Sk˙tusta­ahreppur

  • Sk˙tusta­ahreppur
  • 11. maÝ 2017

Í Skútustaðahreppi í Mývatnssveit eru skráðir íbúar 476 þann 1. desember 2020. Þar af búa um 200 í þéttbýlinu í Reykjahlíð. Skútustaðahreppur í Suður-Þingeyjarsýslu, er hálendasta og víðlendasta sveitarfélag landsins sem nær upp á miðjan Vatnajökul, en byggð er nánast öll í Mývatnssveit. Náttúrufar
sveitarfélagsins hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og má þar helst nefna Mývatn, Dimmuborgir, jarðhitasvæði, leirhveri og Ódáðahraun. Lífríki og landslag svæðisins er mótað af mannvist í þúsund ár og á sér djúpar rætur í landbúnaði sem að mörgu leyti byggðist á þeim sérstöku hlunnindum sem þar eru, en glímdi einnig við harðneskju hins eldbrunna landslags. Vel varðveittar og mjög fornar byggðarminjar er víða að sjá.
Stefna sveitarfélagsins er m.a. að vera í fararbroddi meðal íslenskra sveitarfélaga í umhverfisstarfi og umhverfisvernd og jafnframt að vera aðlaðandi ákvörðunarstaður fyrir innlenda og erlenda ferðamenn til að njóta hinnar einstöku náttúru í sveitarfélaginu. Sérstök áhersla er lögð á verndun fuglalífs og lífríkis vatna og áa sbr. lög um verndun Laxár og Mývatns.
 

Atvinnumál
Á árum áður var meginatvinna Mývetninga bundin landbúnaði og silungsveiði úr Mývatni. Á síðari árum hafa orðið verulegar breytingar á. Kísiliðjan tók til starfa á ofanverðum sjöunda áratugnum og var stærsti atvinnuveitandinn í Mývatnssveit, en henni var lokað 2004. Þá eru all mörg störf við raforkuframleiðslu en í Bjarnarflagi og við Kröflu eru orkumannvirki. Ferðaþjónusta hefur lengi verið stunduð í  Mývatnssveit og er orðin stærsta atvinnugreinin á svæðinu. Hér eru nokkur hótel, veitingastaðir, tjaldsvæði og fleiri fyrirtæki sem tengjast ferðamennsku og eru gistipláss vel á annað þúsund. Ferðaþjónusta er orðin að heils árs atvinnugrein. Talsverð uppbygging á sér stað um þessar mundir í ferðamennsku.

Um Mývatn
Mývatn er fjórða stærsta vatn landsins, 36,5 km2. Það er í 277 m. hæð y.s. vogskorið, með mörgum hólmum og eyjum, yfir 40 talsins. Mývatn er grunnt, mesta dýpi aðeins um 5 metrar. Við Mývatn er talið að fleiri andartegundir séu en á nokkrum öðrum stað á jarðríki. Annað fulglalíf er einnig verulega fjölskrúðugt. Náttúrufergurð við Mývatn er einstök. Mikill straumur ferðafólks er til Mývatns að sumarlagi. Margir hafa á orði að Mývatn sé ekki síður tilkomumikið að vetri til. Nokkrir staðir við Mývatn draga sérstaklega að sér ferðamenn. Má þar nefna Dimmuborgir, Höfða, Hverfjall/Hverfell, Leirhnjúk/Kröflu, gervigígana við Skútustaði, hverina austan Námaskarðs, Grjótagjá og áfram mætti telja.

Úr Mývatni rennur Laxá, ein gjöfulasta og eftirsóttasta veiðiá landsins. Í Mývatn rennur aðeins Grænilækur úr Grænavatni á yfirborði. Mest allt það vatn sem í Mývatn rennur fellur til neðan jarðar, bæði heitt og kalt.

Mývatn dregur nafn af mývargi, sem mörgum er til ama. Mýið er tvenns konar, þ.e.bitmý og rykmý. Tegundirnar eru hins vegar fjölmargar. Hætt er við að náttúrufar væri með öðrum hætti ef ekkert mý væri til staðar, þar sem mýið er stór hluti fæðu ýmissa fugla sem og silunga.

Þrátt fyrir að Mývatn sé uppi á hálendi hefur sveitin verið  fjölbyggð frá öndverðri byggð Íslands. Eflaust hefur mestu skipt hversu gjöfult vatnið hefur verið um aldir.

Hofstaðir

Hofstaðir í Mývatnssveit standa skammt austan Laxár á þeim stað sem telja má að Laxárdalur hefjist. Jörðin er umlukin vötnum, Laxá í Mývatnssveit, sem rennur í djúpri hrauntröð, að sunnan og vestan, Sandvatni að norðan og Sortulæk að austan. Að norðvestanverðu á jörðin jarðamerki á móti Hamri í Laxárdal og að suðaustanverðu á móti Geirastöðum. Víðfeðmt heiðarland, Hofstaðaheiðin, liggur um miðbik jarðarinnar. Nokkuð er um uppsprettur og graslendi og uppvaxandi kjarr meðfram ánni, en lyngmóar einkenna gróðurlendið er fjær dregur. Hofstaðalandið er að stærstum hluta án mannvirkja og myndar heildstætt náttúru- og menningarlandslag. Jörðin er frekar stór með hlunnindi af veiði og varplandi, enda nátengd frjósömu lífríki Mývatns og Laxár. Á Hofstöðum eru merkar fornminjar dreifðar um jörðina, heima við túnin, uppi á heiðinni og á jöðrunum. Unnið hefur verið að umfangsmiklum fornleifarannsóknum síðastliðin ár en ekkert svæði á Íslandi er rannsakað jafn mikið. Niðurstaða rannsókna gefa sterklega til kynna að á Hofstöðum hefur verið stórbýli á landnámsöld fyrir kristintöku og bera ummerki vitni um trúarmiðstöð þar sem fram hafa farið heiðin blót í mjög stórum skála. Þá eru leifar kirkju með kirkjugarði á bæjarhólnum en grafið var í garðinn milli 10. og 13. aldar.

Landbúnaður

Í aldanna rás hefur landbúnaður verið undirstaða búsetu í Mývatnssveit. Búum hefur þó frekar fækkað í sveitinni á undanförnum árum og hefur þróunin sumstaðar verið á þá leið að þau minnki og verði að aukabúgrein með annari vinnu. Í Mývatnssveit eru um 20 bú með sauðfjárbúskap, þar af eru átta sem stunda bæði kúa- og sauðfjárbúskap, en eitt bú er einvörðungu með kýr. Jarðvegur við Mývatn er frekar erfiður til ræktunar, bæði vegna mikilla hrauna en einnig eru nokkur svæði mjög þurr og erfið til ræktunar. Helstu tún sveitarinnar eru vestan vatnsins í Hofstaðaheiðinni en margir bændur sækja slátt einnig út úr sveitinni. Mikið afréttarland er í Skútustaðahreppi bæði til suðurs og einnig í austur að Jökulsá að Fjöllum.

 

Nánari upplýsingar um ferðaþjónustu í Mývatnssveit:

Mývatnsstofa, upplýsinga- og bókunarmiðstöð
Hlíðavegi 6, 660 Mývatn
Sími 867 8723
www.myvatnsstofa.is - info@visitmyvatn.is

 


Deildu ■essari frÚtt

AđRAR S═đUR