Fjárhagsáćtlun 2020: Áframhaldandi uppbygging og sérstaklega komiđ til móts viđ fjölskyldufólk og eldri borgara

 • Fréttir
 • 25. nóvember 2019

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti fjárhagsáætlun 2020-2023 á fundi sínum 13. nóv. s.l. við seinni umræðu. Í greinargerð með fjárhagsáætlunni kemur fram að síðustu ár hefur orðið talsverður viðsnúningur í rekstri sveitarfélagsins til hins betra sem hefur endurspeglað mikla uppbyggingu. Í ár var m.a. byggður nýr glæsilegur leikskóli og þrjár nýjar íbúðir keyptar, farið í gatnagerðarframkvæmdir, unnið samkvæmt umferðaröryggisáætlun auk ýmissa annarra framkvæmda, án þess að taka taka lán. Þá hefur sveitarfélagið haldið utan um byggingu safntanks á Hólasandi vegna nýrrar fráveitulausnar með fjárhagslegum stuðningi frá ríkinu. 

Fjárhagsáætlun Skútustaðahrepps 2020-2023 endurspeglar áframhaldandi viðsnúning í rekstri sveitarfélagsins til hins betra og ber þess merki að áframhaldandi uppbygging er fram undan. Hins vegar ber að hafa í huga ákveðna óvissu þegar kemur að þróun í ferðaþjónustu sem er langstærsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu.

Forgangsverkefni næsta árs eru stór og smá viðhaldsverkefni, gatnagerðarframkvæmdir og aukin þjónusta sveitarfélagsins þar sem markmiðð er að auka hamingju íbúanna. Áfram verður komið sérstaklega til móts við tvo hópa, þ.e. fjölskyldufólk og eldri borgara:

- Fjölskyldufólki með því að bjóða áfram upp á ókeypis skólamáltíðir í grunnskóla og leikskóla, ókeypis frístund og ritföng.

- Eldri borgurum með því að lækka fasteignagjöld verulega annað árið í röð. Í flestum tilfellum falla fasteignagjöld þeirra alveg niður því tekjuviðmið til niðurfellingar og afsláttar hækka verulega annað árið í röð.  

Fjárhagsáætlunin er unnin út frá markmiðum sem sveitarstjórn setti sér á 24. fundi þann 28. ágúst 2019 en þau eru:

Til viðbótar við fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga um jafnvægisreglu og skuldareglu, sbr. 64. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 2011, hefur sveitarstjórn Skútustaðahrepps sett sér eftirfarandi rekstrarleg markmið fyrir fjárhagsáætlun 2020-2023:

Rekstur  A-hluta  sveitarfélagsins  verði  í  jafnvægi,  þ.e.  skatttekjur  og  þjónustutekjur  standi  undir rekstri málaflokka og sjóða A-hluta. Jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A- og B-hluta, sem jafnframt standi undir framkvæmdum án lántöku. Engar vaxtatekjur verði nýttar til rekstrar, eingöngu til fjárfestinga eða til að auka við handbært fé Skútustaðahrepps. Sem þýðir þá að rekstrarafgangur þarf að vera meiri eða jafnmikill og vaxtatekjur. 

Almennar forsendur fjárhagsáætlunar:

 • Útsvar 14,52%
 • Fasteignaskattur A 0,625% af fasteignamati
 • Fasteignaskattur B 1,32% af fasteignamati
 • Fasteignaskattur C 1,65% af fasteignamati
 • Vatnsgjald 0,15% af fasteignagjaldi
 • Holræsagjald 0,225% af fasteignagjaldi
 • Lóðaleiga 10,50 pr. ferm
 • Almennar gjaldskrár: Almennt engin hækkun í A-hluta nema að sorphirðugjöld hækka um 2,5%.
 • Íbúafjöldi 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023
 • 1. des. 432 493 504 514 524 534 544 554

Þriggja ára rammaáætlun er á föstu verðlagi miðað við áætlun 2020 hvað varðar rekstrartekjur og rekstrargjöld og einungis áætluð áhrif magnbreytinga á rekstur og efnahag. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld byggja hins vegar á áætluðu verðlagi hvers árs samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands um áætlaða vísitölu neysluverðs.

Fjárhagsáætlun þessi hefur verið unnin af sveitarstjórn, sveitarstjóra, skrifstofustjóra, fastanefndum auk þess sem samráð var haft við forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og endurskoðanda.

Samkvæmt 64. gr. sveitarstjórnarlaga skulu samanlögð útgjöld vegna rekstrar A-og B hluta ekki vera hærri en sem nemur reglulegum tekjum á hverju þriggja ára tímabili.

Heildartekjur samstæðunnar (A og B hluta) eru áætlaðar 602,2 m.kr. á næsta ári, þar af nemi tekjur A-hluta 559,0 m.kr. Rekstrargjöld samstæðu fyrir fjármagnsliði nemi 544,5 m.kr., þar af nemi rekstrargjöld A-hluta 521,4 m.kr. Fjármagnsliðir nettó, þ.e fjármagnstekjur nemi 1,6 milljónum. Rekstrarniðurstaða samstæðu verði jákvæð um 59,3 m.kr., þar af verði rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 39,4 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðu nemi 110,4 m.kr. sem verður nýtt til fjárfestinga/ framkvæmda. Handbært fé frá rekstri samstæðu nemi 108,8 m.kr. Veltufjárhlutfall er 1,37 og eiginfjárhlutfall 0,83. Sveitarfélagið greiðir engin langtímalán. Framlegðarhlutfall A og B hluta er áætlað 16,1%. Ekki er gert ráð fyrir nýjum langtímalántökum á árinu.

Fjárfestingaáætlun 2020:

Helstu framkvæmdir næsta árs verða stórar viðhaldsframkvæmdir við íþróttahús og grunnskóla, malbikunarframkvæmdir í Klappahrauni, breytt aðkoma að skólum og íþróttamiðstöð, breyting á fráveitu í Skjólbrekku, mótframlag vegna annars áfanga við gerð göngu- og hjólreiðastígs, endurnýjun stofnlagna hitaveitu, ledvæðing ljósastaura, stækkun leikskólalóðar, breyting á aðkomu við grunnskóla og íþrótta-miðstöð, fráveituverkefni, verkefni sem komu eftir ábendingar frá íbúum í gegnum samráðsgátt eins og leiktæki við Skjólbrekku, gerð göngustígs frá Helluhrauni að Kjörbúð o.fl.

Aðrar áherslur fjárhagsáætlunar:

 • Ráðinn verður fjölmenningarfulltrúi í 20% starf í samstarfi við Þingeyjarsveit og Norðurþing.
 • Áframhaldandi þróun Hamingjuverkefnisins með sértækari aðgerðum.
 • Ókeypis skólamáltíðir í leik- og grunnskóla.
 • Áfram verður boðið upp á ókeypis frístunda-þjónustu eftir að skólatíma lýkur hjá grunnskól-anum og jafnframt upp á ókeypis ritföng.
 • Áfram verður boðið upp á upp á ókeypis akstur í félagsstarf eldri borgara.
 • Unnið að verkefni í moltugerð.
 • Börn til 16 ára aldurs fá ókeypis í sund á Laugum.
 • Skipulagðar rútuferðir í sundlaugina á Laugum einu sinni í mánuði.
 • Gerð nýs aðalskipulags.
 • Deiliskipulagsvinna við Skjólbrekku.
 • Reykjahlíðarskóli verður áfram tölvuvæddur o.fl.
 • Greining á möguleikum til útvíkkunar hitaveitunnar.
 • Unnið verður eftir Lýðheilsustefnu og Jafnréttisáætlun sveitarfélagsins.
 • Unnið verður eftir umhverfisstefnu sveitarfélagsins.
 • Unnið verður eftir menningarstefnu sveitarfélagsins.
 • Unnið verður eftir skólastefnu sveitarfélagsins.
 • Unnið verður eftir húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.
 • Unnið verður eftir Mannauðsstefnu sveitafélagsins.
 • Unnið verður Umferðaröryggisáætlun sveitarfélagsins.
 • Unnið verður eftir Persónuverndarstefnu sveitarfélagsins.

Óvissuþættir sem gætu haft áhrif á fjárhagsáætlunina er þróun samningaviðræðna við landeigendur vegna hitaveitumála, kjarasamningar hjá flestum stéttarfélögum eru lausir og svo þróun ferðaþjónustunnar.

Fjárhagsáætlun 2021-2023:

Í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir jafnvægi í rekstri og jákvæðri afkomu samstæðunnar á öllum árum áætlunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir lántökum á tímabilinu og því verður unnið að hagræðingu í rekstri með það að markmiði að halda áfram átaki í viðhaldi og uppbyggingu innviða sveitarfélagsins. Þó ber þess að geta að nokkur óvissa ríkir um fjárfestingar og viðhald og verður fjárfestingaþörfin því endurmetin árlega á gildistíma áætlunarinnar.

Komið til móts við eldri borgara og öryrkja:

Álagningarreglur fasteignagjalda verða að óbreyttar á milli ára nema að fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði, sem eigandi býr í, skal felldur niður/ lækkaður hjá elli- og örorkulífeyrisþegum samkv. eftirfarandi reglum:

 • 100% lækkun:
 • Einstaklingar með tekjur allt að 5.410.000 kr.
 • Samskattaðir aðilar með tekjur allt að 7.546.950 kr.
 • 80% lækkun:
 • Einstaklingar með tekjur á bilinu 5.410.001 til 6.221.500 kr.
 • Samskattaðir aðilar með tekjur á bilinu 7.546.951 til 8.385.500 kr.
 • 50% lækkun:
 • Einstaklingar með tekjur á bilinu 6.221.501 til 7.227.760 kr.
 • Samskattaðir aðilar með tekjur á bilinu 8.385.501 til 8.926.500 kr.

Miðað er við tekjuárið 2018.

Þetta þýðir að í flestum tilfellum falla fasteignagjöld þeirra alveg niður því tekjuviðmið til niðurfellingar og afsláttar hafa verið hækkuð ríflega annað árið í röð.

Við þetta má bæta að tekjuviðmið vegna heimaþjónustu hafa einnig hækkað sem þýðir að gjaldskráin lækkar.

Engar hækkanir á gjaldskrá nema sorpþjónustu:

Sveitarstjórn samþykkti að engar hækkanir verði á almennum gjaldskrám sveitarfélagsins í A-hluta sveitarsjóðs eins og leikskólagjöldum, gjaldskrám tónlistarskólans, heimaþjónustu eldri borgara, bókasafns, Skjólbrekku, hunda- og kattahalds og íþróttamiðstöðvar sem jafnframt hefur verið breytt lítillega. Jafnframt verði áfram ókeypis skólamáltíðir fyrir grunn- og leikskólabörn, ókeypis frístund og ritföng eins og á síðasta ári. Ákvörðunin er liður í því að ná markmiðum lífskjarasamnings stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins en þar var miðað við að gjaldskrár hækkuðum að hámarki um 2,5%. Eina gjaldskrá A-hlutans sem lagt er til að verði hækkuð er sorphirðugjaldið um 2,5% vegna aukins kostnaðar. Gjaldskrár B-hluta eru flestar óbreyttar en sumar taka mið af vísitöluhækkunum.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 18. maí 2020

Nýr og fullkominn slökkvibíll

Fréttir / 7. maí 2020

Dagskrá 39. fundar sveitarstjórnar

Fréttir / 28. apríl 2020

Ertu í leit ađ sumarstarfi 2020?

Fréttir / 16. apríl 2020

Dagskrá 38. fundar sveitarstjórnar