Mikilvćgi gestastofu í Mývatnssveit – Umsögn sveitarfélagsins um Hálendisţjóđgarđ

  • Fréttir
  • 24. janúar 2020

Á fundi sveitarstjórnar 22. janúar 2020 var lögð fram umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð sem mikið hefur verið til umræðu að undanförnu. Umsögnin var send inn í samráðsgátt stjórnvalda 14. janúar s.l. og er hún eftirfarandi:

„Vísað er til máls nr. 317/2019 í Samráðsgátt stjórnvalda. Ítrekað er að nefndin hefur haft gott samráð við sveitarstjórnir á þessu svæði við vinnslu málsins.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps áréttar fyrri umsagnir um málið. Fyrirætlanir um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu fela í raun í sér viðamiklar friðunaraðgerðir. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps er sem fyrr jákvæð gagnvart stofnun slíks þjóðgarðs en telur mikilvægt að eftirfarandi sé haft til hliðsjónar við gerð frumvarpsins:

Sú grundvallarbreyting hefur orðið í málinu frá síðasta umsagnarferli að í þessari skýrslu um áform um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð er gert ráð fyrir sameiningu Vatnajökulsþjóðgarðs við nýjan Hálendisþjóðgarð, eða eins og segir í kafla D: „Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður verði hluti Hálendisþjóðgarðs og falla því lög um Vatnajökulsþjóðgarð niður verði frumvarp þetta að lögum.“

Sveitarstjórn leggur áherslu á í ljósi þessa:

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 segir í 16. gr. að megin starfsstöðvar þjóðgarðsins skulu staðsettar í Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustri, Hornafirði, Skaftafelli og Kirkjubæjarklaustri. Annað hvort er búið að byggja gestastofur eða undirbúningur langt kominn (Kirkjubæjarklaustur), á öllum þessum stöðum, nema í Mývatnssveit. Um meginstarfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs er einnig fjallað um í reglugerð 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarðs og í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í drögum að nýju frumvarpi um Hálendisþjóðgarð segir í 12. grein að þjónusta og upplýsingar séu veittar á meginstarfsstöðvum Hálendisþjóðgarðs „og skal a.m.k. ein meginstarfsstöð rekin fyrir hvert rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Um þjónustu og upplýsingagjöf í Hálendisþjóðgarði, þ.m.t. rekstur gestastofa og þjónustustöðva, fer að öðru leyti skv. ákvæðum laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða.“

Hér hefur því verið beygt af leið og ekki tryggt að næsta gestastofa rísi í Mývatnssveit líkt og skýrt var kveðið um í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Þetta eru gríðarleg vonbrigði og í raun svik við Mývetninga. Þetta er einnig á skjön við áherslur þverpólitískrar nefndar um Hálendisþjóðgarð samkvæmt skýrslu sem hún skilaði frá sér um Hálendisþjóðgarð í desember 2019. Í skýrslu nefndarinnar segir á bls. 41:

„Af þessum stöðum hafa fjórar miðstöðvar þegar verið byggðar og eru komnar í rekstur innan Vatnajökulsþjóðgarðs: Í Ásbyrgi, Fljótsdal, á Höfn í Hornafirði og í Skaftafelli. Aðrir tveir staðir fyrir þjóðgarðsmiðstöðvar eru tilgreindir sérstaklega í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, Kirkjubæjarklaustur (hönnun lokið og framkvæmdir að hefjast) og Mývatnssveit (á undirbúningsstigi). Nefndin telur sjálfsagt að vinna út frá því að þessir staðir sem þegar eru í rekstri eða ákvörðun hefur verið tekin um verði þróaðir áfram sem hluti af innviðum hins nýja þjóðgarðs.“

Í skýrslunni á bls. 51 segir jafnframt:

„Tryggt verði sérstaklega að miðstöðvar sem þegar hefur verið mörkuð stefna um að byggja upp í Vatnajökulsþjóðgarði verði kláraðar, þótt útfærsla og markmið taki breytingum m.t.t. markmiða með stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.“

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps leggur áherslu á að afar mikilvægt er að halda inni í lögum um Miðhálendisþjóðg ákvæði um gestastofu í Mývatnssveit svo staðið verði við þau áform og loforð sem gefin voru um málið á sínum tíma. Sveitarstjórn hefur þegar bókað um mikilvægi gestastofu og hóf undirbúning að staðsetningu og þarfagreiningu fyrir ári síðan að ósk Vatnajökulsþjóðgarðs. Á 47. fundi svæðisráðs Vatnajökulsþjóðgarðs 2017 var bókað um mikilvægi gestastofu í Mývatnssveit sem og á stjórnarfundi Vatnajökulsþjóðgarðs 17. maí 2017.

Sveitarstjórn telur jafnframt að sameining Vatnajökulsþjóðgarðs og Hálendisþjóðgarðs sé jákvætt skref en gangi hins vegar ekki nógu langt. Sveitarstjórn ítrekar fyrri umsagnir sínar þar sem lögð var áhersla á að ekki verði búin til ný stjórnsýslueining með Hálendisþjóðgarði heldur verði allir þjóðgarðar landsins sameinaðir undir einni stofnun og þar með eitt rekstrarsvæði þar sem sveitarfélögin eigi sína fulltrúa í stjórn þjóðgarðsins. Með því næst betri yfirsýn um rekstur þjóðgarðanna og önnur friðlýst svæði, stefnumótunin verður markvissari og betri tenging við sveitarfélögin í landinu. Mikilvægt er að staða annarra þjóðgarða verði metin saman í þessu samhengi. Því leggur sveitarstjórn áherslu á að þjóðgarðarnir á Þingvöllum og Snæfellsjökli falli einnig um Hálendisþjóðgarðinn þannig að úr verði ný sameignleg og kraftmikil stofnun.

Önnur mikilvæg atriði:

- Mikilvægt er að tryggja fjármagn til starfsemi og rekstrar Hálendisþjóðgarðsins, ekki síst svo fulltrúar sveitarfélaganna sem sitja í svæðisráðum fái greidd laun fyrir stjórnarsetu en til þessa hafa sveitarfélögin borið kostnaðinn af stjórnarsetunni.

- Afar mikilvægt er að skipulagsvald sveitarfélaga verði virt og á engan hátt skert. Með stofnun þjóðgarðsins er verið að færa skipulagsvaldið að hluta til stjórnunar- og verndaráætlana, slíkar áætlanir mega aldrei takmarka eða ganga á skipulagsvald sveitarfélaganna og er það ákvæði í frumvarpinu ekki nógu skýrt.

- Löng hefð er fyrir nýtingarétti á miðhálendinu eins og veiðirétti og upprekstrarrétti. Afar mikilvægt er að svo verði áfram svo sátt náist um starfsemi þjóðgarðsins.

- Löng hefð er fyrir minka- og refaeyðingu og vargeyðingu í Mývatnssveit til að vernda lífríki náttúrunnar eins og kveðið er á um í stjórnar- og verndaráætlun Mývatns og Laxár. Ekkert er minnst á þetta í frumvarpinu. Afar mikilvægt er að minka-, refa- og vargeyðing verði áfram heimil svo sátt náist um starfsemi þjóðgarðsins.

- Tillögur að helstu áherslum í atvinnustefnu og greining tækifæra með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf á eftir að útfæra og þarf að gerast í samráði við sveitarfélögin. Það á einnig við um verndar- og nýtingaáætlun.

- Stærsti hluti lands innan miðhálendislínunnar eða um 85% er þjóðlenda og/eða þegar friðlýst svæði innan afmörkunarinnar, sem byggir á almennri afstöðu nefndarinnar. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps telur að ekki séu forsendur til að útvíkka mörk hálendisins umfram það sem nefndin leggur til á þessu stigi, án þess að útiloka frekar útvíkkun þegar fram líða stundir.

- Enginn virkjunarkostur í Skútustaðahreppi fellur innan afmörkunar miðhálendislínununnar sem er í nýtingaflokki en Hrúthálsar eru í biðflokki. Engu að síður er mikilvægt að benda á að nýting endurnýjanlegrar orku á hálendinu getur skipt máli fyrir þjóðarhag. Mikilvægt er að miðhálendisþjóðgarður hamli ekki áframhaldandi rekstri orkumannvirkja en samkvæmt gildandi rammaáætlun og skýrslu verkefnisstjórnunar 3. áfanga eru virkjunarkostir í nýtingaflokki. Mikilvægt er að meta þessa hluti heildstætt og þar með þau áhrif sem friðanir og friðlýsingar munu hafa á nauðsynlega auðlindanýtingu í þágu orkuvinnslu enda getur hún farið mjög vel saman við meginmarkmið friðunar að öðru leyti, enda sé gætt ítrustu mótvægisaðgerða. Tekið er undir að skynsamlegt er að skipta miðhálendisþjóðgarði í nokkra verndarflokka, ekki er andstætt IUCN flokkun að skilgreina orkuvinnslusvæði innan þjóðgarðs."


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 28. maí 2020

Skipulagsfulltrúi óskast

Fréttir / 27. maí 2020

Sumar opnunartími ÍMS

Fréttir / 20. maí 2020

Dagskrá 40. fundar sveitarstjórnar

Skólafréttir / 15. maí 2020

Unicef hlaupiđ

Fréttir / 8. maí 2020

Íţróttakennari óskast

Fréttir / 7. maí 2020

Dagskrá 39. fundar sveitarstjórnar

Fréttir / 28. apríl 2020

Ertu í leit ađ sumarstarfi 2020?