Uppfćrđ Mannauđsstefna samţykkt

  • Fréttir
  • 16. desember 2019

Haustið 2017 samþykkti sveitarstjórn metnaðarfulla Mannauðsstefnu sveitarfélagsins. Hefur verið unnið markvisst eftir henni en þar var m.a. að finna siðareglur, móttökuáætlun fyrir nýja starfsmenn, launað frí síðasta mánuðinn fyrir barnshafandi konur, skilgreining og viðbragðsáætlun vegna eineltis og kynferðislegrar áreitni, vellíðan og öryggi, starfsmannasamtöl, jafnréttisáætlun, starfsþróun og  símenntun, heilsueflingu og ýmsar fleiri áætlanir, ferlar og reglur.

Í haust var samþykkt að endurskoða Mannauðsstefnuna. Rýnihópinn skipuðu sveitarstjóri, Elísabet Sigurðardóttir fulltrúi sveitarstjórnar, Jóhanna Jóhannesdóttir fulltrúi grunnskólans, Ingibjörg Helga Jónsdóttir fulltrúi leikskólans og Margrét Halla Lúðvíksdóttir fulltrúi hreppsskrifstofu.

Rýnihópurinn lagði fram drög að uppfærðri Mannauðsstefnu ásamt samskiptasáttmála og samgöngusamningi til umsagnar hjá starfsfólki sveitarfélagsins og í framhaldinu fyrir sveitarstjórn.  Á meðal nýrra atriða sem koma fram í Mannauðs-stefnunni eru vinnuverndarstefna, stefnur sem tengjast jafnrétti og jafnlaunavottun sveitarfélagsins, viðmiðunarreglur um auglýsingar um laus störf, samgöngusamningur o.fl. Uppfærð Mannauðsstefna byggir á gildum sveitarfélagsins sem eru jafnræði, jákvæðni, traust og virðing. Stefnan myndar skýra umgjörð um þau starfsskilyrði sem sveitarfélagið býður starfsmönnum sínum. Markmið stefnunnar er:

> Að samvinna verði á milli starfsmanna á öllum stigum starfseminnar og vellíðan á vinnustað, öryggi, þróun og jafnrétti þannig að ávallt megi laða hæfa umsækjendur að lausum störfum.

> Að jafnrétti kynjanna til starfa og í launum sé í heiðri haft.

Framtíðarsýn stefnunnar er:

> Að Skútustaðahreppur hafi á að skipa mannauði sem er í stakk búinn að sækja fram og ná árangri við framkvæmd stefnu sveitarfélagsins.

> Þjónustuvitund og góð vinnuskilyrði eru með þeim hætti að Skútustaðahreppur hafi ávallt á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum, sem geta veitt góða þjónustu og brugðist við síbreytilegum þörfum samfélagsins.

Uppfærð Mannauðsstefna var samþykkt samhljóða en hana er finna á heimasíðu sveitarfélagsins.


Deildu ţessari frétt