20. fundur

  • Sveitarstjórn
  • 21. maí 2019

20. fundur sveitarstjórnar haldinn  að Hlíðavegi 6, 21. maí 2019 og hófst hann kl. 09:15.

Fundinn sátu:

Helgi Héðinsson oddviti, Elísabet Sigurðardóttir aðalmaður, Sigurður Böðvarsson varaoddviti, Halldór Þorlákur Sigurðsson aðalmaður, Dagbjört Bjarnadóttir aðalmaður, Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri, .

Fundargerð ritaði:  Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri

       Dagskrá:

Í upphafi fundar lagði oddviti til að bæta við einu máli á dagskrá með afbrigðum:
Grænbók, stefna um málefni sveitarfélaga - 1905029
Samþykkt samhljóða að bæta málinu við á dagskrá undir dagskrárlið nr. 15 og færast aðrir liðir til sem því nemur.

1. Skútustaðahreppur: Ársreikningur 2018 - 1905001 - Seinni umræða

Ársreikningur Skútustaðahrepps og stofnana hans fyrir árið 2018 er tekinn til síðari umræðu. Vísað er til yfirferðar endurskoðenda við fyrri umræðu þann 8. maí síðastliðinn. Engar breytingar hafa orðið á ársreikningnum frá fyrri umræðu. Endurskoðendur Skútustaðahrepps hafa áritað ársreikninginn með fyrirvaralausri áritun.
Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta Skútustaðahrepps er 174,5 milljónir króna í afgang en áætlun gerði ráð fyrir 64,2 milljónum króna í rekstrarafgang. Rekstrarniðurstaða A-hluta er að fjárhæð 186,4 milljón króna. Áætlun gerði ráð fyrir 55,1 milljónum króna í rekstrarafgang.
Helstu frávik í rekstri samantekinna reikningsskila A og B hluta eru að útsvar og fasteignaskattur eru 6,0 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir, framlög Jöfnunarsjóðs eru 1,9 milljónum króna hærri en áætlun, aðrar tekjur eru 12,6 milljónum króna lægri en áætlun, laun og launatengd gjöld eru 38,4 milljónum króna hærri en áætlun, annar rekstrarkostnaður er 42,5 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru 198,4 milljónum króna hagstæðari en áætlun gerði ráð fyrir. Afskriftir eru 3,1 milljón króna hærri en áætlað var.
Heildareignir í samanteknum reikningsskilum A og B hluta eru 804,3 milljónir króna. Heildarskuldir og skuldbindingar eru 199,3 milljónir króna. Lífeyrisskuldbinding hækkar frá árinu 2017 og nemur 79,9 milljónum króna og þar af er áætluð næsta árs greiðsla 1,7 milljónir króna. Sveitarfélagið greiddi upp langtímaskuldir við fjármálastofnanir að fullu á síðasta ári. Skuldahlutfall A- og B-hluta skv. 2. tl. 64. gr. sveitarstjórnarlaga nemur 37,4% af reglulegum tekjum. Eigið fé í samanteknum reikningsskilum er 605,0 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 75,2%.
Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 22,2 milljónum króna í veltufé frá rekstri sem er 4,2% af heildartekjum en áætlun gerði ráð fyrir veltufé frá rekstri að fjárhæð 101,5 milljón króna.
Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í samanteknum reikningsskilum A og B hluta nam á árinu 2018 124,9 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 114,9 milljónum króna. Handbært fé í árslok 2018 var 142,6 milljónir króna.

Sveitarstjórn staðfestir ársreikninginn samhljóða með undirritun sinni. Ábyrgðar- og skuldbindingayfirlit staðfest og undirritað. Ársreikningurinn verður aðgengilegur á heimasíðu sveitarfélagsins að fundi loknum. Sveitarstjóra falið að senda ársreikninginn til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

2. Rekstraryfirlit: Janúar-mars 2019 - 1905020

Sveitarstjóri gerði grein fyrir rekstraryfirliti Skútustaðahrepps og stofnana fyrir tímabilið janúar til mars 2019. Reksturinn er að mestu leyti í samræmi við fjárhagsáætlun.

3. Veiðifélag Laxár og Krákár - Umsókn um rekstrarleyfi til sölu gistingar - 1905019

Lögð fram umsagnarbeiðni frá sýslumanninum á Norðurlandi eystra, dags. 6. apríl 2018 þar sem Birgir Steingrímsson f.h. Veiðifélags Laxár og Krákár sækir um rekstrarleyfi til gistingar í flokki IV, gististaður með áfengisveitingum.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við veitt rekstrarleyfi með fyrirvara um að jákvæðar umsagnir berist frá skipulags- og byggingarfulltrúa, heilbrigðiseftirlitinu og eldvarnareftirlitinu sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 67/2016, um breytingu á lögum nr. 85/2007.

4. Leigufélagið Hvammur ehf: Ósk um áframhaldandi stuðning við félagið - 1804038

Leigufélag Hvamms ehf. - ósk um áframhaldandi stuðning við félagið, a.m.k. út yfirstandandi rekstrarár (2018).
Viðvarandi taprekstur hefur verið hjá Leigufélaginu Hvammi á liðnum árum og miðað við fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2019 verður áfram tap á rekstri þess. Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi fyrir árið 2018 kemur fram í efnahagsreikningi félagins að eigið fé félagsins er neikvætt um 55,4 mkr., sem að mestu er tilkomið vegna virðisrýrnunar á fasteignum félagsins á árinu 2014. Eiginfjárhlutfall félagsins er neikvætt um 27,5% auk þess sem veltufjárhlutfall félagsins í árslok er einungis 0,83. Félagið reiðir sig því á stuðning frá eigendum sínum til að tryggja áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins a.m.k. út yfirstandandi rekstrarár (2019).
Þess er því óskað að eigendur félasins lýsi því yfir skriflega að þeir muni styðja við félagið a.m.k. út yfirstandandi rekstrarár og þar með leggja grunn að forsendum reikningsskila félagsins sem miðast við áframhaldandi rekstur.
Stjórnendur félagsins munu á núverandi rekstrarári áfram leita leiða til þess að finna lausn á viðvarandi taprekstri félagsins.

Eignarhlutur Skútustaðahrepps í leigufélaginu Hvammi ehf. er 6,63%.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að sveitarfélagið styðji við félagið út yfirstandandi rekstrarár.

5. Fjöregg - Ályktanir aðalfunds - 1904048

Lagðar fram ályktanir aðalfundar Fjöreggs, félags um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, dags. 4. apríl 2019.
Fyrri ályktunin snýr að tveimur starfshópum sveitafélagið hefur sett á laggirnar á sviði umhverfismála sem Fjöregg fagnar. Annar starfshópurinn vinnur að því að hefta útbreiðslu ágengra plantna en hinn skipuleggur nýtingu lífræns úrgangs frá heimilum og stofnunum sveitarfélagsins. Bæði viðfangsefnin hafa verið Fjöreggsfólki hugleikin. Sjálfboðaliðar á vegum félagsins hafa síðustu sumur aðstoðað Umhverfisstofnun í baráttunni við kerfil í eyjum í Mývatni og víðar í sveitinni og einnig við að halda lúpínu í skefjum á verndarsvæðinu norðan við Sandvatn ytra. Fjöregg bindur miklar vonir við störf þessara tveggja hópa að mikilvægum verkefnum fyrir náttúru og samfélag í sveitarfélaginu.
Í síðari ályktun Fjöreggs er sveitarstjórn hvött til þess að leita leiða til að takmarka flug dróna í sveitinni.

Sveitarstjórn þakkar stjórn Fjöreggs fyrir ályktanirnar og gott samstarf í umhverfismálum. Varðandi ályktun um dróna er bent á reglugerð nr. 990/2017 um starfrækslu fjarstýrðra loftfara. Þar segir m.a. í 12. gr. að Samgöngustofu er heimilt að skilgreina tiltekin svæði, þ. á m. svæði innan þéttbýlis, sem svæði þar sem bannað er að fljúga fjarstýrðu loftfari og skulu þau svæði auglýst á vef Samgöngustofu.
Samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að afla nánari upplýsinga hjá Samgöngustofu og Umhverfisstofnun í samræmi við umræður á fundinum.

6. Samband ísl. sveitarfélaga - Lög um opinber innkaup - 1904045

Lagt fram til síðari umræðu breytingar á innkaupareglum Skútustaðahrepps sem eru í samræmi við lög um opinber innkaup nr. 120/2016 sem taka að fullu gildi gagnvart sveitarfélögum frá og með 31. maí 2019.

Sveitarstjórn samþykkir breytingarnar samhljóða.

7. Deiliskipulagsbreyting Reykjahlíðar, lóð við Múlaveg - 1903017

Tekið fyrir að nýju erindi Skútustaðahrepps þar sem lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi þéttbýlis Reykjahlíðar frá Teiknistofu arkitekta Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf dagsett dags. 13. mars 2019 vegna breytinga á skilmálum um lóðina Múlaveg 11 um að þar megi byggja hvort sem er einbýlishús eða parhús og mænisstefnu á íbúðarlóðum við Múlaveg 5, 7, 9 og 11 er breytt í samræmi við núverandi hús á lóðum 5 og 9. Einnig er afmörkuð lóð nr. 4 við götu b (nú Sniðilsvegur) fyrir dælubrunn og dæluhús fyrir fráveitumannvirki.
Sveitarstjórn staðfesti á fundi sínum þann 27. mars s.l. að um minniháttar breytingu á skipulagi væri að ræða og fól skipulagsfulltrúa málsmeðferð.
Fyrirhuguð óveruleg breyting á deiliskipulagi þéttbýlis Reykjahlíðar var grenndarkynning fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynning fór fram frá 8. apríl til og með 6. maí og bárust engar athugasemdir við breytingartillöguna.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulagsnefndar um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi þéttbýlis Reykjahlíðar þar sem ekki komu athugasemdir í grenndarkynningu.
Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar eins og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um.

8. Landsnet - Ósk um gerð deiliskipulags á Hólasandi - 1901015

Tekið fyrir að nýju erindi frá Árna Jóni Elíassyni f.h. Landsnets dags 11. janúar 2019 þar sem óskað var eftir heimild til að nýta ákvæði 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga 123/2010 um að Landsnet láti vinna á sinn kostnað tillögu að deiliskipulagi fyrir nýju tengivirki á Hólasandi. Tengivirkið er í tengslum við lagningu Hólasandslínu 3, 220 kV háspennulínu milli Akureyrar og Hólasands.
Þann 23. janúar 2019 samþykkti sveitarstjórn að auglýsa skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðs deiliskipulags. Skipulagslýsingin var kynnt fyrir umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi þar sem þeim var gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið og ábendingar sem að gagni gætu komið við gerð deiliskipulagsins og var athugasemdafrestur frá 31. janúar 2019 til 21. febrúar 2019. Athugasemdir/umsagnir við skipulagslýsinguna bárust frá Landsvirkjun, Minjastofnun, Náttúruverndarnefnd Þingeyinga, Landgræðslunni, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.
Á fundi skipulagsnefndar þann 16. apríl var uppfærð tillaga að deiliskipulagi fyrir tengivirki Hólasandi, greinargerð og skipulagsuppdráttur dags. 10. apríl 2019 frá Verkís kynnt. Í uppfærðri tillögu hafði verið tekið mið af athugasemdum/umsögnum sem bárust. Skipulagsfulltrúa var falið að kynna tillöguna, forsendur hennar og umhverfismat fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum eins og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mælir fyrir um. Tillagan var kynnt á opnu húsi hjá skipulagsfulltrúa þann 13. maí 2019.
Engar athugasemdir komu fram við tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir tengivirki á Hólasandi á opnum kynningarfundi sem haldinn var.

Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu.
Sveitarstjórn staðfestir samhljóða bókun skipulagsnefndar og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir tengivirki á Hólasandi samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

9. Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir göngu- og hjólastíg - 1905010

Erindi frá sveitastjóra f.h. Skútustaðahrepps dags. 13.05.2019 þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir göngu- og hjólastíg frá Reykjahlíð og suður fyrir Voga. Meðfylgjandi eru lang- og þversnið af fyrirhuguðum stíg.
Stígurinn er um 3 km langur og mun liggja meðfram vegi nr. 848 að mestu en meðfram þjóðvegi 1 að hluta. Fyrirhugaður stígur verður að mestu lagður í núverandi lagnaleið.

Í samræmi við tillögu skipulagsnefndar samþykkir sveitarstjórn samhljóða umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu göngu- og hjólastígs frá Reykjahlíð og suður fyrir Voga þegar leyfi Umhverfisstofnunnar og Vegagerðarinnar liggur fyrir.
Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við fyrirliggjandi drög að framkvæmdaleyfi, reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og einnig 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

10. Umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Sandskarðsnámu - 1905009

Tekið fyrir erindi frá stjórn Landeigenda í Vogum dags. 08.05.2019 f.h. landeigenda í Voga þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Sandskarðsnámu. Sótt er um efnistöku á allt að 50.000 m3 á innan við 25.000 m2 svæði samkvæmt meðfylgjandi gögnum.
Fyrirhugað efnistökusvæði er merkt með númeri 377-E á gildandi aðalskipulagi og er fyrirhuguð efnistaka í samræmi við gildandi skipulag.
Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur skipulagsnefnd Skútustaðahrepps farið yfir tilkynningu framkvæmdaraðila. Nefndin telur að fyrirhuguð efnistaka úr Sandskarðsnámu sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í samræmi við tillögu skipulagsnefndar samþykkir sveitastjórn erindið samhljóða og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið skv. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og einnig 13. -16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

11. Breyting á deiliskipulagi þéttbýlis í Reykjahlíð - verslun og þjónusta - 1903015

Sveitastjórn samþykkti á fundum sínum 27. mars s.l. að tillögu skipulagsnefndar að skipulögð yrði ný lóð fyrir bensínafgreiðslu í Reykjahlíð. Sveitarstjóri fór yfir tillögur sem fram hafa komið vegna skipulags við nýja lóð fyrir eldsneytissölu.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulagsnefndar að gera breytingu á deiliskipulagi þéttbýlis Reykjahlíðar þar sem stofnuð verður ný lóð að Sniðilsvegi 3 fyrir eldsneytissölu. Einnig verði stærðir á lóðum að Múlavegi 2 og 4 leiðréttar í samræmi við gildandi lóðarblöð.

12. Landsnet - Umsókn um framkvæmdaleyfi Kröflulínu 3 - 1808003

Helgi Héðinsson og Elísabet Sigurðardóttir véku af fundi vegna vanhæfis og varamennirnir Friðrik Jakobsson og Alma Dröfn Benediktsdóttir tóku sæti þeirra. Sigurður Guðni varaoddviti tók við stjórn fundarins.
Erindi dags. 14. maí 2019, sbr. erindi dags 11. júlí 2018 frá Þórarni Bjarnasyni verkefnisstjóra, f.h. Landsnets, þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 3, 220 kV háspennulínu.
Erindið var tekið fyrir í skipulagsnefnd 17.5.2019. Eftirfarandi er afgreiðsla skipulagsnefndar:

,,Skipulagsnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Svæðisskipulags háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007-2025.
Skipulagsnefnd telur að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við Aðalskipulag Skútustaðahrepps 2011-2023, sbr. m.a. breytingu vegna Kröflulínu 3 sem staðfest var af Skipulagsstofnun 6. maí 2019.
Þá er framkvæmdin í samræmi við deiliskipulagið Stækkun Kröfluvirkjunar, staðfest 14.11.2013, sbr. breytingu samþykkt í sveitarstjórn dags. 27. mars 2019, auglýstri í B-deild stjórnartíðinda, dags. 14.05.2019. Hluti framkvæmdar er innan þess svæðis.
Skipulagsnefnd hefur kynnt sér matsskýrslu framkvæmdar og álit Skipulagsstofnunar, dags. 6.12.2017, um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar: Kröflulína 3. Með vísan til framkvæmdalýsingar er um að ræða hina umhverfismetnu framkvæmd.
Í áliti Skipulagsstofnunar er fjallað um áhrif framkvæmdarinnar innan marka Skútustaðahrepps einkum varðandi svæði vestast á framkvæmdasvæðinu sem fellur undir vatnsvernd og jarðmyndanir sem njóta sérstakrar verndar, þ.e. nútímahraun. Þá er fjallað um neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á nær allri línulögn varðandi landslag og mögulega einnig ferðaþjónustu og útivist. Skipulagsstofnun nefnir að draga megi úr áhrifum framkvæmdarinnar vegna þessara þátta með því að leggja línuna í jörð. Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram sú afstaða að ekki hafi komið til samþætt greining á því hvaða jarðstrengskaflar skuli vera í forgangi á línuleiðinni.
Tekið er undir sjónarmið sem fram koma í áliti Skipulagsstofnunar, en jafnframt áréttað að umsótt framkvæmd varðar háspennulínur í lofti sem samræmist skipulagsáætlunum, sem hafa verið umhverfismetnar. Þá skiptir máli að um þá tegund framkvæmda sem umsókn varðar gilda sérlög sem fjalla um stöðu jarðstrengja sem valkosts og stöðu skipulagsáætlana. Í 9. gr. c. í raforkulögum nr. 65/2003 er m.a. kveðið á um að sveitarstjórnum beri að tryggja að skipulagsákvarðanir hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Í 9. gr. a. er lagagrundvöllur fyrir kerfisáætlun þar sem gert er ráð fyrir umsóttri framkvæmd. Fjallað var um framkvæmdina í kerfisáætlun Landsnets hf. 2015-2024, sem samþykkt var af Orkustofnun 25. apríl 2016. Þá er fjallað um hana í nýrri kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027 sem var samþykkt af Orkustofnun, dags. 18.1.2019. Kerfisáætlun hvílir á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, samþykktri 11. júní 2018, þar sem m.a. koma fram viðmið um hvenær jarðstrengir koma til álita. Í áætluninni er m.a. fjallað um að lengd jarðstrengs á línuleið Kröflulínu 3 geti að hámarki verið 15 km og nýting þess svigrúms takmarki möguleika jarðstrengslagna á leiðinni frá Blönduvirkjun til Fljótsdalsstöðvar, en jarðstrengsvalkostur í nágrenni við Akureyrarflugvöll hefur t.a.m. verið talinn njóta forgangs, sbr. stefnur stjórnvalda. Þá hafa skipulagsáætlanir þeirra sveitarfélaga sem Kröflulína 3 nær til og varða fyrirkomulag línulagnar verið kynntar hverju sveitarfélagi og ljóst að málsmeðferð framkvæmdaleyfisumsóknar Kröflulínu 3 fer fram samhliða í sveitarfélögunum.
Þá er í áliti Skipulagsstofnunar fjallað um tengsl framkvæmdarinnar við stöðu núverandi byggðalínu og óvissuþætti varðandi endurnýjun hennar í framtíðinni. Í breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps vegna Kröflulínu 3, komu þessi sjónarmið m.a. til umfjöllunar við skipulagsvinnuna. Jafnframt var þar fjallað um stöðu hverfisverndarsvæðanna Hv-311 og Hv-350 vegna framkvæmdarinnar.
Þá er í álit Skipulagsstofnunar fjallað um stöðu framkvæmdar vegna náttúruverndar. Með vísan til 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga er gætt að þeim þáttum. Framkvæmdin liggur að hluta yfir svæði þar sem er nútímahraun. Umsótt framkvæmd hefur verið umhverfismetin og ekki er óvissa um áhrif framkvæmdar. Sú vinna hefur hvílt á því markmiði að forðast rask á eldhraunum, þó í því ljósi að slíkt rask er nauðsynlegt vegna markmiða að baki framkvæmd og jarðfræðilegum staðháttum í Skútustaðahreppi.
Þá er framkvæmdin jafnframt að hluta innan vatnasviðs Mývatns, sem nýtur tiltekinnar verndar skv. 4. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður Þingeyjarsýslu. Ljóst er að sú staða er nauðsynleg með vísan til markmiða að baki framkvæmd og legu Kröflu innan vatnasvæðis Mývatns. Byggt er á því að fyrirkomulag framkvæmda innan svæðis taki mið af sambærilegum kröfum og gilda um vatnsverndarsvæði Austaraselslinda, þar sem framkvæmdir liggja innan vatnasviðs Mývatns.
Lagaskilyrði eru til útgáfu umsótts framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umsókn Landsnets vegna Kröflulínu 3 verði samþykkt og jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Í framkvæmdaleyfi verði m.a. gerð frekari grein fyrir kröfum til framkvæmda vegna vatnsverndar, sbr. fyrirliggjandi drög."

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu og bókun skipulagsnefndar. Jafnframt verði skipulagsfulltrúa falið að gefa út framkvæmdaleyfið í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Í framkvæmdaleyfi verði m.a. gerð frekari grein fyrir kröfum til framkvæmda vegna vatnsverndar, sbr. fyrirliggjandi drög.

Friðrik og Alma véku af fundi og Helgi og Elísabet tóku sæti sín á ný og Helgi tók við stjórn fundarins.

13. Starfshópur - Lífrænn úrgangur - 1811051

Málinu frestað þar sem það á eftir að fá frekari umfjöllun í umhverfisnefnd.

14. Viðmiðunarreglur um leiguhúsnæði - 1905017

Lagðar fram viðmiðunarreglur við úthlutun á leiguhúsnæði í eigu sveitarfélagsins til starfsmanna þess.

Sveitarstjórn samþykkir viðmiðunarreglurnar samhljóða.

15. Grænbók, stefna um málefni sveitarfélaga - 1905029

Í samráðsgátt stjórnvalda hefur verið birt Grænbók, stefna um málefni sveitarfélaga. Sumarið 2018 var með lögum nr. 53/2018 bætt við sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011, ákvæðum um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Samkvæmt þeim skal ráðherra sveitarstjórnarmála leggja að minnsta kosti á þriggja ára fresti fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði. Um er að ræða nýmæli sem er hliðstæð annarri áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Meginmarkmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga er að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Jafnframt að setja fram leiðarljós um hvert stefna skuli í málefnum sveitarstjórnarstigsins með eflingu þess og sjálfbærni að markmiði. Umsagnarfrestur er til 3. júní n.k.

Sveitarstjórn samþykkir að senda inn umsögn og felur sveitarstjóra og oddvita að senda inn greinargerð í samræmi við umræður á fundinum.

16. Úthlutun leiguhúsnæðis - 1905018

Bókun færð í trúnaðarmálabók.

17. Skýrsla sveitarstjóra - 1611024

Sveitarstjóri fór yfir og lagði fram skýrslu um helstu verkefni frá síðasta sveitarstjórnarfundi.
Skýrslan verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

18. Skipulagsnefnd: Fundargerðir - 1611022

Lögð fram fundargerð 11. fundar skipulagsnefndar dags. 14. maí 2019. Fundargerðin er í 6 liðum.
Liðir 1 til 5 hafa þegar verið teknir til afgreiðslu í þessari fundargerð sveitarstjórnar undir liðum 7-11.
Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina að öðru leyti.
Lögð fram fundargerð 12. fundar skipulagsnefndar dags. 17. maí 2019. Fundargerðin er í 1 lið.
Liður 1 hefur þegar verið tekinn til afgreiðslu í þessari fundargerð sveitarstjórnar undir lið 12.

19. Skóla- og félagsmálanefnd: Fundargerðir - 1809011

Lögð fram fundargerð 9. fundar skóla- og félagsmálanefndar dags. 15. maí 2019. Fundargerðin er í 7 liðum.

Sveitarstjórn staðfestir fundargerðina samhljóða.

20. Nefnd um endurbygging sundlaugar: Fundargerðir - 1905011

Lagðar fram fundargerðir nr. 1 og 2, dags. 6. og 13. maí 2019, frá nefnd um endurbyggingu sundlaugar.

21. Héraðsnefnd Þingeyinga bs: Vorfundur 2019 - 1905012

Lagt fram ársskýrsla og ársreikningur héraðsnefndar Þingeyinga bs 2018, ársreikningur Safnahússins, ársskýrsla MMÞ, almannavarna og önnur gögn frá vorfundi HNÞ dags. 15. maí 2019 sem haldinn var í Mývatnssveit.

22. Héraðsnefnd Þingeyinga: Fundargerðir - 1611030

Lögð fram fundargerð frá 14. fundi framkvæmdastjórnar HNÞ bs. dags. 13. maí 2019.

23. Dvalarheimili aldraðra: Fundargerðir - 1702003

Lögð fram fundargerð frá stjórnarfundi Dvalarheimilis aldraðra sf. 15. maí 2019.Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:00


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FUNDARGER?IR

Sveitarstjórn / 14. janúar 2021

52

Velferđar- og menningarmálanefnd / 5. janúar 2021

23. fundur

Umhverfisnefnd / 30. nóvember 2020

18. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 18. nóvember 2020

21. fundur

Landbúnađar- og girđinganefnd / 11. desember 2020

9. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 21. desember 2020

22. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar II/II

Sveitarstjórn / 16. desember 2020

51. fundur

Skipulagsnefnd / 15. desember 2020

29. fundur skipulagsnefndar I/II

Atvinnumálanefnd / 3. apríl 2020

9. fundur

Atvinnumálanefnd / 7. maí 2020

10. fundur

Atvinnumálanefnd / 4. júní 2020

11. fundur

Atvinnumálanefnd / 24. september 2020

12. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. október 2020

13. fundur

Atvinnumálanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Atvinnumálanefnd / 5. nóvember 2020

15. fundur

Atvinnumálanefnd / 11. desember 2020

16. fundur

Sveitarstjórn / 9. desember 2020

50. fundur

Sveitarstjórn / 27. nóvember 2020

49. fundur sveitarstjórnar

Skipulagsnefnd / 17. nóvember 2020

28. fundur skipulagsnefndar

Velferđar- og menningarmálanefnd / 3. nóvember 2020

21. fundur

Umhverfisnefnd / 11. nóvember 2020

17. fundur

Sveitarstjórn / 11. nóvember 2020

48. fundur sveitarstjórnar

Atvinnumála- og framkvćmdanefnd / 27. október 2020

14. fundur

Skóla- og félagsmálanefnd / 21. október 2020

Skóla- og félagsmálanefnd

Skóla- og félagsmálanefnd / 21. október 2020

Skóla- og félagsmálanefnd

Sveitarstjórn / 28. október 2020

47. fundur

Sveitarstjórn / 7. október 2020

46. fundur

Velferđar- og menningarmálanefnd / 6. október 2020

20. fundur

Umhverfisnefnd / 5. október 2020

16. fundur