að náttúra Mývatns og Laxár og umhverfi þessara staða er einstakt á heimsvísu. Fyrir ferðalanga er það líkt og að koma í ævintýraheim að skoða og upplifa svæðið en fyrir náttúruvísindamenn er það endalaus uppspretta rannsóknarefna og forvitnilegra náttúrufyrirbæra, bæði á sviði líf- og jarðvísinda. Það er því skylda núlifandi kynslóðar að varðveita sérstöðu þessa merkilega svæðis og þar með að tryggja komandi kynslóðum sama aðgengi og svipaða upplifun og við getum notið nú í dag.

Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu tóku gildi árið 2004. Markmið þeirra er að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Jafnframt segir í lögunum að þau eigi að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni á vatnasviði Mývatns og Laxár, ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.

Eitt af leiðarljósum umhverfisstefnu Skútustahrepps er að sveitarfélagið verði til fyrirmyndar meðal íslenskra sveitarfélaga í umhverfismálum þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku. Með því verði sveitarfélagið eftirsótt til búsetu sem fjölskylduvænt svæði í heilnæmu umhverfi sem skartar náttúru sem nærir og eykur lífsgæði íbúa og gesta. Inntak umhverfisstefnunnar byggir á væntumþykju, virðingu og mati á þeim verðmætum sem einstök náttúra Skútustaðahrepps er. Áhersla er lögð á gott samstarf við íbúa, landeigendur, fyrirtæki og stofnanir til að greiða leiðina að settum markmiðum.

Fyrsti kafli umhverfisstefnunnar ber yfirskriftina Umhverfisfræðsla. Þar segir að „markmið umhverfisfræðslu er að skapa almenna virðingu fyrir náttúru svæðisins með verndun hennar og sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Nemendur á leik- og grunnskólastigi fái vandaða kennslu um umhverfismál, það með talið loftslagsmál og matarsóun. Skútustaðahreppur er þátttakandi í verkefninu „Heilsueflandi samfélag“, sem felur í sér það markmið m.a. að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Sveitarfélagið miðlar upplýsingum um umhverfismál markvisst til starfsmanna, íbúa og gesta sveitarfélagsins.“

Í umhverfisstefnunni er einnig fjallað um verndun lífríkis og umhverfis, skipulagsmál og manngert umhverfi þar sem sjálfbær þróun og verðmæti landslags eru höfð að leiðarljósi við gerð skiplagsáætlana, fráveitumál, heilnæmt umhverfi og þá er sér kafli eignaður loftslagsmálum. Í kaflanum um loftslagsmál segir m.a. að „sveitarfélagið miðlar upplýsingum um loftslagsbreytingar og aðgerðir til að daga úr þeim og hvetur starfsmenn og íbúa til að leggja sitt af mörkum.“ Í aðgerðaráætlun sem fylgir þeim kafla er tíundað sérstaklega hvað sveitarfélagið ætlar að leggja af mörkum. Hluti af því er að stuðla að vitundarvakningu varðandi þátt einstaklinga og fyrirtækja í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Fræðslusvæði á heimasíðu þar sem fram komi upplýsingar um t.d. orkunýtingu, kosti rafbíla, vistakstur, moltugerð og endurheimt votlendis. Hvatning og aðstoð við landeigendur um gerð áætlunar um endurheimt votlendis o.fl.

Umbótaáætlun í fráveitumálum

Í febrúar 2018 lögðu sveitarfélagið og rekstraraðilar í Mývatnssveit fram umbótaáætlun í fráveitumálum vegna krafna Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Verkefnið var að hluta til kostað af ríkinu.  Ljóst er aðstæður við Mývatn eru óvenjulegar, því þar eru gerðar strangari kröfur en almennt gerist og mikill þrýstingur um skjótar úrbætur. Svæðið nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum og alþjóðlegrar verndar Ramsarsamningsins auk þess að vera afar fjölsóttur ferðamannastaður. Sveitarfélagið og fleiri rökstuddu ósk um aðkomu ríkisvaldsins með vísun í sanngirnissjónarmið, þar sem sveitarfélagið sé fámennt og eigi erfitt um vik að ráðast í dýrar framkvæmdir til að mæta ströngum kröfum, sem m.a. sé að finna í sérlögum um vernd svæðisins. Náðist samkomulag um fjárhagslegan stuðning ríkisins við verkefnið. Samhliða því mun umhverfis- og auðlindaráðuneytið efla vöktun á Mývatni og lífríki þess, einkum þá sem lýtur að innstreymi næringarefna og hugsanlegum neikvæðum áhrifum þess.

Ný lausn í fráveitumálum í fráveitumálum er talsvert flókin en felst í stuttu máli í því að aðgreina svokallað „svartvatn“ (e. blackwater) frá „grávatni“ (e. greywater), en það er annars vegar salernisskólp og hins vegar skólp frá baðherbergi, eldhúsi og þvottahúsi. Svartvatnið yrði þá fjarlægt af svæðinu en grávatnið hreinsað með hefðbundum hætti á staðnum. Um þessa nýju tæknilegu útfærslu á hreinsun, sem er í raun lokað fráveitukerfi. Mikilvægt atriði varðandi svart- og grávatn er að rúmmál þess síðarnefnda er mun meira en svartvatns. Með tilkomu vatnssparandi salerna og aðskildu  lagnakerfi svartvatns og grávatns er auðvelt að halda grávatni aðskildu frá svartvatni en þetta er einnig hægt að gera þótt notast sé við hefðbundin vatnssalerni, en þá þarf lagnakerfið að vera tvískipt. Með þessu móti má einangra svartvatnið sérstaklega en það inniheldur mestan hluta næringarefna, í stað þess að blanda því saman við grávatnið, sem er stærsti hlutinn af heildarrúmmáli frárennslis. Í umbótaætlun sveitarfélagsins og rekstraraðila, sem samþykkt er af Heilbrigðiseftirliti Norðurlands, er gengið út frá að alls staðar verði notast við vatnssparandi salerni og lokaðan safntank.

Gert er ráð fyrir að þeir aðilar sem fyrstir yrðu til að endurnýja salernis- og fráveitukerfi yrðu ferðaþjónustuaðilar og stærstu stofnanir sveitarfélagsins. Umbótaáætlunin er til fjögurra ára og miðar að því að við lok tímabils (2021, lok árs) verði markmiði um 75% heildarlækkun á köfnunarefni og fosfór náð, sbr. reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999. Þar með er hægt að gefa sér lengri tíma til að auka hreinsunina á síðustu 25 prósentunum hvað varðar heildarlækkun á köfnunarefni og fosfór sem aðallega eru heimili og minni rekstraraðilar.

  • Það kerfi sem þarf að byggja upp miðað við áðurgreinda aðferð samanstendur af eftirfarandi þáttum  
  • Endurbætt salerniskerfi í byggingum
  • Safntankar við byggingar
  • Flutningskerfi með fráveitubílum eða haugsugum
  • Grófhreinsistöð við geymslutank á Hólasandi
  • Geymslutankur á Hólasandi
  • Nýting í landgræðslu með niðurfellingarbúnaði
  • Endurbætur á siturbeðum

Fráveituverkefnið er þegar komið af stað. Verið er að byggja safntank á Hólasandi þangað sem svartvatninu verður dælt. Sveitarfélagið hefur tekið nýja fráveitulausn í notkun í leikskóla og grunnskóla, eitt hótel er komið með fráveitulausnina og önnur fyrirtæki í undirbúningi og þá er komin ný íbúðargata með lausnina sem er fyrsta gata sinnar tegundar í heiminum.

Dregið úr kolefnisfótspori

Í minnisblaði Landgræðslu ríkisins sem er hluti af Umbótaáætlunni, kemur fram að unnið hefur verið að uppgræðslu á Hólasandi síðan 1971 og samtals hefur verið unnið á 5.800 hekturum lands, aðallega með sáningu á alaskalúpínu. Uppgræðsla með svartvatni verður vonandi hrein viðbót við aðra uppgræðslu og hraðar því að sandurinn verði græddur upp. Nýting salernisúrgangs með þessum hætti flytur næringarefni þaðan sem þau eru óvelkomin á stað þar sem næringarefnin skortir og skorar því hátt á vistvæna skalanum.  

Í minnisblaði Landgræðslunnar segir jafnframt að þeim stórfyrirtækjum og sveitarfélögum fari fjölgandi sem vilja draga úr kolefnisfótspori sínu með því að græða upp land og skóg. Í þeim tilfellum greiða aðilar fyrir alla uppgræðsluna og vísindalega úttekt á kolefnisbindingunni og gera langtíma samninga um slíkt. Þá er staðfest hver bindingin er og fyrirtækin geta nýtt sér hana t.d. í gegnum Vakann, gæðakerfi ferðaþjónustunnar, en þar er eitt af skilyrðum fyrir gullmerki ferðaþjónustunnar: „Fyrirtækið mælir kolefnisspor sitt og hefur sett sér raunhæf og viðeigandi markmið um minnkun þess“. Uppgræðslan á Hólasandi hefur allt til brunns að bera til að verða að slíku verkefni. Hér liggja því augljós tækifæri í að nýta uppgræðsluna til kolefnisjöfnunar.  

Með uppgræðslu örfoka lands dregur úr sandfoki og frekari eyðingu. Það fæst betri gróðurþekja og bætt jarðvegslíf sem er grunnur að heilbrigðu vistkerfi. Lífmassi ofan- og neðanjarðar eykst, vatnsheldni jarðvegs eykst og það dregur úr frostlyftingu. Allt eru þetta ótvíræðir kostir þess að græða upp örfoka land.

2 tonn árlega

Gera má ráð fyrir að við uppgræðslu hvers hektara, bindist um 2 tonn af CO2 árlega. Þessi stærð er fengin úr rannsóknum Landgræðslunnar og er meðaltalsbinding allra uppgræðsluaðgerða á landsvísu. Raunveruleg kolefnisbinding með seyru hefur þó ekki verið mæld, en gera má ráð fyrir að slík uppgræðsla hegði sér á svipaðan hátt og aðrar. Hámarks kolefnisbinding næst ekki strax á fyrsta ári, en gera má ráð fyrir að henni verði náð eftir þrjú ár og bindingin haldist þannig í mörg ár. Að auki bætist alltaf í með aukinni uppgræðslu ár hvert, eða um 105 ha árlega. Gróflega má gera ráð fyrir því að uppsöfnuð kolefnisbinding 10 ára uppgræðslu verði á bilinu 5.000 til 10.000 tonn af CO2 í gróðri og jarðvegi á Hólasandi. Bindingin á næsta 10 ára tímabili yrði hraðari og uppsöfnuð binding eftir 20 ár gæti orðið á bilinu 20.000-30.000 tonn af CO2 þar sem meira land fer að binda á hámarkshraða. Hafa verður í huga að það er talsverð óvissa í þessum tölum, því aldrei áður hefur land verið grætt upp með seyru á Hólasandi. Óvíst er því hversu há bindingin yrði árlega og hvenær hámarks bindingu yrði náð. Þetta þyrfti því augljóslega að staðfesta með mælingum.

Í tengslum við þetta er í undirbúningi samstarfsverkefni Landgræðslunnar, Verkfræðistofunnar Eflu og Skútustaðahrepps um þróun reiknilíkans þar sem hægt yrði að draga fram með auðveldum hætti hver loftslagsáhrif mismunandi áburðargerða væri fyrir mismunandi aðstæður. Mikilvægt er að kynna niðurstöður þessa verkefnis á vegum þessa sjálfbærniverkefnis.

Heimsmarkmið sem tengjast verkefninu:

Frétt RÚV frá september 2019 um uppbyggingu á Hólasandi


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR