23. fundur

 • Sveitarstjórn
 • 28. ágúst 2019

23. fundur sveitarstjórnar haldinn  að Hlíðavegi 6,  28. ágúst 2019 og hófst hann kl. 09:15

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson oddviti, Elísabet Sigurðardóttir aðalmaður, Halldór Þorlákur Sigurðsson aðalmaður, Dagbjört Bjarnadóttir aðalmaður, Friðrik K. Jakobsson varamaður, Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri, .

Fundargerð ritaði:  Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri

       Dagskrá:

Í upphafi fundar lagði oddviti til að eftirfarandi málum yrði bætt við að dagskrá með afbrigðum:
1901010 - Samkomulag - Aðgengi barna og ungmenna að sundlauginni að Laugum
1611024 - Skýrsla sveitarstjóra
Samþykkt samhljóða að bæta málunum við á dagskrá undir dagskrárliðum 22 og 23 og færast aðrir dagskrárliðir til sem því nemur.

1. Fjárhagsáætlun: 2020-2023 - 1908002

Sveitarstjóri lagði fram vinnu- og tímaáætlunin fyrir fjárhagsáætlun 2020 og þriggja ára rammaáætlun 2021-2023. Áætlunin byggir á því að fyrri umræða fari fram í sveitarstjórn 23. október n.k. og seinni umræða 13. nóvember 2019.

Sveitarstjórn samþykkir áætlunina samhljóða.

2. Rekstraryfirlit: Janúar-júní 2019 - 1908019

Sveitarstjóri gerði grein fyrir rekstraryfirliti Skútustaðahrepps og stofnana fyrir tímabilið janúar til mars 2019. Reksturinn er að mestu leyti í samræmi við fjárhagsáætlun.

3. Þjóðskrá Íslands: Fasteignamat 2020 - 1908020

Þjóðskrá Íslands hefur tilkynnt um endurmat fasteigna sem tekur gildi 31. desember 2019.

Fram kemur að breyting á heildarfasteignamati í Skútustaðahreppi er hækkun um 8,2%, þar af íbúðarhúsnæði um 6,5%, atvinnueignir um 12,8% og frístundabyggð 15,9%.

4. Umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga - 1908022

Lögð fram sameiginleg umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps og sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023:

"Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafa þegar tekið ákvörðun um og hafið viðræður um sameiningu sveitarfélaganna. Samstarfsnefnd sveitarfélaganna er að störfum og stefnt er að atkvæðagreiðslu á vormánuðum ársins 2021. Vinnuheiti verkefnisins er Þingeyingur, sem er vísun til þess sem sameinar íbúa sveitarfélaganna.
Verkefnið Þingeyingur er í fullu samræmi þá framtíðarsýn sem sett er fram í þingsályktunartillögunni. Að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.
Verkefnið byggir á þeirri sýn sveitarstjórnanna að framtíð samfélagsins byggi á aukinni sjálfbærni stjórnsýslu, samfélags, atvinnulífs og í umhverfismálum.
Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar lýsa sig mótfallnar lögþvinguðum sameiningum sveitarfélaga og benda á að þær samræmast ekki markmiðum þingsályktunartillögunar um að bæta aðkomu almennings að ákvarðanatöku og stefnumótun á sveitarstjórnarstigi. Sveitarstjórnirnar hafa því tekið af skarið og ákveðið að bjóða íbúum Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar að greiða atkvæði um sameiningu sveitarfélaganna tveggja.
Sveitarfélögin eru nú þegar bæði undir skuldaviðmiði því sem markmið eru sett um í tillögu ráðherra. Að óbreyttu fengu því sveitarfélögin lítinn stuðning úr Jöfnunarsjóði, verði sameiningin samþykkt. Sveitarstjórnirnar fara fram á að sveitarfélög sem þegar uppfylla skilyrði hljóti umbun með einhverjum hætti.
Með sameiningu Skútustaðarhrepps og Þingeyjarsveitar yrði til samfélag sem nær yfir um 12% öllu landi á Íslandi, með yfir 1400 íbúa og mikla sérstöðu á sviði náttúruverndar og auðlindanýtingar og mikla möguleika á atvinnusköpun sem byggist á sjálfbærni. Þessa möguleika hafa sveitarstjórnirnar hug á að nýta og hafa hrint úr vör verkefni undir heitinu „Nýsköpun í norðri“ sem ætlað er að skapa víðtæka sátt um sjálfbæra stefnu á meðal íbúa og atvinnulífs.
Ætlun sveitarfélaganna tveggja er að vinna að verkefninu í nánu samstarfi við íbúa og hagsmunaaðila, þ.á.m. Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Matís og aðrar ríkisstofnanir sem hlut eiga að máli. Verkefnið er kjörinn vettvangur til að raungera markmið um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni t.d. í umhverfis-, orku- og matvælaumsýslu ríkisins og styrkja atvinnugrundvöll í nýsameinuðum sveitarfélögum, eins og kveðið er á um í lið 11 í aðgerðaáætluninni.
Í lið 1 í Aðgerðaáætlun 2019-2023 um stærð sveitarfélaga er sett fram markmið um að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni með því að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnar-kosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026. Verði sameining sveitarfélaganna samþykkt er markmiðunum náð. Þessu markmiði til stuðning eru í lið 2 sett markmið um aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaga, meðal annars með breyttum úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Sveitarstjórnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar benda á mikilvægi þess að við setningu nýrra reglna verði horfið frá þeirri ofuráherslu sem verið hefur á jöfnun skulda við úthlutun fjármagns til sameiningarverkefna og horft til þess í meira mæli að fjármagni sé veitt til þróunarverkefna sem styðja við framtíðarsýn stefnunnar um öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Markmið um sjálfbærni félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta samfélagsins og um að þróa aðferðir, verklag og leiðir til að hagnýta stafrænar lausnir sem gera íbúum kleift að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun fyrir nærsamfélagið verður ekki náð nema til komi sérstakur stuðningur.
Sú áhersla sem verið hefur á skuldajöfnun virðist byggð á þeirri hugsun að sameining sveitarfélaga sé neyðarlausn fyrir skuldsett sveitarfélög, sem sveitarstjórnunum þykir röng og ósanngjörn gagnvart sveitarfélögum sem hafa gætt aðhalds í rekstri og greitt niður skuldir.
Sveitarstjórnirnar benda jafnframt á að mikilvægt er að aukinn stuðningur við sameiningar verði fjármagnaður með nýjum tekjustofnum til handa Jöfnunarsjóði sveitarfélaga svo hann komi ekki niður á þeirri þjónustu sem núverandi tekjur hans eiga að standa undir."

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkir umsögnina samhljóða fyrir sitt leyti.

5. Umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um Grænbók, um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi - 1908015

Lögð fram umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um Grænbók, stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi. Umsögnin var send inn í samráðsgátt stjórnvalda 16. ágúst s.l.

"Vísað er til máls nr. S-197/2019 í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem óskað er eftir umsögn um drög að grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi.
Drögin eru í hróplegu ósamræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þess efnis að opna nýja gátt inn í landið. Orðrétt segir í stjórnmálasáttmálanum: „Huga þarf að möguleikum til að opna fleiri hlið inn til landsins og fjölga þannig þeim svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.“
Starfshópur sem hafði það hlutverk að móta tillögur um uppbyggingu flugvallakerfisins á Íslandi og eflingu innanlandsflugs sem almenningssamgangna skilaði skýrslu til Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þann 4. desember s.l. Þar segir m.a. að „mikilvægi öryggishlutverks varaflugvalla tengt millilandaflugi aukist og nauðsynlegt að taka tillit til breyttra aðstæðna á grundvelli þróunarinnar undanfarin ár.“
Hvergi er minnst á uppbyggingu alþjóðafarþegaflugs nema í Keflavík sem stangast á við niðurstöður og tillögur starfshópsins um innanlandsflug. Þar er lagt til að alþjóðaflugvellirnir fjórir; í Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum, verði skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn.
Í tillögum starfshópsins um eflingu innanlandsflug segir m.a. „að frá og með 1. janúar 2020 verði millilandaflugvellirnir, Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og Isavia ohf. falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra. Samhliða þarf að skilgreina þjónustustig Isavia á flugvöllunum í eigandastefnu fyrir félagið.“
Í skýrslunni um eflingu innanlandsflugsins er gert ráð fyrir að ríkisaðstoð við innanlandsflugvellina verði heimil í fyrirsjáanlegri framtíð á grundvelli þess að þjónustan hafi almenna efnahagslega þýðingu en engu að síður er tekið mið af þeirri stefnu ESB að draga úr ríkisaðstoð við flugvelli, einkum þá stærri flugvelli.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps leggur engu að síður áherslu á að nauðsynleg uppbygging varaflugvalla verði m.a. fjármögnuð með fjármagni frá rekstri Keflavíkurflugvallar, slíkt myndi hafa veruleg jákvæð áhrif á nauðsynlega uppbyggingu annarra millilandaflugvalla. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll og Egilstaðaflugvöll. Fjárfesting í þessum flugvöllum myndi gera þá betur í stakk búna til að taka við meira millilandaflugi.
Stefna stjórnvalda er að auka dreifingu ferðamanna um landið og því vekur furðu að við uppbyggingu Keflavíkurflugvallar er hvergi minnst á góða tengingu við aðra minni flugvelli á Íslandi. Skilvirkt tengiflug innanlands við Keflavíkurflugvöll hlýtur að vera grunnforsenda fyrir því að hægt sé að auka dreifingu ferðamanna um landið.
Með því að byggja upp fleiri alþjóðaflugvelli á Íslandi er jafnframt verið að mæta kröfum um þá þjónustu og afköst sem varaflugvellir landsins þurfa að geta mætt. Það að ætla að byggja upp flugvelli einungis sem varaflugvelli er í besta falli vond fjárfesting. Með því að byggja upp samhliða aukna millilandaumferð á viðkomandi flugvöllum, nýtast fjárfestingarnar í innviðunum mun betur og skapa aukin tækifæri í ferðaþjónustu og öðrum greinum tengdum flugrekstri á viðkomandi svæðum. Þessu til viðbótar
Í drögunum er lagt til að stuðningur við uppbyggingu á öðrum alþjóðaflugvöllum fari fyrst og fremst í gegnum Flugþróunarsjóð. Hlutverk Flugþróunarsjóðs er að styðja við flugrekendur sem vilja hefja flug inn á þessa staði með þátttöku í markaðssetningu og öðrum ívilnunum (sjá nánar um markmið sjóðsins í starfsreglum hans, 1.gr. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f3b4706d-ecba-11e8-942f-005056bc4d74 ). Tekið er undir umsögn Mývatnsstofu ehf. þar segir að að þetta hvatakerfi hafi reynst mikilvægt til þess að koma á fót því flugi sem nú þegar er hafið. Það er hins vegar ekki hlutverk Flugþróunarsjóðs að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu og viðhald á þessum flugvöllum, enda hefur Flugþróunarsjóður ekki fjármagn til slíkra hluta. Þess vegna er ekki hægt að einskorða aðkomu ríkisins að uppbyggingu flugvallanna við starfsemi Flugþróunarsjóðs.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps þakkar fyrir að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um málið og ítrekar að fá að koma áfram að ferli þessa máls gagnvart nefndinni."

Sveitarstjórn staðfestir umsögnina.

6. Umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á Miðhálendinu - 1908008

Lögð fram umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á Miðhálendinu. Umsögnin var send inn í samráðsgátt stjórnvalda 13. ágúst s.l.

"Vísað er til máls nr. S-135/2019 í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem óskað er eftir umsögnum nefndar sem vinnur að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Rétt er að koma því á framfæri að nefndin hefur haft gott samráð við sveitarstjórnir á þessu svæði við vinnslu málsins.
Fyrirætlanir um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu fela í raun í sér viðamiklar friðunaraðgerðir. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps er jákvæð gagnvart stofnun slíks þjóðgarðs en telur mikilvægt að eftirfarandi sé haft til hliðsjónar varðandi áframhaldandi vinnu:
- Um er að ræða stofnun þjóðgarðs sem tekur til um þriðjungs af flatarmáli landsins og því eru miklir hagsmunir í húfi og mikilvægt að vandað sé til verka og samráð haft í hvívetna á öllum stigum. Afar mikilvægt er að aðkoma heimamanna og hagsmunaaðila sé skýr og tryggð hvað varðar stækkun þjóðgarða.
- Mikilvægt er að skipulagsvald sveitarfélaga verði virt. Með stofnun þjóðgarðsins er verið að færa skipulagsvaldið að hluta til stjórnunar- og verndaráætlana, slíkar áætlanir mega aldrei takmarka eða ganga á skipulagsvald sveitarfélaganna.
- Tryggja þarf fjármagn í innviðauppbyggingu og uppbyggingar með tímasettri áætlun.
- Sveitarstjórn leggur áherslu á að ekki verði búin til ný stjórnsýslueining heldur verði þjóðgarðar landsins sameinaðir undir einni stofnun og þar með eitt rekstrarsvæði þar sem sveitarfélögin eigi sína fulltrúa í stjórn þjóðgarðsins. Með því næst betri yfirsýn um rekstur þjóðgarðanna, stefnumótunin verður markvissari og betri tenging við sveitarfélögin í landinu. Mikilvægt er að staða annarra þjóðgarða verði teknar saman í þessu samhengi.
- Löng hefð er fyrir nýtingarétti á miðhálendinu eins og veiðirétti og upprekstrarrétti. Afar mikilvægt að svo verði áfram svo sátt náist um starfsemi þjóðgarðsins.
- Nefndinni er m.a. ætlað að koma með tillögur að helstu áherslum í atvinnustefnu og greina tækifæri með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf ásamt því að skilgreina mörk þjóðgarðsins. Í textagerðinni er ekkert komið inn á atvinnustefnu sem hlýtur að vera eitt af grundvallarþáttunum, skoða þarf þann þátt mun ítarlegra.
- Í textadrögunum vantar kort sem sýna stöðu skipulagsmála í sveitarfélögunum, sem er afar mikilvægt því afmörkun þjóðgarðsins er ekki nógu skýr hvað það varðar. Mikilvægt er að meta kosti og galla þjóðgarðsins í tengslum við atvinnu- og skipulagsmál áður en skilgreining á mörkum þjóðgarðsins er römmuð inn. Verður að teljast nokkur einföldun að draga mörkin við þjóðlendurnar.
- Tekið er undir umsögn norðursvæðis VJÞ sem styður hugmyndir um nýjar þjóðgarðsgáttir við Fosshól og í Mývatnssveit sem reknar yrðu samhliða þeirri sem fyrir er í Ásbyrgi. Hins vegar er mikilvægt að tryggja sveitarfélögunum aðild að slíkri ákvarðanatöku.
- Stærsti hluti lands innan miðhálendislínunnar eða um 85% er þjóðlenda og/eða þegar friðlýst svæði innan afmörkunarinnar, sem byggir á almennri afstöðu nefndarinnar. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps telur að ekki séu forsendur til að útvíkka mörk hálendisins umfram það sem nefndin leggur til á þessu stigi, án þess að útiloka frekar útvíkkun þegar fram líða stundir.
- Enginn virkjunarkostur í Skútustaðahreppi fellur innan afmörkunar miðhálendislínununnar sem er í nýtingaflokki en Hrúthálsar eru í biðflokki. Engu að síður er mikilvægt að benda á að nýting endurnýjanlegrar orku á hálendinu getur skipt máli fyrir þjóðarhag. Mikilvægt er að miðhálendisþjóðgarður hamli ekki áframhaldandi rekstri orkumannvirkja en samkvæmt gildandi rammaáætlun og skýrslu verkefnisstjórnunar 3. áfanga eru virkjunarkostir í nýtingaflokki. Mikilvægt er að meta þessa hluti heilstætt og þar með þau áhrif sem friðanir og friðlýsingar munu hafa á nauðsynlega auðlindanýtingu í þágu orkuvinnslu enda getur hún farið mjög vel saman við meginmarkmið friðunar að öðru leyti, enda sé gætt ítrustu mótvægisaðgerða. Tekið er undir að skynsamlegt er að skipta miðhálendisþjóðgarði í nokkra verndarflokka, ekki er andstætt IUCN flokkun að skilgreina orkuvinnslusvæði innan þjóðgarðs.
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps þakkar fyrir að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um málið og ítrekar að fá að koma áfram að ferli þessa máls gagnvart nefndinni."

Sveitarstjórn staðfestir umsögnina samhljóða.

7. Tillaga að friðlýsingu svæðis í verndarflokki rammaáætlunar til kynningar - 1908003

Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir véku af fundi vegna vanhæfis. Alma Dröfn Benediktsdóttir og Arnþrúður Dagsdóttir varamenn komu inn á fundinn undir þessum lið. Dagbjört Bjarnadóttir tók við stjórn fundarins.
Tekið fyrir erindi frá Umhverfisstofnun dags. 23. júlí 2019 þar sem kynnt er tillaga að friðlýsingu svæðis í verndarflokki rammaáætlunar. Í 53 gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 segir að svæði sem falla í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar sem Alþingi hefur samþykkt skuli friðlýsa gagnvart orkuvinnslu og að friðlýsingin skuli fela í sér að orkuvinnsla er óheimil á viðkomandi svæði.
Ekki er gert ráð fyrir að sérstök umsjón eða landvarsla verði á þeim svæðum sem friðlýst verða með þessum hætti.
Tillaga að friðlýsingu nær til svæðisins Gjástykki. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 30. október n.k. Skipulagsnefnd hefur þegar tekið málið fyrir og ákvað að fresta afgreiðslu. Umhverfisstofnun óskar eftir að erindið verði einnig kynnt náttúruverndarnefnd sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa erindinu til umfjöllunar umhverfisnefndar Skútustaðahrepps og náttúruverndarnefndar Þingeyinga til umfjöllunar áður en sveitarstjórn veitir endanlega umsögn. Jafnframt er vakin athygli á misræmi annars vegar í auglýsingu um friðlýsingu og hins vegar tillögu að friðlýsingu.

8. Umhverfisstofnun - Umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um stefnu í úrgangsmálum - 1908027

Alma og Arnþrúður fóru af fundi og Helgi og Elísabet tóku sæti sín á ný, Helgi tók við stjórn fundarins.
Lögð fram fyrstu drög að umsögn sveitarfélagsins Skútustaðahrepps um tillögu Umhverfisstofnunar að nýrri stefnu um meðhöndlun úrgangs fyrir landið allt.

Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra og formanni umhverfisnefndar að ljúka við umsögn sveitarfélagsins í samræmi við umræður á fundinum.

9. Minnisblað - Fundur með Vegagerðinni - 1908018

Lagt fram minnisblað frá fundi fulltrúa sveitarfélagsins með Vegagerðinni 15. ágúst s.l.
Lögð fram eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps ítrekar fyrri samþykktir sínar um að gera þarf verulegt átak í að lagfæra héraðsvegi í sveitarfélaginu, í samræmi við Umferðaröryggisáætlun Skútustaðahrepps. Þeir eru flestir í mjög slæmu ásigkomulagi. Þó ber að fagna efni sem keyrt var í tvo tengivegi nú í ágúst sem voru illa farnir sem og viðgerð á klæðningu á þjóðveginum við Mývatn.
Sveitarstjórn lýsir jafnframt yfir miklum vonbrigðum með að Vegagerðin hyggst ekki þjónusta Hólasandsveg og Dettifossveg næsta vetur. Verður að teljast með ólíkindum að um leið og búið er að leggja bundið slitlag á Hólasandsveg skuli öll vetrarþjónusta skorin niður. Hólasandsvegur gegnir einnig veigamiklu öryggishlutverki fyrir Mývetninga. Sveitarstjórn skorar á Vegagerðina að endurskoða þessa ákvörðun.
Þá hefur ferðaþjónustan ítrekað kvartað yfir því að Dettifossvegur skuli ekki vera mokaður nema tvisvar sinnum á ári. Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að tryggja fjármagn til þjónustu allt árið um kring við Dettifossveg. Sú þjónusta verður enn mikilvægari þegar búið verður að klára veginn frá Dettifossi og að Ásbyrgi. Ekki verður við það unað að sá vegur verði ekki mokaður yfir vetrartímann, enda sú framkvæmd til þess gerð að tryggja og efla samgöngur um Norðurland allan ársins hring. Þá mótmælir sveitarstjórn því einnig að Víkurskarð verður ekkert þjónustað í vetur og tíminn verður styttur sem þjóðvegur 1 verður opinn í vetrarfærð.

Sveitarstjórn samþykkir bókunina samhljóða.

10. Framsýn stéttarfélag - Erindi vegna kjarasamningsgerðar - 1908010

Lagt fram erindi Framsýnar stéttarfélags 2. júlí 2019 og svo ítrekun á því erindi þann 7. ágúst s.l. Einnig lagt fram svarbréf sveitarstjóra.
Sveitarstjórn ítrekar, líkt og fram kemur í bréfi sveitarstjóra, að Samband íslenskra sveitarfélaga fer með fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu. Sveitarfélagið Skútustaðahreppur veitti samninganefndinni fullnaðarumboðið í desember s.l. Í því felst að sveitarfélaginu er óheimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð og skuldbindur sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins.

Það er jafnframt einlæg von sveitarfélagsins Skútustaðahrepps að samningsaðilar nái saman og leysi þá deilu sem uppi er sem fyrst.

11. Gísli Rafn Jónsson: Kæra vegna útboðs skólaaksturs - 1806031

Lagt fram bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu dags. 25. júlí 2019 þar sem tilkynnt er um stjórnsýslukæru Gísla Rafns Jónssonar er varðar útboð Skútustaðahrepps á skólaakstri frá 24. maí 2019. Erindinu var upphaflega beint til kærunefndar útboðsmála en vísað frá. Ráðuneytið tilkynnti kæranda að eftirlit með framkvæmd útboða og annarra opinberra innkaupa fellur almennt utan stjórnsýslueftirlits ráðuneytisins en það geti þó ákveðið að taka til skoðunar hvort gætt hafi verið að almennum reglum stjórnsýsluréttar við ákvörðunartöku í tengslum við innkaup sveitarfélaga. Óskaði ráðuneytið eftir umsögn sveitarfélagsins vegna þessa og var skilafrestur á umsögn sveitarfélagsins til 16. ágúst s.l.

Lögð fram umsögn sveitarfélagsins vegna málsins þar sem því er hafnað að sveitarfélagið hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar við útboðið.

12. Skútustaðahreppur: Samþykkt um fráveitu - 1808013

Ný samþykkt um fráveitu lögð var samþykkti við síðari umræðu sveitarstjórnar 23. janúar 2019, fyrri umræðan fór fram 22. ágúst 2018. Samþykkt þessi gildir um fráveitu í Skútustaðahreppi eins og hún er skilgreind í 3. tl. 3. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og nær til allra fasteigna, íbúðarhúsnæðis, sumarbústaða, stofnana og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Markmið samþykktar þessarar er að skýra skyldur sveitarfélagsins og notenda hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir, tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið, skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna og stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna. Samþykktinni er einnig ætlað að ná utan um nýja lausn á fráveitumálum í Mývatnssveit sem er aðskilnaður svartvatns og grávatns þar sem svartvatn er nýtt til uppgræðslu á Hólasandi.
Samþykktin var send til umhverfis- og auðlindaráðuneytis til staðfestingar og hefur ráðuneytið komið með nokkrar ábendingar til skoðunar. Þá leggur sveitarstjóri til breytingu á 46. gr.
Uppfærð samþykkt um fráveitu lögð fram.

Sveitarstjórn samþykkir uppfærða fráveitusamþykkt samhljóða.

13. Skútustaðahreppur - Samþykkt um kjör fulltrúa - 1908023

Lögð fram samþykkt um kjör fulltrúa Sveitarfélagsins Skútustaðahrepps vegna funda og ráðstefna. Samþykkt þessi byggir á samþykktum um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skútustaðahrepps nr. 690/2013 og er tilgangurinn að samræma verklag og greiðslur og staðfesta núverandi fyrirkomulag. Ekki er um hækkanir að ræða.

Sveitarstjórn samþykkir samþykktina samhljóða með áorðnum breytingum.

14. Flugleiðahótel ehf - Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 1908025

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 24.5 2019 þar sem Aðalgeir Ásvaldsson f.h. Flugleiðahótela ehf vegna Icelandair hótel Mývatn, sækir um rekstrarleyfi í flokki IV, gististaður með áfengisveitingum.

Sveitarstjórn staðfestir jákvæða umsögn sveitarstjóra og gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa, heilbrigðiseftirlitinu og eldvarnareftirlitinu sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

15. Flugleiðahótel ehf - Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi v. Gamla bæjarins - 1908028

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 23.5 2019 þar sem Aðalgeir Ásvaldsson f.h. Flugleiðahótela ehf vegna Icelandair hótel Mývatn - Gamli bærinn, sækir um rekstrarleyfi í flokki II, umfangslitlir áfengisveitingastaðir.

Sveitarstjórn staðfestir jákvæða umsögn sveitarstjóra og gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa, heilbrigðiseftirlitinu og eldvarnareftirlitinu sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

16. Hlíð ferðaþjónusta ehf - Umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi - 1908024

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 24. júlí 2019 þar sem Gísli Sverrisson f.h. Hlíð ferðaþjónustu ehf. sækir um breytingu á gildandi rekstrarleyfi, nr. LG-REK-010971, rekstrarleyfi í flokki II, gististaður án veitinga. Um er að ræða viðbót á gistirými, 25 ferm. smáhýsi fyrir tvo.

Sveitarstjórn frestar afgreiðslu þar sem ekki hefur verið gefið út byggingaleyfi fyrir smáhýsið.

17. Landeigendafélag Reykjahlíðar ehf; Kæra vegna uppgjörs Hitaveitu Reykjahlíðar - 1810035

Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir véku af fundi vegna vanhæfis. Alma Dröfn Benediktsdóttir og Arnþrúður Dagsdóttir varamenn komu inn á fundinn undir þessum lið. Dagbjört Bjarnadóttir tók við stjórn fundarins.
Lagt fram bréf frá Guðmundi Péturssyni hrl. fyrir hönd Landeigendafélags Reykjahlíðar ehf. í kjölfar þess að bæði héraðsdómur og Landsréttur vísuðu kæru félagsins frá vegna uppgjörs leigugreiðslna samkvæmt hitaveitusamningi milli Skútustaðahrepps og landeigenda Reykjahlíðar frá 1971. Niðurstaða Landsréttar var að málið ætti undir gerðardóm en ekki almenna dómstóla.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra og lögmanni sveitarfélagsins að skipa gerðarmann og vinna að rekstri málsins fyrir gerðardómi.

18. Beiðni um umsögn - Hótel í landi Grímsstaða - 1908005

Alma og Arnþrúður fóru af fundi og Helgi og Elísabet tóku sæti sín á ný, Helgi tók við stjórn fundarins.
Tekið fyrir erindi frá Skipulagsstofnun dags. 23. júlí 2019 þar sem óskað er eftir að Skútustaðahreppur gefi umsögn um hvort og á hvaða forsendum bygging hótels á jörðinni Grímsstaðir skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 60/2000. Einnig er óskað eftir því að komi fram, eftir því sem við á, hvaða leyfi framkvæmdin er háð og varðar starfssvið umsagnaraðila.
Í bókun sveitarstjórnar þann 12. október 2016 kemur m.a. fram að nægjanlega væri gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun. Jafnframt kom fram það álit sveitarstjórnar að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í umsögninni kom fram að lögð væri áhersla á að leyfi til reksturs hótelsins yrði ekki gefið út fyrr en sýnt væri fram á að virkni hreinsibúnaðar á fráveitukerfi væri samkvæmt hönnunarforsendum og lögð yrði fram áætlun um reglubundna vöktun búnaðarins.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunnar dags. 2.11.2016 var umrædd framkvæmd ekki talin háð mati á umhverfisáhrifum en með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (UUA) dags. 06.07.2017, var matsskylduákvörðun felld úr gildi. Þá liggur fyrir að hinar tilkynntu framkvæmdir hafa farið fram og hótelið verið í rekstri í um þrjú ár.
Tilgreindur úrskurður UUA um ógildingu á fyrri matsskylduákvörðun hvílir í meginatriðum á því að ekki hafi legið fyrir nægjanleg gögn um framkvæmdina, þ.m.t. að ekki hafi verið aflað umsagna frá aðilum með þekkingu á umhverfi Mývatns.
Uppfærð tilkynningarskýrsla dags. 28.05.2019 liggur fyrir og þar er gerð fyllri grein fyrir upplýsingum um náttúrufar, ferðamenn og upplýsingar um fráveitu. Þá fylgja með gögn um mælingar á fráveitu. Í ljósi þess að framkvæmdin hefur farið fram liggur fyrir frekari vitneskja um umhverfisáhrif framkvæmdar, en almennt gildir, og þá sérstaklega upplýsingar um fráveitukerfi framkvæmdarinnar. Jafnframt er tekið fram að frá því fyrri matsskylduákvörðun var til umfjöllunar hefur staða fráveitumála í Skútustaðahreppi verið til sérstakrar skoðunar og forsendur til greiningar á áhrifum einstakra framkvæmda því betri.

Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulagsnefndar að umfjöllun í tilkynningarskýrslu er fullnægjandi. Þá er ítrekað að byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir framkvæmdinni af hálfu Skútustaðahrepps, en eftir atvikum gæti frekari leyfisveiting sveitarfélagsins vegna framkvæmdarinnar varðað breytingar á framkvæmdinni ef einhverjar yrðu.
Með vísan til gagna málsins og með tilliti til 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, þar sem fram koma viðmiðanir varðandi mögulega matsskyldu, staðfestir sveitarstjórn samhljóða álit skipulagsnefndar að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

19. Beiðni um umsögn - Jarðböðin við Mývatn - 1908004

Dagbjört Bjarnadóttir vék af fundi vegna vanhæfis, Alma Dröfn tók sæti sem varamaður.
Tekið fyrir erindi frá Skipulagsstofnun dags. 30. júlí 2019 þar sem óskað er eftir að Skútustaðahreppur gefi umsögn um hvort og á hvaða forsendum bygging nýs þjónustu- og baðhúss ásamt stækkun baðlóns skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 60/2000. Einnig er óskað eftir því að komi fram, eftir því sem við á, hvaða leyfi framkvæmdin er háð og varðar starfssvið umsagnaraðila.

Sveitarstjórn tekur undir bókun skipulagsnefndar, með fjórum atkvæðum en Halldór situr hjá, að umfjöllun í tilkynningarskýrslu er fullnægjandi. Þar er vel gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun. Þá er vísað til þess að sveitarfélagið hefur nýlega samþykkt deiliskipulag sem varðaði starfsemi á svæðinu vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Við umhverfismat deiliskipulagsins var því fjallað ítarlega og með sértækum hætti um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, þótt sú umfjöllun hafi hvílt á lögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana og almennum málsmeðferðarreglum skipulagslaga. Sveitarfélagið er leyfisveitandi vegna byggingarleyfis/framkvæmdaleyfis framkvæmdarinnar. Með vísan til gagna málsins og með tilliti til 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, þar sem fram koma viðmiðanir varðandi mögulega matsskyldu, staðfestir sveitarstjórn álit skipulagsnefndar að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

20. Lóð fyrir eldsneytissölu - 1908009

Alma Dröfn fór af fundi en Dagbjört tók sæti sitt á ný.
Sveitarstjórn hefur ákveðið að eldsneytissala verði færð af miðsvæði Reykjahlíðar. Fyrirhugað er að auglýsa nýtingu á fyrirhugaðri lóð að Sniðilsvegi 3 eða annarri hugsanlegri staðsetningu utan verndarsvæðis Mývatns og Laxár.
Tekin fyrir drög að auglýsingu þar sem auglýst er til umsóknar fyrirhuguð lóð fyrir eldsneytissölu í Skútustaðahreppi.

Sveitarstjórn samþykkir auglýsinguna og skilmála hennar þar sem auglýst er til umsóknar fyrirhuguð lóð fyrir eldsneytissölu í Skútustaðahreppi.

21. Tónlistarskólinn á Akureyri - Umsókn um nám - 1706020

Lagt fram bréf dags. 12.8.2019 frá Tónlistarskólanum á Akureyri þess efnis að sveitarfélagið Skútustaðahreppur greiði kennslukostnað Friðriks Páls Haraldssonar í grunnnámi í píanó þar sem Friðrik er með lögheimili í Skútustaðahreppi. Hægt er að sækja um slíkt í samræmi við samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga endurgreiðir kennsluskostnaðinn að hluta. Skilyrði er að fyrir liggi staðfesting um að námið verði metið til eininga í framhaldsskóla.

Sveitarstjórn hafnar erindinu þar sem umsækjandi er ekki í framhaldsskólanámi í vetur samkvæmt upplýsingum frá Tónlistarskólanum á Akureyri.

22. Samkomulag; Aðgengi barna og ungmenna að sundlauginni að Laugum - 1901010

Lagt fram minnisblað yfir ókeypis sundferðir sem sveitarfélagið bauð upp á einu sinni í mánuði á vorönn í sundlaugina á Laugum.
Alls voru farnar 5 ferðir, þeir sem nýttu sér rútuferðirnar voru samtals 46 manns. Heildarkostnaður við rútuferðirnar var 250.000 kr. Við bætist kostnaður að upphæð 125.000 kr. samkvæmt samkomulagi við Þingeyjarsveit á ársgrundvelli um aðgengi að sundlauginni.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að halda áfram að bjóða upp á ókeypis sundferðir í sundlaugina á Laugum einu sinni í mánuði fram að áramótum, enda rúmast það innan fjárheimildar ársins.
Jafnframt er velferðar- og menningarmálanefnd falið að útfæra aksturinn í samræmi við reynslu vorannar.

23. Skýrsla sveitarstjóra - 1611024

Sveitarstjóri fór yfir og lagði fram skýrslu um helstu verkefni frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
Skýrslan verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

24. Skipulagsnefnd: Fundargerðir - 1611022

Lögð fram fundargerð 14. fundar skipulagsnefndar dags. 20. ágúst 2019. Fundargerðin er í 8 liðum.
Liðir 4, 5, 6 og7 hafa þegar verið teknir til afgreiðslu í þessari fundargerð sveitarstjórnar undir liðum 7, 18, 19 og 20.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.

25. Landbúnaðar- og girðinganefnd: Fundargerðir - 1612009

Lögð fram fundargerð 5. fundar landbúnaðar- og girðinganefndar dags. 15.8.2019 lögð fram. Fundargerðin er í tveimur liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

26. Skóla- og félagsmálanefnd: Fundargerðir - 1809011

Lögð fram fundargerð 10. fundar skóla- og félagsmálanefndar dags. 21.9.2019. Fundargerðin er í 7 liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina.

27. Samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga - 1905032

Lagðar fram fundargerðir frá 1. og 2. fundi samstarfsnefndar um sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar dags. 20. júní og 21. ágúst 2019.

28. Forstöðumannafundir: Fundargerðir - 1611048

Lögð fram fundargerð frá forstöðumannafundi 20. ágúst 2019.

29. Dvalarheimili aldraðra: Fundargerðir - 1702003

Lagðar fram fundargerðir frá 7. og 8. stjórnarfundi Dvalarheimilis aldraðra sf. dags. 26. júní og 20. ágúst 2019.
Einnig lögð fram fundargerð frá aðalfundi Dvalarheimilis aldraðra sf. dags. 26. júní 2019.

30. Nefnd um endurbygging sundlaugar: Fundargerðir - 1905011

Lögð fram þriðja fundargerð frá stýrihópi vegna endurbyggingar sundlaugar í Reykjahlíð dags. 26. júní 2019.

31. EYÞING: Fundargerðir - 1611006

Lagðar fram fundargerðir 322. og 323. stjórnarfunda Eyþings dags. 25. júní og 13. ágúst 2019.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 11:30


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FUNDARGER?IR

Velferđar- og menningarmálanefnd / 6. apríl 2021

26. fundur velferđar- og menningarmálanefndar

Umhverfisnefnd / 8. apríl 2021

21. fundur umhverfisnefndar

Sveitarstjórn / 16. apríl 2021

58. fundur sveitarstjórnar

Skóla- og félagsmálanefnd / 17. mars 2021

24. fundur skóla- og félagsmálanefndar

Atvinnumála- og framkvćmdanefnd / 11. mars 2021

18. fundur atvinnumála- og framkvćmdanefndar

Atvinnumála- og framkvćmdanefnd / 11. mars 2021

18. fundur atvinnumála- og framkvćmdanefndar

Sveitarstjórn / 25. mars 2021

57. fundur sveitarstjórnar

Skipulagsnefnd / 16. mars 2021

33. fundur skipulagsnefndar

Umhverfisnefnd / 2. mars 2021

20. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 2. mars 2021

25. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 2. febrúar 2021

24. fundur

Sveitarstjórn / 11. mars 2021

56. fundur. sveitarstjórnar

Skipulagsnefnd / 11. mars 2021

32. fundur skipulagsnefndar

Umhverfisnefnd / 25. febrúar 2021

19. fundur Umhverfisnefndar

Skóla- og félagsmálanefnd / 25. febrúar 2021

23. fundur skóla- og félagsmálanefnd

Skóla- og félagsmálanefnd / 27. janúar 2021

22. fundur

Skipulagsnefnd / 16. febrúar 2021

31. fundur skipulagsnefndar

Sveitarstjórn / 24. febrúar 2021

55. fundur sveitarstjórnar

Sveitarstjórn / 11. febrúar 2021

54. fundur sveitarstjórnar

Atvinnumála- og framkvćmdanefnd / 21. janúar 2021

17. fundur

Sveitarstjórn / 28. janúar 2021

53. fundur

Skipulagsnefnd / 19. janúar 2021

30. fundur skipulagsnefndar

Atvinnumálanefnd / 24. janúar 2021

17. fundur

Sveitarstjórn / 14. janúar 2021

52. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 5. janúar 2021

23. fundur

Umhverfisnefnd / 30. nóvember 2020

18. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 18. nóvember 2020

21. fundur

Landbúnađar- og girđinganefnd / 11. desember 2020

9. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 21. desember 2020

22. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar II/II

Nýjustu fréttir

Skokk- og gönguhópur Mývatnssveitar.

 • Fréttir
 • 14. apríl 2021

ÍMS opnar á fimmtudaginn 15. apríl

 • Fréttir
 • 13. apríl 2021

Hakkaţon um helgina

 • Fréttir
 • 13. apríl 2021

Vinnuskóli sumariđ 2021

 • Fréttir
 • 12. apríl 2021

58. fundur sveitarstjórnar

 • Fréttir
 • 12. apríl 2021

Páskaleikur ÍMS

 • Fréttir
 • 26. mars 2021