32. fundur

  • Sveitarstjórn
  • 22. janúar 2020

32. fundur sveitarstjórnar haldinn að Hlíðavegi 6, miðvikudaginn 22. janúar 2020, kl.  09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson formaður, Elísabet Sigurðardóttir aðalmaður, Sigurður Böðvarsson varaoddviti, Halldór Þorlákur Sigurðsson aðalmaður, Dagbjört Bjarnadóttir aðalmaður, Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri.

Fundargerð ritaði:  Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri.

Í upphafi fundar lagði Halldór Þorlákur Sigurðsson til að eftirfarandi máli yrði bætt við á dagskrá með afbrigðum:
2001027 - Þjónustuskerðing í Víkurskarði
Samþykkt samhljóða að bæta málinu við á dagskrá fundarins undir lið 11 og færast önnur mál til sem því nemur.

Dagskrá:

1. Björgunarsveitin Stefán og Slysavarnadeildin Hringur - Samningur - 2001016

Lögð fram drög að samningi á milli sveitarfélagsins Skútustaðahrepps, Björgunarsveitarinnar Stefáns og slysavarnadeildarinnar Hrings um almennan stuðning sveitarfélagsins við rekstur félaganna. Er þetta í fyrsta sinn sem slíkur formlegur samningur er gerður en hann rúmast innan fjárhagsáætlunar ársins.

Sveitarstjórn samþykkir samninginn samhljóða.

2. Skútustaðahreppur - Greiðsluflæðisáætlun 2020 - 2001014

Lögð fram greiðsluflæðisáætlun fyrir árið 2020.

3. Fjölmenningarstefna Skútustaðahrepps - 1810014

Í samræmi við fjárhagsáætlun 2020 er lagður fram samstarfssamningur Norðurþings, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um starf fjölmenningarfulltrúa í sveitarfélögunum þremur. Norðurþing mun annast allt er snýr að ráðningarsamningi starfsmannsins, launagreiðslum og skil á launatengdum gjöldum og bera 50% kostnaðarins er hlýst af ráðningarsambandinu, en Skútustaðahreppur 20% og Þingeyjarsveit 30%. Fjölmenningurfulltrúinn mun dreifa viðveru sinni til samræmis við ofangreind hlutföll kostunar sveitarfélaganna á starfinu.

Sveitarstjórn samþykkir samninginn samhljóða.

4. Umhverfisstofnun - Samningur um minkaveiðar vegna verndarsvæðis Mývatns og Laxár árið 2020 - 2001013

Lagður fram samningur Umhverfisstofnunar og Skútustaðahrepps um minkaveiðar í Skútustaðahreppi vegna verndarsvæðis Mývatns og Laxár árið 2020.

Sveitarstjórn staðfestir samninginn.

5. Umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð - 1908008

Lögð fram umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð. Umsögnin var send inn í samráðsgátt stjórnvalda 14. janúar s.l.

"Vísað er til máls nr. 317/2019 í Samráðsgátt stjórnvalda. Ítrekað er að nefndin hefur haft gott samráð við sveitarstjórnir á þessu svæði við vinnslu málsins.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps áréttar fyrri umsagnir um málið. Fyrirætlanir um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu fela í raun í sér viðamiklar friðunaraðgerðir. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps er sem fyrr jákvæð gagnvart stofnun slíks þjóðgarðs en telur mikilvægt að eftirfarandi sé haft til hliðsjónar við gerð frumvarpsins:
Sú grundvallarbreyting hefur orðið málinu frá síðasta umsagnarferli að í þessari skýrslu um áform um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð er gert ráð fyrir sameiningu Vatnajökulsþjóðgarðs við nýjan Hálendisþjóðgarð, eða eins og segir í kafla D: „Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður verði hluti Hálendisþjóðgarðs og falla því lög um Vatnajökulsþjóðgarð niður verði frumvarp þetta að lögum.“

Sveitarstjórn leggur áherslu á í ljósi þessa:
Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 segir í 16. gr. að megin starfsstöðvar þjóðgarðsins skulu staðsettar í Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustri, Hornafirði, Skaftafelli og Kirkjubæjarklaustri. Annað hvort er búið að byggja gestastofur eða undirbúningur langt kominn (Kirkjubæjarklaustur), á öllum þessum stöðum, nema í Mývatnssveit. Um meginstarfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs er einnig fjallað um í reglugerð 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarðs og í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.
Í drögum að nýju frumvarpi um Hálendisþjóðgarð segir í 12. grein að þjónusta og upplýsingar séu veittar á meginstarfsstöðvum Hálendisþjóðgarðs „og skal a.m.k. ein meginstarfsstöð rekin fyrir hvert rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Um þjónustu og upplýsingagjöf í Hálendisþjóðgarði, þ.m.t. rekstur gestastofa og þjónustustöðva, fer að öðru leyti skv. ákvæðum laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða.“

Hér hefur því verið beygt af leið og ekki tryggt að næsta gestastofa rísi í Mývatnssveit líkt og skýrt var kveðið um í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Þetta eru gríðarleg vonbrigði og í raun svik við Mývetninga. Þetta er einnig á skjön við áherslur þverpólitískrar nefndar um Hálendisþjóðgarð samkvæmt skýrslu sem hún skilaði frá sér um Hálendisþjóðgarð í desember 2019. Í skýrslu nefndarinnar segir á bls. 41:

„Af þessum stöðum hafa fjórar miðstöðvar þegar verið byggðar og eru komnar í rekstur innan Vatnajökulsþjóðgarðs: Í Ásbyrgi, Fljótsdal, á Höfn í Hornafirði og í Skaftafelli. Aðrir tveir staðir fyrir þjóðgarðsmiðstöðvar eru tilgreindir sérstaklega í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, Kirkjubæjarklaustur (hönnun lokið og framkvæmdir að hefjast) og Mývatnssveit (á undirbúningsstigi). Nefndin telur sjálfsagt að vinna út frá því að þessir staðir sem þegar eru í rekstri eða ákvörðun hefur verið tekin um verði þróaðir áfram sem hluti af innviðum hins nýja þjóðgarðs.“

Í skýrslunni á bls. 51 segir jafnframt:

„Tryggt verði sérstaklega að miðstöðvar sem þegar hefur verið mörkuð stefna um að byggja upp í Vatnajökulsþjóðgarði verði kláraðar, þótt útfærsla og markmið taki breytingum m.t.t. markmiða með stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.“

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps leggur áherslu á að afar mikilvægt er að halda inni í lögum um Miðhálendisþjóðg ákvæði um gestastofu í Mývatnssveit svo staðið verði við þau áform og loforð sem gefin voru um málið á sínum tíma. Sveitarstjórn hefur þegar bókað um mikilvægi gestastofu og hóf undirbúning að staðsetningu og þarfagreiningu fyrir ári síðan að ósk Vatnajökulsþjóðgarðs. Á 47. fundi svæðisráðs Vatnajökulsþjóðgarðs 2017 var bókað um mikilvægi gestastofu í Mývatnssveit sem og á stjórnarfundi Vatnajökulsþjóðgarðs 17. maí 2017.

Sveitarstjórn telur jafnframt sameiningu Vatnajökulsþjóðgarðs og Hálendisþjóðgarðs sé jákvætt skref en gangi hins vegar ekki nógu langt. Sveitarstjórn ítrekar fyrri umsagnir sínar þar sem lögð var áherslu á að ekki verði búin til ný stjórnsýslueining með Hálendisþjóðgarði heldur verði allir þjóðgarðar landsins sameinaðir undir einni stofnun og þar með eitt rekstrarsvæði þar sem sveitarfélögin eigi sína fulltrúa í stjórn þjóðgarðsins. Með því næst betri yfirsýn um rekstur þjóðgarðanna og önnur friðlýst svæði, stefnumótunin verður markvissari og betri tenging við sveitarfélögin í landinu. Mikilvægt er að staða annarra þjóðgarða verði metin saman í þessu samhengi. Því leggur sveitarstjórn áherslu á að þjóðgarðarnir á Þingvöllum og Snæfellsjökli falli einnig um Hálendisþjóðgarðinn þannig að úr verði ný sameignleg og kraftmikil stofnun.

Önnur mikilvæg atriði:
- Mikilvægt er að tryggja fjármagn til starfsemi og rekstrar Hálendisþjóðgarðsins, ekki síst svo fulltrúar sveitarfélaganna sem sitja í svæðisráðum fái greidd laun fyrir stjórnarsetu en til þessa hafa sveitarfélögin borið kostnaðinn af stjórnarsetunni.
- Afar mikilvægt er að skipulagsvald sveitarfélaga verði virt og á engan hátt skert. Með stofnun þjóðgarðsins er verið að færa skipulagsvaldið að hluta til stjórnunar- og verndaráætlana, slíkar áætlanir mega aldrei takmarka eða ganga á skipulagsvald sveitarfélaganna og er það ákvæði í frumvarpinu ekki nógu skýrt.
- Löng hefð er fyrir nýtingarétti á miðhálendinu eins og veiðirétti og upprekstrarrétti. Afar mikilvægt að svo verði áfram svo sátt náist um starfsemi þjóðgarðsins.
- Löng hefð er fyrir minka- og refaeyðingu og vargeyðingu í Mývatnssveit til að vernda lífríki náttúrunnar eins og kveðið er á um í stjórnar- og verndaráætlun Mývatns og Laxár. Ekkert er minnst á þetta í frumvarpinu. Afar mikilvægt er að minka-, refa- og vargeyðing verði áfram heimil svo sátt náist um starfsemi þjóðgarðsins.
- Tillögur að helstu áherslum í atvinnustefnu og greining tækifæra með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf á eftir að útfæra og þarf að gerast í samráði við sveitarfélögin. Það á einnig við um verndar- og nýtingaáætlun.
- Stærsti hluti lands innan miðhálendislínunnar eða um 85% er þjóðlenda og/eða þegar friðlýst svæði innan afmörkunarinnar, sem byggir á almennri afstöðu nefndarinnar. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps telur að ekki séu forsendur til að útvíkka mörk hálendisins umfram það sem nefndin leggur til á þessu stigi, án þess að útiloka frekar útvíkkun þegar fram líða stundir.
- Enginn virkjunarkostur í Skútustaðahreppi fellur innan afmörkunar miðhálendislínununnar sem er í nýtingaflokki en Hrúthálsar eru í biðflokki. Engu að síður er mikilvægt að benda á að nýting endurnýjanlegrar orku á hálendinu getur skipt máli fyrir þjóðarhag. Mikilvægt er að miðhálendisþjóðgarður hamli ekki áframhaldandi rekstri orkumannvirkja en samkvæmt gildandi rammaáætlun og skýrslu verkefnisstjórnunar 3. áfanga eru virkjunarkostir í nýtingaflokki. Mikilvægt er að meta þessa hluti heilstætt og þar með þau áhrif sem friðanir og friðlýsingar munu hafa á nauðsynlega auðlindanýtingu í þágu orkuvinnslu enda getur hún farið mjög vel saman við meginmarkmið friðunar að öðru leyti, enda sé gætt ítrustu mótvægisaðgerða. Tekið er undir að skynsamlegt er að skipta miðhálendisþjóðgarði í nokkra verndarflokka, ekki er andstætt IUCN flokkun að skilgreina orkuvinnslusvæði innan þjóðgarðs."

Sveitarstjórn staðfestir umsögnina samhljóða.

6. Umsókn um stöðuleyfi við skiljustöð 2 í Bjarnarflagi - 2001011

Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.
Tekið fyrir erindi dags. 10. janúar 2020 frá Bjarna Pálssyni f.h. Landsvirkjunar þar sem sótt er um leyfi til að koma fyrir gám við skiljustöð 2 í Bjarnarflagi. Gámurinn mun nýtast af rannsóknar- og þróunaraðilum til að kanna möguleika á framleiðslu á kísilríkum húð- og snyrtivörum fyrir innlenda og erlenda markaði úr affallsvatni. Aðstaðan verður notuð til þess að prófa íblöndun á skiljuvatni og náttúrulegum vökvum s.s. sjóvatni og grunnvatni, auk þess sem vökvar verða geymdir þar í lokuðum ílátum.
Sótt er um leyfi til að jarðvegsskipta og koma fyrir forsteyptum undirstöðum undir gám sem staðsettur verður vestan við skiljustöð 2. Sótt er um leyfi fyrir að koma fyrir gám og festa við undirstöður ásamt leyfi til að tengja 240V rafmagn, ferskvatn og skiljuvatn úr skiljustöð við gáminn ásamt affalli.
Meðfylgjandi umsókninni eru afstöðumynd af fyrirhuguðum gám og teikningar af gámnum.
Skipulagsnefnd leggst ekki gegn því að umsækjandi komi fyrir tímabundið gám við Skiljustöð 2 í Bjarnarflagi eins og tilgreint er í umsókn og leggur til við sveitarstjórn að byggingarfulltrúa verði falið að gefa út stöðuleyfi til 12 mánaða.
Leyfishafi ber ábyrgð á því að brunavarnir og aðgengi slökkviliðs séu fullnægjandi og aðgengi að nærliggjandi húsum sé ekki torveldað.
Handhafi stöðuleyfis ber einnig ábyrgð á því að lausafjármunirnir uppfylli ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, ákvæði laga um fráveitur og ákvæði laga, reglugerða og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í samræmi við byggingareglugerð nr. 112/2012.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að gefa út stöðuleyfi til 12 mánaða.

7. Umsókn um byggingarleyfi í Klettholti - 2001009

Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.
Tekin fyrir umsókn dags. 10. janúar 2020 frá Margréti Þórdísi Hallgrímsdóttur þar sem sótt er um byggingarleyfi fyrir 191,4 fm einbýlishúsi á lóðinni Klettholti í Vogum. Meðfylgjandi umsókninni er byggingarlýsing, grunnmynd, snið og ásýndir frá Faglausn ehf. ódagsett.

Þar sem ekkert deiliskipulag er til fyrir viðkomandi svæði staðfestir sveitarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar að fela skipulagsfulltrúa að grenndarkynna byggingaráformin fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum eins og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um þegar umsögn Umhverfisstofnunnar og Náttúruverndarnefndar Þingeyinga liggur fyrir skv. lögum um náttúruvernd nr. 60/2013.

8. Skipan öldungaráðs - 1902036

Samkvæmt 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skulu sveitarfélög sem samstarf hafa um öldrunarþjónustu, ásamt félögum eldri borgara á þjónustusvæðinu, koma sér saman um samsetningu öldungaráðs. Öldungaráði er ætlað að vera formlegur samráðsvettvangur um þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála innan sveitarfélagins. Sveitarstjórnir Norðurþings, Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps, Langanesbyggðar, Svalbarðshrepps og Tjörneshrepps eru með samning um sameiginlegt þjónustusvæði um almenna og sértæka félagsþjónustu þar sem Norðurþing er leiðandi sveitarfélag.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti á síðasta ári að óska eftir því við Norðurþing að fá að tilnefna fulltrúa sinn í sameiginlegt öldungaráð á þjónustusvæðinu.
Norðurþing hefur samþykkt að starfsemi þess verði útvíkkað og taki til alls svæðisins og hefur boðið öðrum sveitarfélögum að tilnefna aðal- og varamenn.
Lagðar fram tilnefningar frá Félagi eldri Mývetninga um fulltrúa Skútustaðahrepps í sameiginlegt öldungaráð.
Aðalamaður: Sigrún Jóhannsdóttir.
Varamaður: Ásdís Illugadóttir.

Sveitarstjórn staðfestir tilnefningarnar samhljóða.

9. Fasteignagjöld: Álagningarreglur 2020 - 1910038

Sveitarstjóri lagði fram tillögu að breytingu á innheimtu fasteignagjalda 2020 í ljósi þess að álagningu verður lokið á undan áætlun. Gjaldagar breytist og verði sem hér segir:
Gjalddagar fasteignagjalda umfram kr. 25.000 verði 10, sá fyrsti 1. febrúar 2020, í stað 1. mars eins og áður var búið að samþykkja.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

10. Staða fráveitumála - 1701019

Sveitarstjóri lagði fram tillögu að breytingu á Umbótaáætlun fráveitumála að beiðni Vogabús ehf. vegna veitingastaðar.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða breytinguna með fyrirvara um samþykki Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

11. Þjónustuskerðing í Víkurskarði - 2001027

Sveitarstjórn samþykki samhljóða að leggja fram eftirfarandi bókun:

"Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur vetrarþjónusta í Víkurskarði verið lækkuð úr þjónustuflokki 2 niður í 3 sem hefur í för með sér mun minni þjónustu en áður.
Þetta þýðir samkvæmt svari Vegagerðarinnar að í „mildu veðri þar sem ekki er mikil ofankoma og vindur, er vegurinn þjónustaður samkv. þjónustuflokki 3 og þjónusta hefst um kl. 07:30 og lýkur um kl. 20:00 á virkum dögum. Þegar færð fer að spillast og mikil snjósöfnun verður á vegum áskilur Vegagerðin sér rétt til þess að skerða þjónustu um Víkurskarð. Lokun á Víkurskarði skal vera þannig að þegar færð er farin að spillast og vindur er kominn í 10 m/sek með úrkomu og/eða skafrenningi, og veðurspáin er versnandi þá skal hætta mokstri. Ekki verður farið í opnun vegar fyrr en vindur er kominn niður fyrir 10 m/sek og veðurspá batnandi og úrkoma og skafrenningur eru hætt. Opnun á Víkurskarði nýtur ekki forgangs þannig að ef mikið álag er í snjómokstri þá ganga aðrar leiðir fyrir og opnun fer fram um leið og allar aðalleiðir eru orðnar færar. Tímasetningar hér að ofan eru miðaðar við meðal snjóalög. Í miklum snjó er gert ráð fyrir að opnun vega geti verið seinni en að ofan greinir.“

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mótmælir harðlega þessari þjónustuskerðingu Vegagerðarinnar. Vaðlaheiðagöng eru sannarlega mikil samgöngubót en allan tímann var því haldið á lofti að þjónusta í Víkurskarði yrði ekki skert með tilkomu ganganna. Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélögin við skerðingu á þjónustu í Víkurskarði. Með þjónustuskerðingunni er Vegagerðin að þvinga íbúa til þess að fara í gjaldtöku í göngunum og er þetta eina svæðið á landinu sem býr við slíkar aðstæður. Þessu er mótmælt harðlega og farið fram á að þjónusta í Víkurskarði verði færð aftur í þjónustuflokk 2."

12. Skýrsla sveitarstjóra - 1611024

Sveitarstjóri fór yfir og lagði fram skýrslu um helstu verkefni frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
Skýrslan verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

13. Skóla- og félagsmálanefnd: Fundargerðir - 1809011

Lögð fram 14. fundargerð skóla- og félagsmálanefndar dags. 15. janúar 2020. Fundargerðin er í 10 liðum.

14. Skipulagsnefnd: Fundargerðir - 1611022

Lögð fram 19. fundargerð skipulagsnefndar 14. janúar 2020. Fundargerðin er í 4 liðum og hafa liðir 2 og 3 þegar verið teknir til afgreiðslu í þessari fundargerð undir liðum 6 og 7.

15. Forstöðumannafundir: Fundargerðir - 1611048

Lögð fram 34. fundargerð frá forstöðumannafundi 21. janúar 2020.

 

Fundi slitið kl. 11:30.

  


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FUNDARGER?IR

Sveitarstjórn / 14. janúar 2021

52

Velferđar- og menningarmálanefnd / 5. janúar 2021

23. fundur

Umhverfisnefnd / 30. nóvember 2020

18. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 18. nóvember 2020

21. fundur

Landbúnađar- og girđinganefnd / 11. desember 2020

9. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 21. desember 2020

22. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar II/II

Sveitarstjórn / 16. desember 2020

51. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar I/II

Atvinnumálanefnd / 3. apríl 2020

9. fundur

Atvinnumálanefnd / 7. maí 2020

10. fundur

Atvinnumálanefnd / 4. júní 2020

11. fundur

Atvinnumálanefnd / 24. september 2020

12. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. október 2020

13. fundur

Atvinnumálanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. nóvember 2020

15. fundur

Atvinnumálanefnd / 11. desember 2020

16. fundur

Sveitarstjórn / 9. desember 2020

50. fundur

Sveitarstjórn / 27. nóvember 2020

49. fundur sveitarstjórnar

Skipulagsnefnd / 17. nóvember 2020

28. fundur skipulagsnefndar

Velferđar- og menningarmálanefnd / 3. nóvember 2020

21. fundur

Umhverfisnefnd / 11. nóvember 2020

17. fundur

Sveitarstjórn / 11. nóvember 2020

48. fundur sveitarstjórnar

Atvinnumála- og framkvćmdanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 21. október 2020

Skóla- og félagsmálanefnd

Skóla- og félagsmálanefnd / 21. október 2020

Skóla- og félagsmálanefnd

Sveitarstjórn / 28. október 2020

47. fundur

Sveitarstjórn / 7. október 2020

46. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 6. október 2020

20. fundur

Umhverfisnefnd / 5. október 2020

16. fundur