Mikilvćgt ađ halda inni ákvćđi um gestastofu í Mývatnssveit í lögum um Hálendisţjóđgarđ

  • Fréttir
  • 16. desember 2019

Á fundi sveitarstjórnar var lögð fram umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð. Umsögnin var send inn í samráðsgátt stjórnvalda 11. desember s.l. Í umsögn sveitarfélagsins segir m.a.:

„Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 segir í 16. gr. að megin starfsstöðvar þjóðgarðsins skulu staðsettar í Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustri, Hornafirði, Skaftafelli og Kirkjubæjarklaustri. Annað hvort er búið að byggja gestastofur eða undirbúningur er langt kominn (Kirkjubæjarklaustur), á öllum þessum stöðum, nema í Mývatnssveit. Um meginstarfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs er einnig fjallað um í reglugerð 608/2008 um Vatnajökuls-þjóðgarðs og í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Sveitarstjórn Skútustaða-hrepps leggur áherslu á að ef niðurstaðan verður sú að Vatnajökulsþjóðgarður renni inn í nýjan Hálendisþjóðgarð og þar með falli niður lög um Vatnajökulsþjóðgarð, þá er afar mikilvægt að halda inni ákvæði um gestastofu í Mývatnssveit í lögum um Hálendisþjóðgarð svo staðið verði við þau áform og loforð sem gefin voru um málið á sínum tíma. Sveitarstjórn hefur þegar bókað um mikilvægi gestastofu og hóf undirbúning að staðsetningu og þarfagreiningu fyrir ári síðan að ósk Vatnajökulsþjóðgarðs. Á 47. fundi svæðisráðs Vatnajökulsþjóðgarðs 2017 var bókað um mikilvægi gestastofu í Mývatnssveit sem og á stjórnarfundi Vatnajökulsþjóðgarðs 17. maí 2017.

Sveitarstjórn telur sameiningu Vatnajökulsþjóðgarðs og Hálendisþjóðgarðs  jákvætt skref en gangi hins vegar ekki nógu langt. Sveitarstjórn ítrekar fyrri umsagnir sínar þar sem lögð var áherslu á að ekki verði búin til ný stjórnsýslueining með Hálendisþjóðgarði heldur verði allir þjóðgarðar landsins sameinaðir undir einni stofnun og þar með eitt rekstrarsvæði þar sem sveitarfélögin eigi sína fulltrúa í stjórn þjóðgarðsins. Með því næst betri yfirsýn um rekstur þjóðgarðanna og önnur friðlýst svæði, stefnumótunin verður markvissari og betri tenging við sveitarfélögin í landinu. Mikilvægt er að staða annarra þjóðgarða verði metin saman í þessu samhengi. Því leggur sveitarstjórn áherslu á að þjóðgarðarnir á Þingvöllum og Snæfellsjökli falli einnig um Hálendisþjóðgarðinn þannig að úr verði ný sameiginleg og kraftmikil stofnun.“


Deildu ţessari frétt